fbpx
Þriðjudagur 07.október 2025
Fókus

„Mörgum finnst að ég geti alveg gefið þeim peninga eða að það þurfi ekki að borga til baka. Þannig hef ég tapað vinum.“

Fókus
Þriðjudaginn 7. október 2025 12:38

Reynir Grétarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reynir Grétarsson viðskiptamaður segist hafa ákveðið að opna sig upp á gátt í nýrri sjálfsævisögu, eftir að hafa forðast að tala um sjálfan sig í áraraðir. Reynir, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist þegar hafa fengið mikil viðbrögð frá hátt settu fólki í samfélaginu sem tengi óþægilega við þá erfiðleika sem hann lýsir í bókinni:

Lét allt flakka

„Ég hef í gegnum árin forðast að tala um sjálfan mig og það er nýtt fyrir mér að opna mig á þennan hátt. En ef maður ákveður að gera svona bók þarf maður að koma henni á framfæri og hluti af því er að tala um sjálfan sig. Ég ákvað að vera persónulegur í þessarri bók og tala bara um það sem var í gangi á hverju tímabili fyrir sig. Hvort sem það var þegar ég var þunglyndur, eða að opna mig um áfengisvandamál eða ástarsorg, þá lét ég það bara flakka. Það er erfitt að stíga þetta skref og setja þetta út, en ég finn að ég er að fá mjög jákvæð viðbrögð eftir að bókin kom út. Það hefur mikið af fólki haft samband við mig og sagt að því finnist óþægilegt hvað það tengir mikið við söguna mína. Það að deila er heilandi fyrir bæði þann sem deilir og þann sem hlustar á söguna. Það að gefa út svona persónulega bók er heilandi fyrir mig,” segir Reynir og heldur áfram:

„Þeir sem hafa haft samband við mig eru oft aðilar sem eru í svipaðri stöðu, hefur gengið vel fjárhagslega, en eru samt að díla við það sama og annað fólk. Fólk sem segir kannski: ,,Ég er búinn að taka þunglyndislyf í 15 ár og þori ekki að segja nokkrum lifandi manni frá því.” Fólk sem er framarlega í viðskiptalífinu eða stjórnmálum eða öðrum stöðum þar sem það þarf að halda í ákveðna ímynd. Þér finnst að þú eigir að vera sterkari og betri en aðrir og fyrirmynd sem á ekki að vera að díla við svona hluti. Það er áhugavert hvað þetta er enn mikið taboo að opna á sjálfan sig. Ég á alveg vini sem ráðlögðu mér eindregið að segja bara bisness-hlutann af sögunni minni, en alls ekki vera að opna á vandamálin mín, konurnar í lífi mínu eða annað persónulegt. En ég hugsaði með mér að ég vildi einmitt opna á þessa hluti til að neyða lesandann til að taka meðalið með súrmjólkinni.”

Síminn hættur að hringja og allt í himnalagi

Í Bókinni „Fjórar árstíðir” rekur Reynir sögu sína og fer meðal annars yfir tímabilið þegar hann stofnaði og stjórnaði fyrirtækinu Lánstraust, sem varð síðar Creditinfo. Eftir að hafa byggt upp öflugt alþjóðlegt fyrirtæki frá grunni, hefur hann nú selt sinn hlut í fyrirtækinu og ákvað fyrir nokkrum árum að taka algjöra u-beygju. Í þættinum ræðir Reynir um þann veruleika að eiga mikið af eignum og hvernig það getur breytt samskiptum við fólk:

„Ég ákvað fyrir einhverju síðan að halda því sem ég á inni í fyrirtækjarekstri og gera það sem ég gæti til að lifa sem venjulegustu lífi. Allar mínar eignir eru inni í félagi sem aðrir stýra og ég er ekki með 100 milljónir inni á bankabókinni minni. Mér finnst mjög þægilegt að vera búinn að kúpla mig út úr þessu. Eftir að ég skipti um takt man ég eftir því þegar ég var á eyju í Asíu og kominn frá því að vera stanslaust inni í þessarri hringiðu. Allt í einu var ég þarna á einhverri eyju hinum megin á hnettinum og síminn hættur að hringja og það var bara allt í góðu lagi í lífinu,” segir Reynir og heldur áfram:

