fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Róbert Marvin ólst upp í sárri fátækt, einn hjá fárveikum alkóhólista – „Þessi kona reyndist vera systir mín sem ég var búinn að finna eftir 45 ár“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 25. mars 2023 09:00

Róbert Marvin. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ólst upp með einstæðri móður sem var mikill sjúklingur, bæði andlega og líkamlega, og alveg svakalegur alkóhólisti,“ segir Róbert Marvin Gíslason, tölvunarfræðingur, verkefnisstjóri og rithöfundur.

„Hún var það forfallin að hún réði ekki við sig og tók oft nokkra daga í einu.”

Róbert sem lítill kútur

Sat einn eftir í leiðindunum 

„Maður var auðvitað meðvirkur og ég lærði snemma að meta öll svipbrigði og blæbrigði til að sjá stöðuna á henni. Ég varð því snemma ansi góður í að lesa fólk, sem reyndar hefur nýst mér á lífsleiðinni.“

Róbert átti hálfbróður, Hermann Hermannsson.

„Hann var 11 árum eldri en ég og flúði ástandið á heimilinu með því að fara til frænku okkar, hann gat það á meðan ég sat eftir í leiðindunum.“

Aðspurður um hvort enga aðstoð hafi verið að fá segir Róbert hafa verið lítið um það.

„Einna helst var verið að senda unglinga eitthvað og Hemmi bróðir slapp til dæmis naumlega við Breiðavíkurheimilið. Frænka mín, Bogga, systir mömmu, þurfti að beita öllu sínu til að hún fengi frekar að taka hann og það tókst.“

Róbert með mömmu sinni eftir flutningana í Yrsufellið.

Reyndi að draga drukkna móður sína af götunni fjögurra ára 

„Fyrsta minningin mín er af Hverfisgötunni, við bjuggum í eldgömlu húsi á Hverfisgötu 91 en það hús er ekki til lengur,“ segir Róbert um æskuárin.

„Þá var ég úti á miðri götu, þar sem mamma lá, og var að reyna að vekja hana á meðan að bílarnir óku upp að okkur. Ástandið var það slæmt. Ég var þriggja eða fjögurra ára, sem er helst til of ungt til að fólk hafi minningar, en svona nokkur situr í manni, þetta man maður.“

Móðir Róberts átti það til að beita hann ofbeldi.

„Það situr sérstaklega í mér ein minning. Hún var að baða mig í eldhúsvaskinum þegar að hún sló mig allt í einu utan undir, upp úr þurru. Ég skildi aldrei af hverju og hugsaði oft um þetta eftir að ég var eldri. Ég held að sennilega hafi ég verið fyrir henni, líklega hefur verið eitthvað djamm í gangi sem hún komst ekki á út af mér.

En hún var góð á milli og það voru góðar stundir og við héldum til dæmis alltaf jól.”

Róbert Marvin. Mynd/Valli

Kannski ekki furða að hún hafi leitað í flöskuna 

Leið mæðginanna lá næst í Breiðholtið, nánar tiltekið í Yrsufellið.

„Þetta hékk einhvern vegin saman, á voninni einni. Mamma gat lítið unnið út af sínum veikindum.

Hún fæddist fyrir tímann og hálfskinnlaus. Læknisfræði þeirra tíma var nú ekki betri en svo að hún var þakin bómull sem síðan var rifin af henni og sú húð sem hún þó hafði rifnaði með. Þetta var svakalegt og mamma bar þess merki um allan skrokkinn alla ævi.

Hún fór til dæmis aldrei í sund eða neitt slíkt.“

Mæðginin

Róbert segir lífið hafi leikið móður sína grátt.

„Hún missti frá sér tvo menn.  Annar þeirra drukknaði þegar bátur sem hann vann á sökk. Ég heiti í höfuðið á honum, Marvin.

Seinni maðurinn var faðir bróður míns. Hermann Gunnarsson. Hann dó úr krabbameini.

Heilbrigðiskerfið var svo slæmt á þessum tíma og mamma þurfti að gefa honum líknandi meðferð heima hjá sér og sprauta hann með morfíni.

