Guðrún Svava Egilsdóttir, betur þekkt sem Gugga í Gúmmíbát, hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum.
Gugga vakti mikla athygli í nýjasta þætti Bannað að hlæja, sem sýndir eru á Stöð 2. Þar snýst leikurinn um að fimm þekktir einstaklingar mæta í þriggja rétta matarboð og keppast um að fá stig og fara með sigur af hólmi. Þurfa keppendur að halda andliti og hlæja ekki að stríðni og skotum hinna, en keppendur fá stig fyrir að láta hina gestina fara að hlæja.
Gugga fór með sigur af hólmi, enda áttu líklega hinir keppendurnir von á litlu frá henni. En Gugga fór léttilega með að skófla sjálfstrausti karlmannlega jafn hratt niður og matnum, og gerði stólpagrín að hæð Emmsjé Gauta og hárlínu blaðamannsins Helga Seljan á RÚV. Allar varnir Andra Fannars Viðarssonar, sömuleiðis af RÚV, féllu niður við fyrstu viðreynslu Guggu, en hún hafði tilkynnt Auðunni Blöndal þáttastjórnanda fyrir tökur að hún myndi einbeita sér að því að reyna við hann.
Í sömu viku gerði Gugga sér lítið fyrir og keppti fyrir Hauka í spurningaþættinum Kviss, ásamt Jóhönnu Helgu Jensdóttur, og komust þær áfram í 8 liða úrslit.
Gugga er 22 ára og starfar á Kírópraktorstofu Íslands, sem er rekin í Sporthúsinu í Kópavogi. Foreldrar hennar, Agnes Matthíasdóttir og Egill Þorsteinsson, eru á meðal eigenda stofunnar. Egill hefur starfað við fagið frá árinu 1998 og er meðal færustu kírópraktora landsins.
Foreldrar hans eru skáldið Þorsteinn frá Hamri og Guðrún Svava Svavarsdóttir, myndlistakona og fótaaðgerðafæðingur. Þorsteinn lést 28. janúar 2018, en hann átti sjö börn.
Þorsteinn gaf sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli út aðeins tvítugur að aldri, en alls urðu ljóðabækur hans 26 talsins. Þorsteinn skrifaði einnig skáldsögur og sagnaþætti og eftir hann liggja fjölmargar þýðingar. Þorsteinn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1992 fyrir ljóðabókina Sæfarinn sofandi. Hann var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fimm sinnum. Þorsteinn hlaut Menningarverðlaun DV í bókmenntum árið 1981 fyrir skáldsöguna Haust í Skírisskógi auk fjölda annarra verðlauna. Árið 1996 var honum veittur riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir ritstörf og Heiðurslaun Alþingis frá 2001.
Sonur Þorsteins og Ástu Sigurðardóttur rithöfundar, Kolbeinn Þorsteinsson, föðurbróðir Guggu, gaf nýlega út bókina Mamma og ég sem lýsir sambandi hans og móður hans, sem lést þegar Kolbeinn var níu ára. Börn Þorsteins og Ástu voru fimm talsins.
Móðurbróðir Guggu er tónlistarmaðurinn góðkunni Matthías Matthíasson, betur þekktur sem Matti Matt.