

Leikkonan Amanda Seyfried er ekki tilbúin að biðjast afsökunar á ummælum um áhrifavaldinn Charlie Kirk, sem var skotinn til bana í september. Leikkonan hefur verið harðlega gagnrýnd af aðdáendum Kirk fyrir að kalla áhrifavaldinn hatursfullan eftir að hann var myrtur með sviplegum hætti.
„Ég ætla ekki að fokking biðjast afsökunar á því,“ sagði leikkonan í samtali við Who What Wear á dögunum. „Ég meina, fjandinn hafi það, ég nefndi eitt atriði. Það sem ég sagði á sér stoð í raunveruleikanum, raunverulegu myndefni og tilvitnunum. Það sem ég sagði var frekar rétt og mér er frjálst að hafa skoðanir. Guði sé lof fyrir Instagram. Þar gat ég sett þetta í smá samhengi, þetta snerist um að endurheimta rödd mína því ég upplifði að henni hefði verið stolið og afbökuð – sem er eitthvað sem fólk gerir, að sjálfsögðu.“
Kirk var skotinn í hálsinn á viðburði á vegum háskóla í Utah. Hann var þekktur innan raða hægrimanna og rak samtökin Turning Point USA. Hann var 31 árs þegar hann lést og skildi eftir sig eiginkonu og tvö börn. Eftir að hann lést birti Seyfried færslu þar sem hún kallaði áhrifavaldinn hatursfullan, en íhaldsmenn töldu að þar með væri hún að gefa til kynna að hann hefði verið réttdræpur. Þetta varð til þess að leikkonan birti lengri færslu:
„Ég vil ekki hella olíu á eldinn. Ég vil bara skýra nokkuð sem hefur með óábyrgum (en skiljanlegum) hætti verið slitið úr samhengi. Líflegar umræður – er það ekki það sem við ættum að vera að gera? Við erum að gleyma blæbrigðum mannkynsins. Ég get verið reið út af kvenfyrirlitningu og kynþáttafordómum en á sama tíma verið sammála því að morðið á Charlie Kirk hafi verið bæði átakanlegt og fyrirlitlegt í alla staði. Enginn ætti að þurfa að upplifa svona ofbeldi. Þessi þjóð okkar syrgir alltof mörg tilgangslaus og ofbeldisfull dauðsföll og skotárásir. Getum við ekki að minnsta kosti verið sammála um það?“