Þannig að það gekk mikið á hjá gömlu og kannski ekki furða þó hún hafi leitað í flöskuna.“

Fékk hárlos af vannæringu

Róbert segir að þau mæðginin hafi að mestu lifað á félagslegri aðstoð.

„Ég gekk til dæmis alltaf í notuðum fötum og fékk hárlos af vannæringu því meginuppistaðan í mataræðinu voru egg og brauð. Þetta var ekki beint beysið.“

Róbert með umbúðir eftir aðgerð.

Sem dæmi um ástandið segir að það hafi alltaf verið að loka símanum.

„Mamma þurfti að tala svo mikið í símann þegar hún var full og svo sofnaði hún. Og á meðan tikkaði skrefatalningingin svo að við fengum reikninga upp á tugi þúsunda sem mamma gat auðvitað ekki borgað.

Guð hjálpi mér ef samfélagsmiðlar hefðu verið komnir þá, hún hefði verið þjóðþekkt,“ segir Róbert og hristir höfuðið brosandi.

Stálu sígarettum

Róbert sleppti sex ára bekk, hann var alltaf þreyttur og gat ekki vaknað í skólann.

„Ætli það hafi ekki verið vannæringin. En ég fékk undanþágu, fékk að sleppa sex ára bekk, og mætti í sjö ára bekkinn. Ég hef oft hugsað um hvað hefði gerst ef ég hefði ekki sleppt þessu fyrsta skólaári og lent í bekk með öðrum krökkum.“

Róbert Marvin. Mynd/Valli

Þar var til dæmis stúlka sem ég kynntist seinna, hún bjó í Fellunum nálægt mér, og við vorum 8 eða 9 ára að eitthvað að bulla. Hún var í svipuðum pakka og ég, mamma hennar og fjölskylda var líka í alkóhólisma og veseni með jafnvel eitthvað sterkara.

Við lékum oft saman uppi á Vatnsenda og fiktuðum stundum við að reykja. Sígaretturnar tókum við ófrjálsri hendi frá foreldrum okkar,“ segir Róbert.

Gamla vinkonan útigangsmanneskja

„Í einni Vatnsendaferðinni fundum við bréfsnifsi, sem var olíuborið og lyktaði af díselolíu. Á því stóð annað erindi úr sálmi 589 eftir Matthías Jochumsson, sem er svona:

Leið oss, ljúfi faðir,

legg oss allt til hags.

Nú er miður morgunn

mannsins vinnudags.

Hugga hjörtun ungu,

hresstu veikan móð

þeirra, sem nú syngja

síðast barnaljóð.

Pósað í Yrsufellinu

Báðum leist þeim vel á erindið.

„Við  rifumst um hver ætti að fá það til að gefa mömmu sinni. Mér verður oft hugsað til þessa atviks þegar ég velti fyrir mér af hverju ég fór ekki sömu slóð og stúlkan á Vatnsenda. En ég gaf mömmu erindið sem rammaði snifsið inn í ramma með tilheyrandi olíulyktinni.“

Mörgum árum síðar rakst Róbert á þessa sömu stúlku.

„Hún var þá útigangsmanneskja og mjög sorglegt að sjá hana. Það hefði verið auðvelt að fara í þessa sömu átt. Hefði ég farið í sex ára bekkinn hefði ég verið með þessu fólki. Hefðum ég og þessi stúlka orðið vinir til lengri tíma? Hefði það þróast úr í einhverja vitleysu?“

Eineltið

En skólagangan var ekki tekin út með sældinni.

„Það tók á, ég lenti í miklu einelti,  en maður komst í gegnum skólann.“

Ástæðan fyrir eineltinu? Robert var með útstæð eyru. „En hjá krökkum þarf ekkert til, þau finna sér alltaf eitthvað ef þau ætla sér slíkt. Þessi eineltismál eru hræðileg, það er svakalegt hvað einelti getur farið með sumt fólk.“

Svo virðist sem það hefði verið auðvelt fyrir Róbert að gefast upp við alla erfiðleikana og flýja ef til vill á vit vímunnar. En hann segir að það hafi aldrei komið til greina, hann ætlaði að fara aðra leið í lífinu.

