Kristjana Brynjólfsdóttir og Lilja Ósk Diðriksdóttir úr Alþjóðanefnd FKA sem stóðu fyrir uppboðinu ásamt New Icelanders FKA. Mynd: Eva Rún Eiðsdóttir
Verkið Kvennadalshnúkur, gjörningur og fatnaður með geometrísku mynstri frá íslenskum hátískuhönnuði voru meðal þeirra verka sem hægt var að bjóða í á stórglæsilegu góðgerðauppboði Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA.
Góðgerðaruppboð FKA fór fram í Gallerí Fold til styrktar UN Women Íslandi á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars. Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA stóð fyrir uppboðinu undir nafninu „Fjárfestum í konum” þar sem ágóðinn rann óskiptur til verkefna UN Women á heimsvísu og mun þannig hafa bein áhrif á líf kvenna og stúlkna í neyð og stuðla að jafnrétti.
Jákvæðni og hlátur einkenndi kvöldið og safnaðist tæplega 900 þúsund krónur fyrir UN Women á Íslandi. Framlagið mun styðja mikilvægt starf UN Women á heimsvísu og af nægu er að taka ef 300 ár eru í að raunverulegt jafnrétti náist, haldi þróunin áfram á sama hraða og nú.
Kynnir kvöldsins, Svanlaug Jóhannsdóttir, hvatti öll viðstödd til að opna veskin með góðum húmor og uppboðshaldarinn Jóhann Hansen sá um sjálft uppboðið.
„Það var hvetjandi að sjá svona margar konur koma saman til að styðja hverja aðra, hafa gaman en í senn hafa góð áhrif á samfélagið. Þessi viðburður hefði ekki orðið nema með rausnarlegum gjöfum frá Gallerí Fold, Arion banka, Coca Cola á Íslandi og öllu því frábæru listafólki sem gáfu verkin sín,“ sagði Kristjana Thors Brynjólfsdóttir frá Alþjóðanefnd FKA.