Fyrsta stikla sjónvarpsþáttanna True Detective: Night Country var frumsýnd í gær. Þættirnir voru teknir að miklu leyti upp hér á landi, meðal annars á Dalvík, í Reykjanesbæ og í Reykjavík og kom fjöldi Íslendinga að gerð þáttanna. Í stiklunni má meðal annars sjá TF-GNÁ þyrlu Landhelgisgæslunnar og Hafnargötu í Keflavík.
Þáttaröðin gerist í bænum Ennis í Alaska og fara Jodie Foster og Kali Reis með aðalhlutverkin í þessari fjórðu þáttaröð, sem allar bera sama aðalheitið: True Detective, en nýr söguþráður og persónur koma fyrir í hverri þáttaröð. Sýningar hefjast síðar á árinu á streymisveitunni HBO Max. Fyrstu þrjár þáttaraðirnar hafa unnið til fjölda verðlauna.