Róberti fannst gott að komast í sveitina.

Hvaðan kom þessi styrkur og einbeiting?

„Ég hef oft spáð í þessu sjálfur, ég veit það ekki almennilega, en ég brá á það ráð að búa til minn eigin heim. Ég hafði eigið herbergi sem ég gat lokað að mér og hlustað á tónlist og þar var alltaf hreint og fínt.“

Fyrir utan hurðina var hins vegar allt á hvolfi og í vitleysu.

„Ég var líka ákveðinn í að enda ekki eins og mamma og tók því námið í tætlur, ef svo má segja. Það var beina brautin sem ég ætlaði að ganga og ég einblíndi í þá átt.“

Flúði í sveitina á sumrin

Róbert áttaði sig snemma sem barn á að ástandið á heimilinu var langt því frá að vera eðlilegt.

„Maður eignaðist einhverja vini í hverfinu og reyndi að kúpla sig út.  Ég fór til dæmis sjálfviljugur í sveit en það var ekki mikið um að krakkar færu að eigin frumkvæði í sveit. Yfirleitt voru krakkar sendir þangað því þeir voru í einhverju veseni.“

Róbert með Hermanni, bróður sínum.

En Róbert var ákveðinn í að fara.

„Ég var þrjú sumur í Árnessýslunni, á Mýrum, var þar hjá systkinum sem voru með búskap. Það var allt frekar skrítið þar og töluvert ofbeldi. Ég varð til að mynda vitni að því að það var sparkað í strák þar, stígvélin voru svoleiðis látinn ganga í kviðinn á honum.

Það var líka læst fyrir símann og bannað að hringja heim, sem ég skildi aldrei, því ég kom þangað sjálfviljugur.“

„Sem er eins og að mæta sjálfviljugur í fangelsi,” bætir Róbert við. „En það var gott að skipta um umhverfi og gaman að kynnast sveitalífinu og vera í kringum dýrin. Fyrir mér var þetta eins og gott frí.”

Róbert fór á ýmsa bæi næstu sumur. „Þetta hjálpaði mér, ég var mjög ánægður og þetta var þroskandi lífsreynsla.“

Róbert og móðir hans voru tvö í heimili öll þessi ár.

„Hemmi bróðir kom örsjaldan í heimsókn því þeim kom svo illa saman, mömmu og honum. Hann höndlaði þetta ekki og hélt sig aðallega hjá Boggu frænku, enda bara krakki sjálfur.“

Róbert Marvin. Mynd/Valli

Ætlaði ekki að feta í fótspor fyrri kynslóðar

Aðspurður um hvort Róbert hafi átt sér drauma um framtíðina segir hann þá einna helst hafa snúist um að eignast venjulega fjölskyldu.

„Ég átti góða vini sem ég heimsótti og sá fjölskyldulíf þeirra. Svo fór maður heim í svækjuna og fylleríið sem var niðurdrepandi. Ég var því snemma ákveðinn að feta ekki í fótspor fyrri kynslóðar.“

Róbert fékk styrk í gegnum Fjölbrautaskólann í Breiðholti. „Það var einhver góðhjartaður sem aumkaði sig yfir mig og því gat ég greitt skólagjöld og keypt bækur svo ég gæti stundað nám við skólann.“

Eins og pyntingar

Að því kom að Róbert þoldi ekki lengur við.

„Ég gat ekki meira. Þetta voru eins og pyntingar. Ég átti að mæta í skóla og próf og vildi bara fara að sofa á kvöldin og læsti að mér. Þetta var einn af þessum gömlu lásum sem hægt var að opna með teskeið. Mamma stóð oft fyrir framan hurðina og röflaði, ég heyrði alltaf í henni en náði nú samt oft að sofna.

