„Þetta er skáldsaga sem er ferðasaga konu sem hatar að ferðast, að sumu leyti er þetta eins og vegamynd, að sumu leyti mystería um mögulegan glæp. Það er þarna kona sem er voðalega týnd, hún týnir manninum sínum og fer af stað í eitthvað ferðalag í leit að sjálfri sér, en hún týnir alltaf sjálfri sér meira og meira. Þetta er persóna sem höndlar ekki ofgnóttina í lífinu, ferðalögin eru einn partur af því, hún situr ekki vel í sjálfri sér og sjálfsmyndin er á reiki. Hún berst svolítið eins og lauf í vindi og veit ekki hver hún er,“ segir Þórdís Helgadóttir um aðalpersónu bókar hennar Armeló.
Bókin er fyrsta skáldsaga Þórdísar, en hvar kviknaði hugmyndin að bókinni?
„Það er kannski erfitt að segja, fyrsti neistinn var staðarheiti, þegar ég var sjálf á ferðalagi sem greip mig. Það var ekki Armeló, heldur varð þessi staður Armeló til upp úr því. Á tímum COVID ferðaðist maður lítið og ég var þá svona hugsi yfir þessu hlutverki sem ferðalög hafa í lífi okkar sem forréttinda vesturlandabúar, það er enginn sem hefur ekki áhuga á ferðalögum þannig að ég bjó til persónu sem þykir mjög skrítin og hefur ekki áhuga á að ferðast og það er ekki út af hugsjón eins og vegna kolefnisfótspors, heldur bara hún fílar það ekki að ferðast,“ segir Þórdís.
„Ferðalög eru einkennandi fyrir okkar samfélag og maður hugsar eiginlega ekki um þau, að skreppa eitthvað um helgi, fara í sólarlandaferð og frí og út um allt, en það er ekki svo langt síðan að þetta var alger fjarstæða að geta farið hvert sem er í heiminum. Íslendingar ferðast mjög mikið og það er svolítið sérstakt, ferðalög eru áhugaverður partur af lífi okkar sem maður spáir ekki mikið í af því þetta er svo sjálfsagt, svo venjulegt, en það er gaman að róta aðeins í og fjalla um það. En svo er margt annað í bókinni en ferðalög, en þau eru svona ramminn. Þetta er ekki þessi týpíska þroskasaga þar sem einhver finnur sig með því að fara þvert yfir heiminn.“
Armeló er eins og áður sagði staður sem er ekki til í alvörunni og segir Þórdís nafnið á bókinni vera mjög meðvitað. „Þessi staður er svona in the „middle of nowhere“ og hún lendir þar þessi kona, hefur engan áhuga á að fara þangað og það er ekkert þarna, en Armeló verður samt að einhverjum örlagastað í hennar lífi. Svo tengir hann við þessa ímyndun sem er í gangi í hausnum á henni, hún lifir ímynduðu lífi, er alltaf að ímynda sér hvernig aðrir lifa, hvernig fólkið í bænum lifir og einhvern veginn allir í heiminum, hún er mjög upptekin af því og þessi staður er kannski einmitt líka þematískt að tala við það, þessi ímyndaði staður sem er staðleysa á fleiri en einn hátt.“
Á vef Tímarits Máls og menningar má lesa brot úr bókinni.
Er öðruvísi vinna að skrifa heila skáldsögu miðað við fyrri verk þín?
„Það var allt öðruvísi, ég hef unnið í mörgum formum, skrifað ljóð og leikrit og mikið af smásögum. Mér finnst þessi löngu form mjög krefjandi, bæði leikrit og skáldsaga, að búa til heila sögu og heilan veruleika. En samt ótrúlega gaman og ég er strax byrjuð á næstu bók. Ég sem höfundur hef litla eirð, ég þarf alltaf að prófa eitthvað nýtt og ögra mér. Þetta er skemmtilegt ferli en samt hörku vinna. Mér fannst ég örugglega búin með bókina fimm sinnum, handritið fer til ritstjóra, það koma athugasemdir frá honum og þá þarf maður að fara að breyta,“ segir Þórdís.
