Um er að ræða íslenska leikna þáttaröð um fyrrverandi tollvörðinn Felix sem flytur ásamt eiginkonu sinni, Klöru, í þjónustuíbúð fyrir aldraða í Reykjavík.
„Á meðan Klara nýtur frelsisins rankar Felix við sér í innihaldslausum hversdagsleika eftir langa starfsævi og leitar tilgangs,“ eins og segir í kynningu fyrir þættina á vef RÚV.
Kolbrún skrifar fjölmiðlapistil um fyrsta þáttinn í Morgunblaðið í dag og ef marka má skrif hennar var hún ánægð með byrjunina.
„Við verðum að horfast í augu við þá óþægilegu staðreynd að karlmenn geta sumir verið ansi leiðinlegir. Engin ástæða til að velta sér upp úr því, þeir eru bara þarna,“ segir Kolbrún og bætir svo við að enginn túlki leiðinlega karlmenn betur en Jón Gnarr.
„Hann gerði það sem Georg Bjarnfreðarson og nú skapar hann nýjan leiðindagaur í þáttunum Felix og Klara sem RÚV sýnir á sunnudagskvöldum,“ segir Kolbrún sem rifjar upp nokkur fyndin atriði úr fyrsta þættinum.
„Felix hélt einræðu yfir nýjum kaupendum íbúðar hans og eiginkonunnar. Ungmenni fengu fyrirlestur um það hvernig eigi að losa sig við tóma dós. Felix vildi ólmur nýta gamla og skítuga úlpu sem hann fann á víðavangi. Mjög fyndið en um leið átakanlegt því Felix gerir sér enga grein fyrir því hversu þreytandi hann er.“
Kolbrún bendir enn fremur á að Edda Björgvinsdóttir leiki sárþjáða eiginkonu hans og túlki hana afar sannfærandi.
„Enn er harmur þarna á ferð því Klara hefur eytt áratugum í hjónabandi með manni sem virðist eiga afskaplega erfitt með að gleðjast yfir lífinu. Gervi Jóns Gnarr er svo kapítuli út af fyrir sig og ekki hægt að hrósa því nægilega. Ljósvakahöfundur er afar hrifinn og bíður spenntur eftir næsta þætti.“