Stuð í Hampiðjunni

En stundum vaknaði ég á nóttinni og þá sat hún á rúmstokknum og röflaði. Þetta var alveg skelfilegt.“

Róbert var um tvítugt þegar hann kynntist stúlku og fóru þau að stinga nefjum saman.

„Þegar hún bauð mér að flytja til sín notaði ég tækifærið, tók boðinu og við fórum að búa saman.“

Talað í kringum hlutina

„Mamma hafði talað í kringum það að hún hefði einhvern tíma átt stelpu en það var aldrei talað almennilega um þetta, mamma vildi það ekki. Stundum þegar ég var að fara í gegnum gamlar ljósmyndir sá ég myndir af fólki sem ég þekkti ekki en það var ekki fyrr en bróðir minn dó að ég komst að því hver hún er.“

Róbert segir að það sem síðar gerðist vera ótrúlegra en nokkra skáldsögu.

Nýstúdent

Hermann, bróðir Róberts, fékk krabbamein í hálsinn og fór í geislameðferð.

„Hann var týpan sem gerði hlutina án þess að hugsa, einn af þeim sem stekkur upp segir: Förum á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum núna! Og fer. Þetta var maður sem hafði svo gaman af af tala, borða og drekka. Hann var reyndar alkóhólisti líka, eins og mamma, en hætti að geta þetta allt.

Hann fór tvisvar í geislameðferð, sem maður gerir ekki, og var gegn ráði lækna. Það getur vel verið að seinni geislameðferðin hafi drepið krabbameinið en hún fór mjög illa með hann.“

Róbert ásamt eiginkonu sinni, Sirrý.

Lenska að láta frá sér börn

Hermann lést og hóf Róbert að undirbúa jarðarför sem fór fram í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

„Við konan mín erum í Fríkirkjunni, við finnum okkur vel þar þótt ég sé ekki tiltakanlega trúaður. Ég missti svolítið trúna sem krakki, ég bað og bað og bað, en það breyttist aldrei neitt.“

Hermann átti sex börn með þremur konum. „Þegar hann lá á líknardeildinni fór ég að leita uppi þessi börn. Ég mundi ekki hvað þeir tvær yngstu hétu, það var ekkert samband við þessi börn, og fór því að leita á Íslendingabók til að geta græjað jarðarförina.“

En á Íslendingarbók var að finna nafn sem Róbert kannaðist ekki við.

„Grunur minn reyndist réttur, þetta var systir mín sem ég var búinn að finna eftir 45 ár. Í ljós kom að mamma hafði alltaf ætlað vera í samskiptum við hana en guggnað á því.“

Þegar Róbert er spurðu að því af hverju hún hafi ekki alist upp hjá móður hans segir hann þetta hafa verið lensku á þessum tíma.

Róbert Marvin. Mynd/Valli

„Þegar krakkar komu undir og fátæktin það mikil að fólk átti ekki séns í að sjá um barnið, var eina leiðin fyrir þessar konur að gefa frá sér börnin. Enda ekki þessi félagslega aðstoð sem er í dag, þótt hún sé ekkert til að hrópa húrra fyrir, þá er allt betra í dag en það sem var.“

 Loksins hittust systkinin

Róbert hafði samband við systur sína.

„Við náðum strax vel saman og spjölluðum heilmikið. Hún er sláandi lík mömmu, sem var skrítið að sjá, en mikið var yndislegt að finna hana. Við hittumst núna í sumarfríum og þegar tækifæri gefast.

Mér fannst ansi magnað að eiga allt í einu systur, 45 ára gamall. Ég vissi reyndar að hún væri til en ég vissi ekki hvað hún hét eða hvort hún væri lífs eða liðin.“

Meö krökkunum á Krít

Treysti á starfsfólk spítalans

Talið berst að móðursystur hans, Boggu.

„Það má segja að Hemmi hafi verið tökubarn Boggu frænku minnar, hann var það mikið hjá henni. Hún var í raun eins og  mamma hans og varð mikill einstæðingur eftir að Hemmi dó. Hún vildi komast á heimili með aðstoð og ég fór að aðstoða hana við það.

