

Myndband af grínistanum Andy Dick hefur vakið mikinn óhug, en þar má sjá hann meðvitundarlausan á almannafæri vegna meintrar vímuefnaneyslu. Atvikið átti sér stað fyrir utan fjölbýlishús í Hollywood, en vinir leikarans voru að reyna að veita honum aðstoð. TMZ greinir frá því að lögregla og slökkvilið hafi verið kölluð á vettvang.
Grínistinn sagði í samtali við miðilinn að hann væri lifandi og hefði það ágætt í kjölfarið, en hann vildi ekki tjá sig nánar um atvikið. Dick glímdi á árum áður við fíkn og hefur áður komist í köst við lögin vegna hennar. Árið 1999 var hann ákærður fyrir fíkniefnabrot eftir að hann ók bifreið sinni undir áhrifum á rafmagnsstaur í Hollywood. Árið 2004 var hann ákærður fyrir blygðunarsemisbrot eftir að hann beraði á sér bossann fyrir utan McDonalds. Hann var svo handtekinn árið 2008 grunaður um fíkniefnabrot og kynferðisofbeldi. Árin 2010 og 2011 var hann handtekinn og sakaður um kynferðisbrot og svo aftur árið 2018 sem varð til þess að hann var skráður á sérstakan opinberan lista yfir kynferðisbrotamenn. Þá hafði hann gripið um kynfæri ökumanns leigubifreiðar á vegum Uber. Árið 2021 var hann sakaður um vopnaða árás, árið 2022 var hann sakaður um kynferðisbrot gegn karlmanni og innbrot. Hann var svo seinast handtekinn snemma árs 2023 fyrir ölvun á almannafæri og fyrir að vanrækja að skrá sig sem kynferðisbrotamann.
Hann hefur gengist við hluta brota sinna og árið 2016 vísaði hann til þess að fíknin væri honum erfið og hefði hann þá 20 sinnum reynt að verða edrú í gegnum meðferð.
Comedian Andy Dick suffers an apparent overdose in a video that shows bystanders trying to revive him.
— No Jumper (@nojumper) December 10, 2025