Tveir ritstjórar komu að bókinni þar sem annar þeirra, Sigþrúður Silju Gunnarsdóttir, tók við starfi framkvæmdastjóra Forlagsins. „Ég var með tvo ritstjóra þar sem Sigga fékk stöðuhækkun á miðri leið og Guðrún Lára Pétursdóttir tók við, tvo frábæra ritstjóra sem var mikil gæfa.“
Lengri vinna við skriftir þýðir líka að viðbrögð fást ekki strax við vinnunni. „Það er líka erfitt að maður fær ekki lesendur alveg strax, þegar maður skrifar ljóð eða smásögu, þá fær maður strax viðbrögð, fólk les og svo getur maður byrjað á næsta verki. Skáldsaga er svo mikið langhlaup og maður þarf að treysta verkinu svo mikið allan þennan tíma, að standa með því allan tímann. Maðurinn minn og vinir mínir lásu yfir, en út fyrir nánasta hring fær enginn að sjá neitt. Það er alltaf gott að fá önnur augu á það sem maður er að skrifa.“
Þórdís segir að hún hafi alltaf skrifað og það hafi verið draumur hennar að verða rithöfundur. „En svo þorði ég ekki alveg að vera listamaður, ég fór í doktorsnám í heimspeki, ætlaði að vinna við hana, en hætti án þess að klára gráðuna. Svo tosaði listamaðurinn í mig og ég lét undan á endanum og fór skjálfandi á beinunum i ritlistarnám og ég hef skrifað síðan og skrif eru ómissandi hluti af hver ég er,“ segir Þórdís.
„Það er samt erfitt að ætla sér að lifa af skrifunum þar sem markaðurinn er svo lítill. Ég er búin að selja réttinn að Armeló til Danmerkur og vonast til að komast á erlenda markaði. Ég er komin með samning við forlag í Danmörku.
Fyrri verkum Þórdísar hefur verið vel tekið bæði meðal lesenda og gagnrýnenda. Ljóðabókin Tanntaka sem kom út 2021 var tilnefnd til ljóðabókverðlaunanna Maístjörnunnar og Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlaun kvenna. Bókin Olía sem kom út 2021 skrifuð af Þórdísi og rifhöfundahópnum Svikaskáld var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna og 2021 fékk hún Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Fasaskipti.
Finnst þér þessar viðurkenningar mikilvægar? „Já mér finnst það, ég er líka þakklát að það séu einhverjir að lesa, fylgjast með og sinna bókmenntunum, eins og til dæmis Ljóðstafurinn. Það er alltaf smá spark í rassinn og hvetjandi að taka þátt í svona samkeppnum.“
En hafa viðurkenningar og góð viðbrögð í för með sér pressu á að koma stöðugt með ný verk og þá betri? „Ég veit það ekki, ég er svo eirðarlaus, vill alltaf vera að gera eitthvað nýtt og annað. Eins og næsta bók verður allt öðruvísi en Armeló þannig að ég pæli ekki mikið í því.
Maður fer með meira sjálfstraust í næsta verkefni, og maður er að hitta í mark einhvers staðar. Af því maður veit það oft ekki og sérstaklega með skáldsögu, það er svo erfitt að vita hvort hún hittir einhvers staðar í mark, fólk hefur bara mismunandi smekk.“
Hið alíslenska jólabókaflóð er að hefjast og segir Þórdís gaman að taka þátt í því. „Þetta er séríslensk klikkun og merkilegt að komi svona margar bækur út, bæði þýddar og íslenskar bækur. Það væri leiðinlegt ef maður kæmist yfir að lesa allt, ef kæmu bara út 10 bækur og búið,“ segir Þórdís.
Aðspurð um hvort að ekki mætti dreifa útgáfu yfir allt árið segir hún: „Það er kannski erfitt að breyta þessu, en síðustu ár er orðin svolítil vor- og sumarútgáfa, en þá er hætta á að þær bækur fái ekki sömu umfjöllun. Eins og Kiljan er bara í gangi á veturna, útgefendur og höfundar eru kannski hræddir við að gefa út á öðrum árstíma. Það vilja allir vera þar sem athyglin er.“
Aðspurð um hvernig hún skrifar, hvort hún skrifi ákveðinn tíma hvern dag eða fari sem dæmi í vikufrí til að einbeita sér að skrifum segir Þórdís: „Það er aldrei pása, þetta er svo mikið hark. Ef maður ætlar að sækja um listamannalaun þá þarf maður að sýna hvað maður er að gera. Svo er svo gaman að vera frjáls frá þessari bók, að vera búin með hana og þá getur maður gefið öllum hinum hugmyndunum sem hafa verið að banka pláss. Það er bara veruleikinn að ef maður ætlar að vera rithöfundur á Íslandi, þá þarf maður að vera rosalega duglegur, vinnusamur og halda sér að verki.
Ég er með marga bolta, ég er með fjölskyldu, í 50% starfi á auglýsingastofu, svo er ég að kenna ritlist, maður reynir einhvern veginn að púsla þessu saman og komast frá, sem er mjög dýrmætt, eins og í fyrra og hittifyrra þá fór ég til útlanda. Það er rosa dýrmætt að fá tíma til að skrifa bara, annars er þetta bara púsl,“ segir Þórdís.
„Það eru fáir því miður á Íslandi sem geta látið það ganga upp að vera rithöfundur í fullu starfi. Ég er í textavinnu allan daginn, vinn sem textasmiður. Mér finnst mjög gaman að vinna þar, við erum með mörg fyrirtæki og mörg skemmtileg verkefni í gangi. Auglýsingabransinn er góður skóli, maður lærir að vinna á „deadline“ og skila af sér textum sem maður er ekki of nátengdur, maður skrifar texta sem viðskiptavininum líkar svo jafnvel ekki og þá skrifar maður nýjan, maður þarf að tileinka sér ákveðið æðruleysi.“
Þórdís vill ekki gefa strax upp um hvað næsta bók er. „Hún er á viðkvæmu stigi og það g etur allt breyst. Ég er líka að vinna í að skrifa smásögusafn, ljóð og leikrit, ég er búin að vera með verk í vinnslu í talsverðan tíma, ég klára það einhvern tíma. Ég var leikskáld Borgarleikhússins í eitt ár og skrifaði þá verk sem er ekki komið á fjalirnar ennþá, það er ekki tilbúið en verður það einhvern tíma. Það er gaman að vinna í leikhúsinu en það er allt öðruvísi verkfæri.“
Nafn bókarinnar er nokkuð sérstakt og aðspurð um bókarheitið segir Þórdís. „Það er pínu hættulegt að láta bókina heita eitthvað sem enginn skilur, það getur líka fælt frá. En ég vona að nafnið veki frekar forvitni.“
Armeló er rétt ókomin út, en hvernig hafa verið viðtökur verið við bókinni hjá þeim sem komnir eru með hana í hendur nú þegar? „Ég er ekki farin að fá neina dóma eða þannig, en mér finnst spenningur fyrir henni sem er mjög gaman, það er meðbyr að vera strax búin að selja réttinn erlendis fyrir útgáfu. Ég þori ekki að segja neitt fyrr en fólk er búið að lesa bókina. Ég var bara mjög glöð að fá hana í hendur.“
Útgáfuhóf Armeló verður haldið fimmtudaginn 19. október kl. 17 á Loft í Bankastræti. „Allir eru hjartanlega velkomnir, það er hjólastólaaðgengi og yndisleg tónlist, ég er búin að bóka uppáhalds tónlistarkonuna mína Jelena Ćirić.“