Ég fór með hana í greiningu hjá öldrunarlækni og okkur var sagt að hún gæti bara verið heima. Henni var aðeins boðið að koma í einhvers konar dagvistun sem hún hafði ekki áhuga á.“

Stuttu eftir að það er búið að úrskurða Boggu fullfæra til að vera heima og sjá um sjálfa sig, datt hún illa og mjaðmarbrotnaði.

Róbert með syni sínum.

„Hún fór í uppskurð og þar var tjaslað upp á hana en þegar ég kom og heimsótti hana er herbergið ískalt, glugginn opinn og hávetur en hún bara með þunnt flísteppi yfir sér. Henni var svo óskaplega kalt og ég sé mikið eftir því að hafa ekki farið heim og sótt sæng handa henni en ég treysti því að þetta fólk sem vinnur þarna sæi um sjúklingana sína.

Ég bað um að glugganum yrði lokað og hún fengi almennilega sæng.“

Send heim fárveik

Bogga var send heim en í ljós kom að hún var  fárveik af lungnabólgu.

„Ég hringdi á læknavaktina, en var bara sagt að gefa henni Powerade eða eitthvað sambærilegt, sem mér fannst furðulegt.

Ég hringdi því á sjúkrabíl og þegar hún kom á sjúkrahúsið var hún nær dauða en lífi og öll kerfi að hætta að virka.

Það þurfti nú ekki meira til að koma þessu dominoferli af stað en að heimsækja Landspítalann,“ segir Robert og það má greina kaldhæðni í rödd hans.

„Ég á eftir að muna eftir þessu þegar ég verð gamall, allavega ef þetta ástand skánar ekki.“

Róbert Marvin. Mynd/Valli

Annar nýr ættingi

Og aftur þurfti Róbert að sjá um jarðarför og aftur lá leiðin í Fríkirkjuna.

„Ég talaði við prestinn sem hringdi í mig skömmu síðar og sagði að kona hefði haft samband og vildi hún endilega fá að senda kveðju í jarðarförina.

Ég spurði hvaða kona það væri og reyndist það vera dóttir Boggu frænku.“

Aftur hafði Róbert fundið áður óþekktan ættingja.

„Ég vissi að hún átti son sem dó þriggja eða fjögurra ára en ég stóð alltaf í þeirri trú að það hefði verið eina barnið sem hún átti.

Og það voru meira að segja ættartengsl á milli þessarar konur og prestsins, þetta er alveg lygilegt.

Kveðjan var lesin upp í jarðarförinni og flestir voru steinhissa.“

Með dóttur sinni, Perlu.

Róbert segir að frænka hans hafi aldrei minnst á þessa dóttur sína.

„Hún opnaði sig aldrei með neitt, hún var mjög lokuð. Bogga var af gamla skólanum, hún vildi til dæmis aldrei eiga neitt inni hjá neinum og ég mátti ekki skipta um peru hjá henni nema að fá borgun, hún krafðist þess ellegar hefði ég lent í vandræðum,“ segir Róbert og hlær.

„Hún var góð kona, en hafði sína djöfla að draga.“

Og sá þriðji og fjórði 

„Ég hitti dóttur hennar, frænku mína, skömmu síðar og við spjölluðum saman á kaffihúsi í dágóðan tíma. Ég sagði henni mína sögu, frá mömmu, móðursystur hennar og öllu því. En hún fór að kafa dýpra, fór í rannsóknarvinnu,  og í ljós kom að hún var ekki ein heldur hafði Bogga átt tvo aðra syni.“

Þau voru öll þrjú ættleidd og vissu ekki hvert af öðru.

„Ættin varð ríkari fyrir vikið en það þurftu tveir að deyja til að við kæmust að þessu.“

Róbert er mikill Púllari er hér á Anfield með sonum sínum.

Heldur Róbert að það séu hugsanlega fleiri ættingjar ófundnir?

„Nei, ég held að þetta hljóti nú að vera komið, þetta er orðið gott,“ segir hann og skellihlær.

