Hinn uppátækjasami Bam Margera, sem margir þekkja úr hjólabretta heiminum eða fyrir uppátækin úr raunveruleikaþáttunum Jackass og kvikmyndum sem bygðu á þáttunum, er á sjúkrahúsi að glíma við alvarlegt tilfelli af lungnabólgu í kjölfar COVID-19. Frá þessu greinir TMZ.
Heimildarmenn miðilsins segja að Bam hafi verið lagður inn í San Diego fyrr í vikunni og hafi þá greinst jákvæður fyrir COVID. Læknar hafi í framhaldinu ákveðið að setja Bam í öndunarvél og er hann á gjörgæslu þó ástand hans sé sagt stöðugt.
Bam hefur ekki átt sjö daganna sæla og hefur ítrekað þurft að leita sér aðstoðar á meðferðarstofnunum vegna baráttu sinni við fíknisjúkdóm. Hafa aðdáendur margir haft áhyggjur af hegðun hans undanfarna mánuði en hann hefur verið í virkri fíkn og stundað skemmtanalífið af krafti.
Nýlega fór af stað hreyfing sem kallaði sig #FreeBam, og var í anda hreyfingar aðdáenda söngkonunnar Britney Spears og barðist hreyfingin fyrir því að Britney fengi sjálfræði sitt aftur. Sú barátta bar árangur og hefur Britney getað um frjálst höfuð strokið undanfarið ár.
Bam hins vegar varð nokkuð hissa á þessari hreyfingu, enda er hann, þrátt fyrir fíknisjúkdóminn, en með sjálfræði. Hann hafi þó fengið skipaðan eins konar lögræðismann sem þó hafi bara farið með mál er varði heilbrigði Bam. Óskaði Bam á Instagram síðu sinni eftir því að aðdáendur hættu að áreita fjölskyldu hans enda væri enginn að undiroka hann með neinum hætti. Gekk þetta svo langt að fjölskylda hans og heilbrigðisráðamaðurinn fóru að fá hótanir frá áhyggjufullum aðdáendum sem heimtuðu að Bam fengi frelsið, sem hann hafði þó ekki verið sviptur, aftur.
Bam vakti athygli hér á landi árið 2015 þegar honum lenti saman við rapparann Gísla Pálma á Secret–Solstice tónlistarhátíðinni. Gekk myndband af átökunum um netheima og vakti mikla athygli.
Sjá einnig: Maðurinn sem lenti í slag við Gísla Pálma biður um hjálp Dr. Phil