fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Aldís Gló málar það sem aldrei mátti ræða eftir gosið í Eyjum – „Það var litið á þennan hóp sem þurfalinga, flóttamenn á matarmiðum frá hinu opinbera“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 4. febrúar 2023 09:02

Aldís Gló Gunnarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er mín leið, sem eftirgosbarn fædd 1977, að standa með mínu fólki og fá viðurkenningu á öllum þessum erfiðu tilfinningum. Mér er alveg sama hvað öðrum finnst, ef ég væri svoleiðis týpa mynda ég bara mála blóm, býflugur og fjöll. 

Sem er fínt, en ég er ekki þannig,“ segir Aldís Gló Gunnarsdóttir, myndlistarkona og Vestmanneyingur. 

Hún mun opna myndlistasýningu um goslokahelgina sem mun standa frá 3. til 9. júlí.

Tilefnið eru fimmtíu ár frá goslokum. Sýningin á að fanga þær fjölmörgu tilfinningar sem Vestmanneyingar fundu við þessar hræðilegu náttúruhamfarir sérstaklega þær sem sjaldan eða aldrei var talað um.

„Ég ætla, eða í það minnsta reyna, að endurvekja það sem aldrei mátti tala um. Örvæntinguna, niðurlæginguna, eineltið, hræðsluna, trúna, kjarkinn og vonina.

Allan tilfinningaskalann.“

Þetta málverk Aldísar er innblásin af afa hennar, Eggerti á Horninu (húsið var kallað hornið og er fór undir hraun). Hann var einn af þeim sem kom að því að bjarga höfninni. Þessi maður er hinsvegar sjómaður og er lafandi hræddur um að höfnin muni lokast. Myndin heitir „Örvænting“.

Margþætt vandamál Vestmanneyinga verðugt rannsóknarefni

Aldís Gló telur það vera verðugt rannsóknarefni hversu margir Vestmanneyingar hafa barist við alkóhólisma, alls kyns geðraskanir og margþætt vandamál eftir gos.

„Það er örugglega margt sem tengja má til áfallastreituröskunar sem aldrei var tekist á við.“

Sjálf er Aldís fædd og uppalin í  Eyjum.

„Þegar ég var krakki rauk enn úr hrauninu og það var alltaf móða yfir austurbænum. Ég var alin upp við frásagnir af því hvernig allir hefðu farið niður á höfn og þagað.

Það var alltaf gert mikið úr þessari þögn, að enginn hefði verið með neitt drama.

Fólk fór í bátana og upp á landi, það kviknaði í húsinu þinu eða ekki og svo fluttu flestir heim. Það voru allir svo duglegir, svo sterkir, svo miklir Íslendingar sem grenja sko ekki yfir hlutunum,“ segir Aldís Gló með nettum vott af kaldhæðni.

Aldís og Baldvin, eiginmaður hennar.

Útlendingur heima 

Aldís segir að hún hafi lengi vitað um þá erfiðleika biðu Eyjamanna í landi á sínum tíma. Hún vissi bara ekki hvort það mætti ræða þá.

„En fyrir tíu árum gerðu vinkona mín, Jóhanna Ýr Jónsdóttir og Hvati, Sighvatur Jónsson, heimildamynd um gosið sem heitir Útlendingur heima – uppgjör við eldgos.

Þar töluðu þau um gosið eins og við sem ekki upplifðum það.“

Þetta fannst Aldísi áhugaverð nálgun.

„Þegar þau tóku viðtöl við fólk kom allt í ljós sem aldrei mátti tala um. Og það var kveikjan að því sem ég er að gera núna. Ég fylltist allskonar tilfinningum við að myndina, tilfinningum sem mér fannst ég verða að koma frá mér.

Ég er að reyna að mála þessar tilfinningar. Það eru auðvitað bæði erfitt og flókið þema en ég ákvað í fyrra að mála það sem ekki mátti tala um.“

Hún segir verkefnið vissulega erfitt og hafi lagst i lestur erfiðra minninga.

„En það er komin tími til,“ segir Aldís ákveðin. „Og ég vil að það sé talað um þetta og ég ætla að halda áfram að tala og pota.

Mig langar að festa fingur á hversu erfitt þetta var fyrir marga því enginn sagði neitt.

En ég held að nú sé fólk tilbúið að tala um þetta af alvöru.“

Frá gosinu í Eyjum. Mynd/Tryggvi Már

Svo vont, svo sorglegt

Aldís segir að margt hafi verið svo vont, svo sorglegt.

„Fólk missti heimili sín og börnin úr Eyjum lentu í miklu einelti í skólum. Það var litið á þennan hóp sem þurfalinga, flóttamenn á matarmiðum frá hinu opinbera.

