„Ég á góða foreldra og elska þau fyrir það sem þau eru,“ segir hún.
Birna eignaðist sitt fyrsta barn aðeins nítján ára gömul. „Ég hef oft sagt að dóttir mín hafi komið í heiminn og bjargað mér, hún kenndi mér miklu meira en ég henni, eins og öll börnin mín,“ segir hún.
Fyrir tíu árum kynntist Birna núverandi manni sínum, Gústa, en hann situr í fangelsi í dag fyrir vörslu fíkniefna.
„Hann var þá búinn að vera edrú í þrjú ár svo ég þekkti hann aldrei undir áhrifum. Hann er góður pabbi en er óþekkur.“
Aðspurð út í dóminn sem maðurinn hennar fékk og misskilning varðandi mál hans í samfélaginu segir hún: „Hann fékk tíu ára dóm fyrir vörslu fíkniefna en misskilningurinn er sá að hann hafi verið dæmdur fyrir hlut sinn í svokölluðu saltdreifara máli. Varslan tengdist auðvitað að hluta kannski en hann var ekki ákærður í því máli, heldur fyrir vörslu.“
Birna hefur talað opinskátt um málefni barna fanga og hversu erfitt hlutverk börnin fá, óumbeðin. Oft er talað um börn fanga sem hin þöglu fórnarlömb.
Hún segir frá deginum þegar lögreglan mætti heim til hennar, daginn sem maðurinn hennar var handtekinn.
„Ég var með vinkonu mína í kaffi hjá mér þegar fyrst koma tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn. Þeir banna vinkonu minni að fara. Ég vissi ekkert hvað var í gangi og þeir vildu ekki segja mér neitt,“ segir hún.
Á þessum degi voru sjö lögregluþjónar inni á heimili Birnu, bæði frá fíknó og almenn lögregla. „Það var ein lögreglukona og einn maður sem voru algjörlega ömurleg. Þau komu illa fram, niðurlægðu mig og gerðu allt til að gera þessa samt ömurlegu lífsreynslu ennþá verri. Á meðan voru strákar í fíknó flestir æðislegir og líka sérsveitarmennirnir.“
Birna segir frá slæmri reynslu af lögreglumanni sem hrinti henni, ýtti í brjóst hennar og margt fleira ásamt því að eyðileggja allt hennar jólaskraut.
„Ég skil að þetta er bara verkefni fyrir þeim en það má samt bera virðingu fyrir manni og hlutunum manns. Þeir voru búnir að fylgjast með okkur fjölskyldunni í tvö ár og vissu að ég var ekki tengd þessu á nokkurn hátt.“
Maðurinn hennar var handtekinn og fyrst settur á Hólmsheiði og síðan Litla-Hraun.
„Ég vildi að ég hefði vitað betur en að fara með börn í heimsókn á þessa staði. Ég vildi leyfa börnunum að hitta pabba sinn og honum að hitta börnin en þetta var ógeðslegt. Að fara með börn í gegnum vopna- og öryggisleitina auk þess að sumir eða flestir fangaverðir kunnu alls ekki að nálgast börn.“
Margt hefur breyst í þessum efnum eftir að Birna lagði mikið kapp á að breyta heimsóknum barna til feðra sinna.
„Ég fór á fullt í þetta og leit á þetta sem mitt verkefni í lífinu. Nú er komið barnakot og börn þurfa ekki að fara í gegnum þetta ógeð. Nú hafa feður rétt á tólf tíma heimsókn einu sinni í mánuði í opnum úrræðum og ýmislegt fleira en það vita það ekki allir og þeim er ekki sagt frá því.“
Birna talar um Litla-Hraun sem stað sem væri löngu búið að loka ef hann væri fyrir dýr en af því það eru fangar þar þá skiptir það samfélagið okkar engu máli.
„Auðvitað eiga allir, menn og konur, að fá refsingu þegar þau brjóta af sér. Eftir það ætti að meta hversu hættulegt fólk er sjálfu sér og öðrum. Ef fólk er ekki talið hættulegt ætti það að fara sem fyrst í opið úrræði og ná að tengjast samfélaginu og fjölskyldunni ef það á hana.“
Birna segist hafa fullkomna refsingu fyrir þessa menn eins og sinn mann.
„Hann er ekki hættulegur og á fjölskyldu sem hann elskar og elskar hann. Hann átti að fara í fangelsi, síðan átti að senda hann í Bónus að sjá um kerrurnar, það er miklu meiri refsing fyrir þessa kalla. Ég viðraði þessa hugmynd við nokkra á Sogni og þeir sögðu að frekar vildu þeir sitja inni. Þetta væri miklu betra fyrir fjölskylduna og samfélagið auk þess að það er hreinlega dýrt að hafa þá í fangelsi.“
Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.