

Ragnhildur er sálfræðingur með áherslu á heilsusálfræði og lærður einkaþjálfari.
„Alltof margir sjá að eina leiðin til að borða hollt sé að skera allskonar út úr mataræðinu. Sleppa hveiti, sykri, smjöri. Forðast kolvetni eins og hnerrandi mann. Brauð verður Satans, mjólk úr belju víkur fyrir mjólk úr plöntu,“ segir Ragnhildur.
„Allt þetta veldur skorthugsun sem á einhverjum tímapunkti leiðir til að FOKKITT mætir í öllu sínu veldi og áður en þú veist af liggur kexpakkinn örendur á gólfinu.“
„Hvað með að prófa nýja nálgun?“ spyr hún.
„Hvað með í staðinn fyrir að naga sundur kinnarnar í viljastyrk að sleppa allskonar að bæta frekar við góðum valkostum og ýta þannig ósjálfrátt út því sem þú vilt gera minna af?
Því það er hreinlega ekki pláss fyrir ropvatn og kruðerí þegar við erum vel nærð af prótíni, hæglosandi kolvetnum, trefjum og góðri fitu og þú steingleymir skyndilega skápaskröltinu á kvöldin. Þegar við borðum nóg af kolvetnum er blóðsykurinn jafn og minni löngun í sykur og sætmeti.“
„Bættu við grófu korni, haframjöli, kartöflum, rótargrænmeti og hrísgrjónum í máltíðirnar.
Þegar við byrjum daginn á 25-30 g af prótíni keyrum við sedduna uppúr öllu valdi og setur tóninn fyrir daginn.
Prófaðu að dúndra inn NOW Foods Iceland prótíndufti í hafragrautinn, skyri í múslíið eða skrambla egg á pönnu á gróft brauð.
Þegar við fáum 7-9 tíma svefn eru svengdar og sedduhormónin hamingjusöm og í jafnvægi. Svefn heldur jafnvægi á blóðsykri, og dregur úr pervertískum löngunum í súkkulaði, snakk og kex og skjóta orku úr pakka, plasti eða álpappír.
Láttu símann minna þig á að hunskast fyrr í bælið
Ef þú lyftir lóðum eykst sjálfstraustið uppúr öllu valdi, vöðvamassinn eykst og grunnbrennslan dúndrast upp og blóðsykurinn jafnari.
Meiri trefjar þýðir meiri mettun og minna pláss fyrir Dórítós.
Skutlaðu Psyllium husk í hafragrautinn og auktu við grófa kornið.
Ef þú ferð út að labba þá eyðirðu minni tíma fyrir framan imbann.
Farðu í göngutúr eftir kvöldmat, þá sefurðu líka betur.
Ef þú hittir vinina og hlærð dátt þá losarðu serótónín og oxýtócin sem stuðlar að meiri vellíðan og hamingju.
Reyndu að gera eitthvað félagstengt 2-3x í viku.“