Þetta fólk var í raun landlaust.

Svo voru viðlagasjóðshúsin byggð og viðkvæðið var að þangað færi ,„pakkið sem fékk allt upp í hendurnar,”  og bætir við að fimmtíu árum síðar heyrist það sama þegar rætt sé um flóttamenn sem komi til landsins.

„Það velur engginn að yfirgefa heimili sín. Það er ekki val Sýrlendinga að yfirgefa land sitt og heimili og fara til Íslands. Og Eyjamenn voru einnig flóttamenn en í eigin landi, okkar fólk.“

Aldis hristir höfuðið.

Voru álitnir ómagar

Hún segir það fyrst vera núna að fólk sér farið að tjá sig um sína upplifunin og nýlega birti maður færslu um hvernig hann var laminn í skóla fyrir að vera ómagi.

„Auðvitað var mun fleira fólk sem tók vel á móti Vestmanneyingum en við erum þannig hönnuð að þeir sem koma illa fram eru háværastir. Við sem manneskjur erum bara þannig.“

Aldís segir aldrei mega gleyma að það voru börnin sem fóru hvað fóru hvað verst út úr þessu, þau pössuðu hvergi inn, urðu fyrir miklu áreiti og einelti og það var komið fram við þau eins þau væru frá annarri plánetu.

Og margir séu ennþá að díla við þetta í dag.

Verk eftir Aldísi Gló, „Hjón“

Aldís segir alla hafa verið fegna að snúa heim til Eyja og vera ekki lengur þurfalingar uppi á landi.

„Sumir voru auðvitað heppnir. Mamma bjó í raðhúsi í Hafnarfirði og fór í Flensborg þar sem hún fann sig strax. En það voru alls ekki allir jafn heppnir og hún.

Systkini pabba voru til dæmis ekki jafn heppin, þau fengu einhvern sumarbústað, og þurftu að þvælast á milli skóla.

Þetta var mjög misjafnt og margar fjölskyldur bjuggu bara í einu herbergi sem þau fengu úthlutað. Og þögðu.“

Er rétt að grafa í fortíðnni?

Húsið í Eldheimum, sem grafið var upp og er utan um safnið, hafði yngsti bróðir ömmu Aldísar nýlokið við að byggja þegar gosið skall á.

„Þau voru ung hjónin, með þrjá litla stráka og allt í einu var húsið þeirra farið. “

Aldís bendir að á að þegar húsið var grafið upp hafi fjöldi fólks talið það ekki rétt, húsið ætti að vera grafið í fortíðinni.

„Kannski af því að það fannst það vera búið að díla við missinn og hörmungarnar? “

Aldís Gló Gunnarsdóttir

Aldís er ekki viss en grunar ekki.

„Tengdamamma var 17 ára með mánaðargamalt barn þegar gosið skall á,“ segir Aldís.

„Hún þagði eins og hinir, þannig var tíðarandinn, og hún var hreykin af því. Var það kannski áfallið sem olli þögninni? Kannski, en dóttir mín orðaði þann möguleika við ömmu sína enda fóru þau ekki til Vestmannaeyja í langan tíma.

Og Baldvin, maðurinn minn? Pabbi hans er fæddur og uppalinn í Eyjum en hann fór fyrst til Vestmannaeyja fjórtán ára, sautján árum eftir gos.“

Allt breytt og húsin soðin

Aldís segir áfallið hafa verið rosalegt við heimkomuna. Eyjan gjörólík því sem áður var og heimilin óþekkjanleg.

„Þess vegna voru svo margir sem treystu sér ekki að snúa heim, þeim fannst þau ekki eiga heima í Vestmannaeyjum lengur, það hafði það mikið breyst.“

Hún bætir við að í ofanálag hafi fólk flutt í hús sem voru einfaldlega soðin.

„Það var alltaf ákveðin goslykt af fólki sem bjó í austurbænum, í húsum sem höfðu verið grafin upp. Steypan hafði soðnað og lyktin var alltaf til staðar. Bókstaflega alltaf.“

Hún segir mikinn ótta og kvíða einnig hafa verið til staðar.

„Til að mynda við að höfnin myndi lokast sem hefði haft mikil áhrif á lífsskilyrði íbúa. Og afi minn, Eddi, alltaf kallaður Eddi á horninu, átti stóran þátt í því að höfninni var bjargað.

Því var fyrsta myndin sem ég málaði af sjómanninum sem horfir í átt að höfninni.“

Aldísi er nákvæmlega sama þótt hún sé umdeild. Sýning hennar, Tabú, vakti til að mynda sterk viðbrögð í fyrra.

Hvar erum við stödd sem samfélag?

