fbpx
Fimmtudagur 11.desember 2025
Fókus

Dagbjört deilir áhrifaríku ráði fyrir jólin en eflaust flestir ekki tilbúnir að taka því

Fókus
Fimmtudaginn 11. desember 2025 09:59

Dagbjört Harðardóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagbjört Harðardóttir, sérfræðingur í foreldrasamstarfi og forvörnum hjá Heimili og Skóla – Landsamtök foreldra, er með ýmis ráð fyrir fólk til að draga úr áreitinu í desember og hún segir að það sé eitt skref sem er sérstaklega áhrifaríkt; að draga úr skjánotkun.

„Nú er desember gengin í garð og jólin nálgast óðfluga. Yfirleitt er margt um að vera á þessum tíma árs, uppbrotsdagar, jólaboð, tónleikar og aðrir fjölbreyttir viðburðir sem gera mánuðinn bæði hátíðlegan og skemmtilegan, en líka oft ansi annasaman,“ segir hún í pistli á Vísi og bætir við að desember fylgir gjarnan aukið álag og áreiti, bæði fyrir börn og fullorðna.

„Við getum ekki stýrt öllu því sem mætir okkur í dagsins amstri, en við getum þó haft áhrif á hluta af því. Samfélagsmiðlar eru gott dæmi um áreiti sem getur tekið óþarflega mikið pláss í okkar lífi. Þeir geta meðal annars ýtt undir samanburð, óraunhæfar væntingar og tilfinningu um að við séum ekki að standa okkur nægilega vel. Þess vegna þurfum við fullorðna fólkið, að kunna að setja mörk á þetta áreiti, bæði fyrir okkur sjálf og ekki síst fyrir börnin okkar. Við viljum ekki að samanburður, óraunhæfar væntingar og mikið áreiti skyggi á hátíðirnar.“

Dagbjört segir að eitt áhrifaríkt skref til þess að draga úr áreitinu er að draga úr skjánotkun.

Hún, ásamt öðrum hjá Heimili og skóla – Landsamtökum foreldra, hitta reglulega bæði nemendur og foreldra í fræðslum. Hún segir að reglulega komi upp umræða um fyrirmyndir og að börn tali mikið um að foreldrar þeirra séu ekki sérstaklega góðar fyrirmyndir í skjávenjum.

„Þetta ræðum við einnig við foreldrana og hvetjum til þess að vera góðar fyrirmyndir í þessum efnum, því börnin læra það sem fyrir þeim er haft.“

Dagbjört segir að desember sé kjörinn mánuður til þess að endurmeta skjávenjur heimilisins.

„Það getur verið mjög gagnlegt að setjast niður saman sem fjölskylda og móta sameiginlegar skjáreglur heimilisins. Þá fá allir heimilismeðlimir að leggja sitt að mörkum, reglurnar verða skýrari og sanngjarnari og því líklegra að þeim verði fylgt. Einnig skiptir miklu máli að ræða saman um af hverju reglurnar séu mikilvægar og hvernig of mikil skjánotkun getur haft áhrif á líðan, svefn, einbeitingu og ekki síst áhrif á samveru. Erum við raunverulega til staðar í samveru eða erum við bara í skjáunum okkar?“

Dagbjört hvetur fólk til að leggja frá sér snjalltækin og vera til staðar. „Fyrir okkur sjálf og fyrir börnin okkar,“ segir hún.

Lestu allan pistilinn í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt