Arna Magnea Danks hlaut nýlega verðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki í kvikmynd Snævars Sölvasonar, Ljósvíkingar.
Verðlaunin hlaut hún á kvikmyndahátíðinni Out At The Movies sem haldin var í Winston Salem í Bandaríkjunum.
Ljósvíkingar, sem kom út í september árið 2024, fjallar um æskuvinina Hjalta (Björn Jörundur Friðbjörnsson) og Björn (Arna Magnea Banks) sem reka fiskveitingastað í sínum heimabæ yfir sumartímann. Þá dreymir um að geta haft opið allt árið um kring og þegar óvænt tækifæri þess efnis bankar upp á, tilkynnir Björn vini sínum að hún sé trans kona og muni framvegis heita Birna. Þessar breytingar reyna á vináttuna og þurfa þau bæði að horfast í augu við lífið á nýjan hátt til þess að bjarga því sem mestu máli skiptir.
Í september hlaut myndin áhorfendaverðlaunin á hinni árlegu Mix – International Festival of LGBTQ+ Cinema and Queer Culture. Hátíðin var haldin 18. – 21. september í 39. sinn í Milanó á Ítalíu.
Í júní hlaut myndin áhorfendaverðlaun á þýsku kvikmyndahátíðinni Emdem Norderney. Og í sama mánuði þrenn verðlaun á Kashish Pride Film Festival í Mumbai á Indlandi, sem besta leikna mynd hátíðarinnar, Arna fyrir besta leik í aðalhlutverki og myndin hlaut einnig sérstaka viðurkenningu frá dómnefnd fyrir handritið.
„Það er ekki á hverjum degi sem trans kona eins og ég fær verðlaun. Ég þakka leikstjóra mínum og mótleikara og öllum þeim sem tóku þátt í að skapa þetta listaverk, sem er einstakt ekki bara fyrir Ísland heldur allan heiminn,“ sagði Arna í umfjöllun við Variety.