Þess vegna ætla ég að halda þessa sýningu, ég ætla að gefa barninu sem lenti í einelti uppreist æru. Það er eitthvað sem ég er ákveðin í.

Hvar erum við þá stödd? Hvað segir það um okkur og samfélagið okkar?

Það eru reyndar fimmtíu ár síðan og við skulum gefa smá slaka því tíðarandinn hefur breyst en hversu mikið?

Þetta mátti aldrei tala um og krakkarnir sem lentu í þessu þögðu bara,“ segir Aldís.

Aldís segir að þótt eflaust hafi góðu hugur legið að baki, hafi ýmislegt verið verið gert á kolrangan hátt.

Þar á meðal Noregsferðin.

Lítil börn alein í útlöndum og skelfingu lostin

Öllum skólabörnum úr Eyjum var boðið til Noregs og mamma Aldísar var ein þeirra þar sem hún var það ung.

„Allt niður í sjö ára gömul börn voru send inn á eitthvað heimili í Noregi, til bláókunnugs fólks, algjörlega mállaus í viku til tíu daga.

Auðvitað vildi fólk vel, að bjóða börnunum í þessa ferð en sum grétu allan tímann, algjörlega miður sín.

Hugsaðu þér að vera sjö ára barn sem búið er, missa heimili sitt og er sent eitt til útlanda til að dvelja hjá fólki sem það hafði aldrei séð og talaði tungumál sem það skyldi ekki? Og enginn talaði ensku að nokkru ráði á þessum árum.

Nú er fólk aðeins að stíga fram að segja hversu hræðilegt þetta var, jafnvel það versta sem þau hafa upplifað.“

Gosbörnin á leið til Noregs.

Aldís segir að ekki megi gleyma hversu Norðmenn voru Eyjamönnum góðir.

„Þeir borguðu fyrir ýmislegt, meðal annars byggingu leikskóla og gott ef ekki elliheimilisins. Þeir borguðu einnig fyrir byggingu hinna svokölluðu norsku húsa sem önguðu alltaf af tjörupappalykt.

Maður vissi alltaf hverjir bjuggu í norsku húsunum því það var alltaf tjörupappalykt af því. Ég man vel eftir þeirri lykt, hún var svo sterk, og ég ætla svo að vona að það sé búið að skipta um pappa í dag, “ segir Aldís og hlær.

Óþægileg og góð með það

Hún segir sýninguna örugglega verða óþægilega fyrir marga en henni sé slétt sama.

Aldís Gló er reyndar ýmsu vön, ekki síst eftir sýningu sína, Tabú, á síðasta ári. Þar sýndi Aldís myndir af kynlífi, málað eftir skjáskotum af klámsíðum. Sem fæstir hafa gert, hvað þá kvenkyns kennarar í Garðabæ.

Í viðtali sem birtist við Aldísi í DV í fyrra sagði hún ekki margar konur hafa málað kynlíf í gegnum tíðina.

En karlmenn hafa sko aldeilis málað kynlíf enda eru söfn út um allan heim smekkfull af berrössuðum kellingum, sagði Aldís í því viðtali.

Hún telur öruggt að þessi sýning verði einnig óþægileg fyrir marga en henni sé slétt sama.

„Ég er bara óþægileg og góð með það. Þetta er líka samfélagsádeila og ég vil hrista upp í fólki.

 Við höldum alltaf að við séum svo mikið betri en aðrir sem heild en við gátum ekki einu sinni verið almennileg við okkar eigið fólk.

Það er svo margt sem aldrei hefur verið talað um og mig langar að stinga á með þessari sýningu.

Mér finnst ég líka hafa rétt á því þar sem ég er sjálf Vestmanneyingur, ég er ekki viss um að það myndi falla i kramið ef ég væri það ekki.

Og það eru enn margir bitrir en fólk er byrjað að opna sig. Það tjáði sig aldrei neinn um vanlíðan – aldrei. “

Aldrei val

Hún segir ákvörðunina um sýninguna ekki hafa verið val.

„Þegar ég ákvað að mála í tilefni af fimmtíu ára goslokum var þetta það sem kom. Ég var sko aldeilis ekki að fara að mála einhvern klett í Eyjum, enda búið að mála Vestmannaeyjar milljónn sinnum.

Ég gat ekki gert neitt annað, ég bara varð að mála þetta.

Og þess vegna ætla ég að halda þessa sýningu, ég ætla að gefa barninu sem lenti í einelti uppreist æru.

Það er eitthvað sem ég er ákveðin í“, segir Aldís Gló Gunnarsdóttir, myndlistarkona.

Og Eyjamey.

Það má sjá fjölda verka Aldísar á Instagram síðu hennar #aldisart12

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram