

Þekkt sjónvarpskona í Bretlandi, Mary Portas, lýsti því á dögunum í athyglisverðu viðtali hvers vegna hún hafi lagt þunga áherslu á að bróðir hennar myndi verða líffræðilegur faðir barns hennar.
Portas, sem meðal annars hefur stýrt sjónvarpsþáttum fyrir BBC, á soninn Horatio með eiginkonu sinni, Melanie Rickey. Fyrir átti Portas sjálf tvö börn úr öðru hjónabandi en þegar Rickey þrýsti á að þær myndu eignast barn saman hafi Portas lagt mikla áherslu á að skyldleiki yrði milli barnanna þriggja.
Þess vegna hafi hún beðið bróður sinn, Lawrence, að vera sæðisgjafa. Segist hún eiga í sérstöku sambandi við bróður sinn og vitað að hann hefði ekkert sérstaklega verið á þeim buxunum að eignast barn sjálfur. Segja má því að nokkrar flugur hafi verið slegnar í einu höggi.
Sonurinn Horatio fæddist síðan árið 2012 og segir Portas að það hafi verið ein fallegasta stund lífsins þegar hún sá bróður sinn halda á syninum. Drengurinn líkist mjög fjölskyldu hennar og á náið samband við móðurbróður sinn, sem vill svo til að er einnig líffræðilegur faðir hans.