„En þetta var stórundarlegt en tilveran er ekki alltaf svört og hvít og lífið oft lygilegra en nokkur bíómynd.“

Ættingjarnir hafa haldið sambandi og hittust á ættarmóti fyrir síðustu jól.

„Þar vorum við að kynnast hvert öðru. Við eigum líka jörð vestur á fjörðum, Karlsstaði, sú var búin að hanga í kerfinu í áratugi, allt frá því afi minn dó. Við ætlum að halda sambandi og það er aldrei að vita nema það verði slegið í annað ættarmót á Karlsstöðum.“

Með engum öðrum en Svarthöfða

Elskar hrylling og spennu 

Róbert er rithöfundur og skrifar spennu- og hryllingsbókmenntir.

„Ég er búinn að vera að skrifa frá 1997. Ég var þá að vinna hjá Fróða og fékk ritstjóra þar til að lesa yfir smásögu sem ég skrifaði, Sporin.  Fjótlega eftir það var RÚV með samkeppni um bestu hryllingssmásöguna, reyndar benti mamma mér á það, þá bjó ég enn heima hjá henni í Yrsufellinu.“

Róbert vann keppnina og Hjalti Rögnvaldsson leikari las söguna.

„Það er fyrsta upplesna sagan eftir mig, það er reyndar hægt að hlusta á hana á vefsíðunni minni.“

Hér er að finna slóð á sögunu Sporin.

Róbert hefur alltaf verið heillaður af spennu og hryllingi. Fyrsta bók Róberts, Konur húsvarðarins, kom út árið 2015,. Næst kom Umsátur. 

„Hún gerist í Stykkishólmi en ástæðan fyrir því var nú ekki flóknari en svo að ég var þar á árshátíð fyrirtækis sem ég vann þar hjá og fannst upplagt að láta söguna gerast þar.

Það kom síðar í ljós að megnið af því sem gerist í þessari sögu hefur í raun gerst í Stykkishólmi, sem er mjög sérstakt. Ég var meira að segja spurður að því hvort þetta væri sönn saga.“

Róbert við upplestur einna bóka sinna.

Konur húsvarðarins má finna hér á Storytel. Hin bókin endar þar vonandi fyrir rest.

Næsta bók Róberts var Vitinn, spennubók fyrir börn og unglinga. „Þarna sótti ég innblástur í sveitaævintýrið sem ég upplifði sem krakki.“

Nýjustu bók Róberts, Banaráð, sem teygir anga sína til Svíþjóðar, má finna hér á Storytel. Hún er sjálfstætt framhald af Stúlkunni með rauða hárið, sem einnig er að finna á Storytel.

Bara að vaða inn í storminn

Ein bók Roberts er töluvert ólíkari hinum en um er að ræða barnabók sem heitir Litakassinn og segir frá því þegar að litirnir í litakassanum fara á stjá. Áður en þeir vita af blandast þeir og upp spretta nýir og spennandi litir. Á sama tíma kynnast börn litunum og  fræðast um umferðarljósin.

„Sagan að baki þessari er sú að ég var að kenna eldri krökkunum mínum um liti og ljós, hvernig litir blandast og annað slíkt. Uppistaðan er samvinna og fjölbreytileiki. Hún var lengi ofan í skúffu hjá mér áður en það var tekinn sénsinn á henni og ætli hún sé ekki á einhverjum leikskólum, eða það vona ég,“  segir Róbert og skellihlær.

Róbert Marvin við nokkrar bóka sinna. Mynd/Valli

Hann er núna með draugahrollvekju í smíðum.

„Mér finnst gaman að skapa. Ég tek líka mikið af ljósmyndum og er með myndasíðu, en er ekki viss um að hvaðan þetta kemur.

Lífinu er ekki lokið þó að á móti blási. Stundum þarf maður bara að hneppa upp í háls og vaða inn í storminn. Það kemur logn um síðir,“ segir Róbert Marvin Gíslason.

Róbert Marvin er með vefsíðu þar sem finna má allar upplýsingar um ritstörf og útgefið efni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki