fbpx
Mánudagur 25.september 2023
Fókus

Nokkur dæmi um misskilin dægurlög

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 10. júní 2023 16:00

Eyjólfur Kristjánsson, höfundur lagsins Draumur um Nínu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Túlkun er hugtak sem fjallað hefur verið mikið um í flestum greinum hugvísinda. Um er að ræða margbreytilegt hugtak sem hefur ekki alltaf verið nýtt á nákvæmlega sama hátt innan hverrar einustu greinar. Flestir fræðimenn á sviði hugvísinda eru þó yfirleitt sammála um að túlkun eintaklinga á hvers kyns hugverkum eins og t.d. skáldsögum, kvikmyndum, dægurlögum eða málverkum geti verið ólík og túlkun hvers og eins fari eftir t.d. persónuleika viðkomandi, félagslegum aðstæðum, kyni og aldri.

Fólk verður hins vegar oft sammála um túlkun á tilteknum verkum og í ýmsum tilfellum um túlkun sem gengur jafnvel á skjön við það sem höfundur verksins hefur ætlað sér að koma á framfæri. Þetta hefur ekki síst gerst þegar um dægurlög er að ræða. Fjöldamörg dæmi eru um að texti dægurlaga, boðskapur þeirra, inntak og andi hafi verið misskilin af fjölda hlustenda og það jafnvel árum saman. Hér á eftir verða tekin nokkur dæmi um þekkt dægurlög bæði íslensk og erlend sem hafa verið talsvert misskilin.

Þau eru ekki birt í neinni sérstakri röð en með fylgja nöfn flytjenda og útgáfuár.

Who Let the Dogs Out – Baha Men (1999)

Lagið þótti mikið stuðlag og var ein mest selda smáskífa heims þegar best lét. Þetta lag var og hefur verið nokkuð nýtt til að mynda á kappleikjum í íþróttum. Eins og oft vill verða þekktu flestir aðalsetningu viðlagsins sem er sú sama og titill lagsins. Margir tóku þar með laginu bókstaflega og töldu það fjalla einmitt um að hleypa hundum út í stuðið.

Heimildarmynd frá 2019, sem ber sama titil og lagið, skýrir frá því að lagið sé og hafi alltaf verið hugsað sem feminískt með það fyrir augum að gagnrýna það að karlmenn væru að hrópa kynferðisleg orð að konum á almannafæri. Það virðist blasa við þegar vísað er í texta lagsins en í honum segir meðal annars, í mjög grófri þýðingu fréttamanns:

Partíið var gott, partíið var þétt og allir skemmtu sér. Þangað til að gaurarnir byrjuðu að kalla og stelpurnar svöruðu, ég heyrði konu hrópa: hver hleypti hundunum út?

Draumur um Nínu – Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson (1991)

Þetta lag er eitt af þeim íslenskum Eurovision lögum sem Íslendingar hafa tekið mestu ástfóstri við. Lagið er oft sungið á samkomum og í veislum, þá oftast af gleðifylltum krafti.

Í laginu er verið að syngja til látinnar konu og þegar krafturinn eykst í því þegar líða fer á er það einfaldlega vegna þess að söngvarinn er að tjá angist sína og þrá eftir því að hin látna kona rísi upp frá dauðum og snúi aftur til hans.

Segja má því að texti lagsins hafi ekki verið misskilinn heldur inntak þess og andi. Söngur um látna manneskju ætti við fyrstu sýn vart að vera efni í gleði -og partísöngva. Lagið hefur þannig í raun öðlast nýtt líf sem höfundurinn, Eyjólfur Kristjánsson, sá kannski ekki fyrir sér.

Draumur um Nínu er þannig dæmi um að dægurlög sem og önnur listaverk geta oft öðlast sjálfstætt líf á máta sem höfundar þeirra áttu engan veginn von á. Þótt þetta nýja líf sé kannski ekki beinlínis í fullkomnu samræmi við upphaflegan texta og inntak lagsins þarf ekkert að vera neitt rangt við það.

Macarena – Los Del Río (1996)

Þetta var eitt vinsælasta lag heims árið 1996 og fór víða um lönd í efsta sæti vinsældalista. Samnefndur dans fylgdi laginu sem var dansaður af ákefð um heimsbyggðina. Margir hlustendur litu á lagið sem saklaust og skemmtilegt danslag sem hefði enga sérstaka undirtóna.

Lagið var gefið út í nokkrum útgáfum en sú sem fékk einna mesta útbreiðslu var sungin á bæði ensku og spænsku en Los Del Río var dúett frá Spáni. Kannski hefur sú staðreynd orðið til þess að merking textans hefur farið nokkuð fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum hlustendum. Lagið fjallar um unga konu, sem ber sama nafn og lagið, sem heldur framhjá kærastanum sínum með tveimur vinum hans á meðan hann er fjarri góðu gamni við að gegna herþjónustu.

Á einum stað í laginu segir að á meðan kærastinn sé að sverja eið sem nýr hermaður sé Macarena að veita vinum hans unað. Í lokaerindi lagsins segir að Macarena sé ólm í að flytja til New York og tæla mann til að verða nýi kærastinn sinn.

Sódóma – Sálin hans Jóns míns (1992)

Lagið var samið sérstaklega fyrir kvikmyndina Sódóma Reykjavík sem var frumsýnd þetta ár. Sú Sódóma sem lagið og kvikmyndin vísar til er skemmtistaður þar sem tónlistin hljómar, dansinn dunar og áfengið flæðir. Lagið fjallar með ljóðrænum hætti um það sem hægt er að upplifa á Sódómu.

Athafnakonan Brynja Dan sagði frá því í viðtali við K100 fyrir tveimur árum að hún hefði hins vegar misskilið lagið lengi og miðað við könnun sem hún gerði á Instagram-síðu sinni var hún alls ekki ein um það. Hún sagðist hafa sungið í tuttugu ár „Svo kom A“ í stað Sódóma sem er það orð sem sungið er milli erinda. Hún segir að annað fólk  hafi sungið „Skot og mark“ og haldið að lagið fjallaði á einhvern hátt um fótbolta.

Blackbird – The Beatles (1968)

Lagið var lengi vel tekið bókstaflega og talið fjalla um flug fagurs fugls.

Hins vegar var það hugsað sem lofsöngur um mannréttindabaráttu svartra Bandaríkjamanna, ekki síst kvenna, en í Bretlandi, heimalandi hljómsveitarinnar, á þessum árum var orðið bird notað sem slanguryrði yfir konur, af körlum. Ef karlar voru að tala um birds þá var líklegra að þeir væru að spá í konum en fuglaskoðun. Með því að syngja um Blackbird var því í raun átt við svartar konur.

Í laginu er „fuglinn“ hvattur til að hefja sig til flugs en þar var um líkingamál að ræða en hvatningin snerist um að berjast fyrir réttindum sínum og taka flugið frá kúgun.

Paul McCartney, annar höfunda lagsins, hefur lýst því yfir að lagið hafi verið innblásið sérstaklega af baráttu níu manna hóps, ungra svartra nemenda, frá Arkansas-ríki í Bandaríkjunum sem barðist fyrir því að aðskilnaður kynþátta í skólakerfi ríkisins væri afnumin. Lagði hópurinn sig í mikla hættu með baráttu sinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vissi að eltihrellirinn myndi drepa hana og hann kæmist up með það

Vissi að eltihrellirinn myndi drepa hana og hann kæmist up með það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dramatíski áhrifavalda-ástarþríhyrningurinn – Fyrirsætan afhjúpar hvernig hún greip hann glóðvolgan

Dramatíski áhrifavalda-ástarþríhyrningurinn – Fyrirsætan afhjúpar hvernig hún greip hann glóðvolgan