

News.com.au segir frá þessu og vísar í umdeilda færslu mannsins á Reddit. Í færslunni segir maðurinn að eftir að þau höfðu búið saman í ár hafi konan tekið upp á því að hætta að sturta niður þegar hún var búin að pissa.
Hann segir að hún geri þetta „til að spara vatn“ en afleiðingarnar eru þær að það er alltaf „þvaglykt“ inni á baðherbergi.
Maðurinn segir að steininn hafi tekið úr þegar konan tók upp á því að gera þetta þegar hún fór á blæðingar á dögunum.
„Mér er alveg sama þó ég spari einhverjar krónur á einhverjum lítrum af vatni, þetta er viðbjóðslegt. Þú verður að sturta niður í HVERT SKIPTI,“ sagði maðurinn og tók fram að konan hans hefði orðið sár þegar hann ræddi þetta við hana og orðið þögul í kringum hann.
Maðurinn leitaði ráða hjá netverjum og virðist hafa búist við stuðningi í athugasemdakerfinu. Flestar voru þó frekar neikvæðar í hans garð.
„Þú kallaðir eiginkonu þína „viðbjóðslega“ og skilur ekki af hverju hún er sár? Reyndu að sýna smá nærgætni,“ skrifaði einn notandi.
„Hann hélt virkilega að við myndum allir hoppa á vagninn og vera sammála um að konan væri viðbjóðsleg,“ skrifaði annar.
Aðrir furðuðu sig á að hjónabandið hafi ekki enn endað með skilnaði
„Í hreinskilni sagt ætti þessi uppákoma og móðgun að leiða til þess að hún flytti út,“ sagði einn.
Í frétt News.com.au segir sambandsráðgjafinn Susie Kim þessi hegðun mannsins sé skaðleg fyrir hjónabandið.
„Raunveruleikinn er sá að þegar fólk býr saman snúast mörg samskiptin um ýmis smáatriði, heimilisvenjur og rútínur,“ sagði Kim.
„Ef hegðun makans á klósettinu pirrar þig getur það haft áhrif á þig á hverjum degi og smám saman byggt upp gremju,“ segir hún og bætir við að það hvernig pör takast á við ágreining, stóran eða lítinn, endurspegli heilsu sambandsins. Athugasemdir mannsins gefi til kynna skort á virðingu og ákveðna fyrirlitningu.