„Mörgum finnst að ég geti alveg gefið þeim peninga eða að það þurfi ekki að borga til baka. Þannig hef ég tapað vinum. Líka fólk sem hefur unnið fyrir mig og rukkar svo allt of mikið bara af því að það er ég. Ég er ekki að barma mér yfir neinu, en ég lýsi ákveðnum veruleika í bókinni. Það bendir margt til að þegar eignir þínar fara yfir ákveðinn þröskuld fari lífsgæðin niður. Meðal annars af því að fólk fer að umgangast þig öðruvísi. Peningar geta verið hættulegir og þeir geta skemmt vináttu, fjölskyldur og fleira. Sumir halda að þeir séu betri en aðrir af því að þeir eignast peninga. Það er algengt að fólk noti valdið sem peningum fylgir til að drottna yfir fólki. Sumir fara gjörsamlega í hausnum við það að eignast pening og fólk smjaðrar oft fyrir þeim sem eiga peninga og það býr til skrýtna stöðu. Ég hef aldrei viljað láta veraldlega hluti, peninga eða eignir skilgreina mig sem manneskju.”

Alinn upp á erfiði og hörku

Reynir og Sölvi tala í þættinum um Ísland í gegnum áranna rás og hvernig fyrri kynslóðir ólust upp í mikilli hörku, sem yngra fólkið í dag þekkir yfirleitt ekki:

„Eldri kynslóðin á Íslandi var með þann hugsunarhátt að það þyrfti að herða börnin til að undirbúa þau undir lífið. Lífið væri bara erfitt og hart og þú gætir ekki náð neinum árangri nema með ákveðinni hörku. Ég var allinn upp þannig og flestir af minni kynslóð. En svo erum við komin í allt aðra stöðu núna. Almennt séð er lífið á Íslandi mjög gott núna og ef þú berð það saman við Ísland á árum áður eða bara flest samfélög yfir höfuð, þá erum við á mjög góðum stað. En þá er auðvitað mögulegt að pendúllinn snúist og við förum að verða of góð við okkur og að það verði ákveðin bómullarvæðing. Ég hafði áhyggjur af þessu með börnin mín af því að ég vildi alls ekki að þau væru byrjuð að vinna sex ára og taka lífið svona alvarlega frá barnsaldri. En svo hafði ég áhyggjur af dóttur minni þegar hún var unglingur að hún væri bara í sófanum í símanum. En núna er hún læknir, rosalega dugleg og flott og á fallegt heimili og tvö börn. Ég hélt að við værum að ala upp heila kynslóð af aumingjum af því að við vildum ekki ala upp börn í sömu hörku og ábyrgð og við vorum alin upp í. En mér sýnist að það séu að koma upp talsvert heilbrigðari einstaklingar núna en áður.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Þegar mamma mín dó – Einlæg og persónuleg frásögn af sorg, söknuði og sektarkennd

Þegar mamma mín dó – Einlæg og persónuleg frásögn af sorg, söknuði og sektarkennd
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Sólin var vitni hafði mikil áhrif því hún opnaði fyrir mér heim glæpasögunnar“

„Sólin var vitni hafði mikil áhrif því hún opnaði fyrir mér heim glæpasögunnar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Isla Fisher rýfur þögnina um skilnaðinn: „Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum“

Isla Fisher rýfur þögnina um skilnaðinn: „Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Í sundur eftir 27 ára hjónaband og hneyksli sem endaði með fangelsisvist

Í sundur eftir 27 ára hjónaband og hneyksli sem endaði með fangelsisvist
Fókus
Fyrir 6 dögum

Ný stytta af Tinu Turner sögð vera viðurstyggð – Líkt við styttur Cristiano Ronaldo og Mo Salah

Ný stytta af Tinu Turner sögð vera viðurstyggð – Líkt við styttur Cristiano Ronaldo og Mo Salah
Fókus
Fyrir 6 dögum

Sagður vera strax byrjaður að hitta yngri konu

Sagður vera strax byrjaður að hitta yngri konu