fbpx
Þriðjudagur 06.desember 2022
Fókus

Hafsteinn missti börnin sín: „Þetta var bara manndráp af gáleysi … Stjórnvöld einhverra hluta vegna leyfðu þessu að gerast“

Fókus
Þriðjudaginn 27. september 2022 08:20

Hafsteinn Númason. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafsteinn Númason er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Hafsteinn hefur gengið í gegnum eitthvað sem er nánast óhugsandi. Að missa fjögur börn, þar af þrú í snjóðfljóðinu á Súðavík árið 1995. Hann segist fyrst ekki hafa spáð í því að mögulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir snjófljóðið. En þegar frá hafi liðið hafi hann áttað sig á því að grafalvarleg mistök hafi verið gerð.

„Fyrst var maður bara umfram kominn af sorg og gat ekkert verið að velta því fyrir sér hvort eitthvað hefði átt að vera öðruvísi gert. En svo fór ég að skoða málið og því meira sem ég gerði það því meira fór ég að álasa sjálfum mér fyrir að hafa treyst stjórnvöldum fyrir því að þetta væri öruggt svæði til að búa á,“ segir hann og heldur áfram:

„Staðreyndin er sú að ég er búinn að burðast með það í 27 ár innra með mér hvað hafi gerst og þetta var ekki slys. Þetta var bara manndráp af gáleysi. Ég stend við það. Stjórnvöld einhverra hluta vegna leyfðu þessu að gerast. Það höfðu verið haldnir almannavarnafundir með frönskum snjóflóðasérfræðingum sem sögðu að það væri ekki hægt að verja plássið nema með snjóflóðagirðingu uppi í klettum. Snjóflóðagirðingarnar áttu að kosta 70-80 milljónir og hreppurinn átti að borga 20 prósent, sem hann hafði ekki efni á. Það var líka gert hættumat og hver sem skoðar það hættumat sér það sem blasir við. Þetta snerist líka um peninga. Ef hættumatið hefði farið niður fyrir húsin hefðu þau öll verið verðlaus. Þannig að það var ákveðið að hafa það fyrir ofan. Þetta snerist ekki um mannslíf, heldur snerist þetta um peninga.“

„Það helltist yfir mig svartnætti og ég var bara í losti“

Hafsteinn lýsir í þættinum deginum örlagaríka fyrir vestan. „Stýrimaðurinn kemur inn til okkar og segir að það hafi fallið snjóflóð við frystihúsið. Ég man að það fyrsta sem ég sagði var: „Þá hefur það fallið á húsið mitt.“ Strákarnir reyndu að segja mér að það væri bara þvæla, en þá sýndi ég þeim mynd af Súðavík og hvar húsið mitt væri staðsett. En mig grunaði samt ekki að neitt svona hræðilegt gæti hafa gerst. En svo fékk ég að hringja í land og þá er mér sagt að húsið mitt sé horfið og konan mín sé á lífi, en börnin séu týnd.”

Hafsteinn segir erfitt að lýsa því hvernig honum var innanbrjósts eftir þetta símtal.

„Það helltist yfir mig svartnætti og ég var bara í losti. Tíminn þangað til við komumst í land var hræðilegur. Ég man að ég hugsaði meira að segja með mér að fara í flotgalla og reyna að synda í land. Það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef ég hefði gert það, en ég náði að hafa stjórn á mér. Þegar við komumst svo loksins í land fór ég strax inn í frystihúsið þar sem allir höfðu komið saman. Þar blasir við mér yngsti sonur minn á borði, þar sem var verið að reyna lífgunartilraunir á honum. Hann lést svo á borðinu. Lá þarna á bleyjunni alveg hvítur og höndin á honum var ísköld þegar ég tók í hana. Það er engin leið að reyna að lýsa því hvernig tilfinningin var. Ég reyndi að hugga konuna mína og við vorum bara í algjöru losti.“

„Samhugurinn í öllum skilaði sér til okkar“

Hafsteinn segir að næstu dagana hafi samhugur þjóðarinnar verið ómetanlegur:

„Það var verið að reyna áfallahjálp, en verkefnið var svo stórt að það var erfitt að halda utan um hana. En við sem höfðum misst fólkið okkar vorum öll saman næstu dagana og það var algjör lífsbjörg. Samhugurinn í öllum skilaði sér til okkar og hélt í okkur lífinu. En það var svo mjög skrýtið þegar við komum suður til Reykjavíkur. Við vorum með eina tösku og vorum eins og flóttafólk og smám saman byrjaði þjóðin að hugsa um aðra hluti og þá helltist yfir okkur svakalegur einmannaleiki. Við vorum algjörlega umkomulaus,“ segir hann.

Sá dóttur sína eftir að hún dó

Hafsteinn missti svo fjórða barnið nokkru síðar og lenti auk þess í alvarlegu slysi. Það hefur verið meira á hann lagt en flestir munu nokkurn tíma skilja. Hann segir tilgang með öllu og er viss um að það sé einhver ástæða fyrir því sem á hann hefur verið lagt.

„Ég fékk einu sinni að sjá dóttur mína löngu eftir að hún dó og það gaf mér gríðarlega mikið. Ég er ekkert sérlega trúaður, en ég trúi á líf eftir dauðann. Það var í 20 ára minningarathöfn um snjóflóðin. Athöfnin var að byrja og Fjallabræður voru að syngja gríðarlega fallegt lag og ég var við það að brotna saman. En allt í einu skynja ég eitthvað og lít upp og svo allt í einu birtist dóttir mín og hún var orðin fullorðin, nema með sömu hárgreiðslu og þegar hún var ung. Það var grallarasvipur á henni. Ég var í losti allt kvöldið og þetta gaf mér ofsalega mikið og ég gleymi þessu ekki á meðan ég lifi,“ segir hann.

Þáttinn með Hafsteini og alla aðra þætti Sölva Tryggvasonar má nálgast á heimasíðunni solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eyfi flutti Daga á Hringbraut í gær, sjáið flutninginn

Eyfi flutti Daga á Hringbraut í gær, sjáið flutninginn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ritstjórinn með atlögu að Íslandsmeti í ólesnum tölvupóstum

Ritstjórinn með atlögu að Íslandsmeti í ólesnum tölvupóstum
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Kanye er alveg genginn af göflunum“

„Kanye er alveg genginn af göflunum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Paralympic-dagurinn 2022 – Kynning á íþróttaiðkun fatlaðra

Paralympic-dagurinn 2022 – Kynning á íþróttaiðkun fatlaðra
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Þetta er pínu að ögra fólki en það er aldrei markmiðið, heldur að vera með eins hreinskilna og einlæga umfjöllun og hægt er og þora að fara þangað“

„Þetta er pínu að ögra fólki en það er aldrei markmiðið, heldur að vera með eins hreinskilna og einlæga umfjöllun og hægt er og þora að fara þangað“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ingibjörg ólst up við sárafátækt hjá fordómafullum föður sem neitaði að biðja um hjálp

Ingibjörg ólst up við sárafátækt hjá fordómafullum föður sem neitaði að biðja um hjálp