fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fókus

„Ég ætla að lýsa upplifun minni af þessu fólki sem þú vilt meina aðgöngu inn í hin helgu vé íslenskrar landhelgi“

Fókus
Sunnudaginn 6. nóvember 2022 15:12

Mynd: Dv/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikilli reiði hefur verið beint að stjórnvöldum undanfarna daga eftir að 15 einstaklingum var vísað úr landi í skjóli nætur á miðvikudag, en meðal annars var maður að nafni Hussein dreginn með valdi upp úr hjólastól sínum, en hann var handtekinn ásamt fjölskyldu sinni og þeim komið í flugvél sem flutti fjölskylduna aftur í óboðlegar aðstæður í Grikklandi. Mál þeirra var enn í gangi í dómskerfinu hér á landi.

Sjá einnig: Gífurleg reiði vegna brottvísunar Hussein og fjölskyldu – „Óboðleg, fullkomlega ógeðsleg meðferð á manneskju. Skammist ykkar“

Hefur stefna stjórnvalda í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og gagnvart framkvæmd brottvísana verið harðlega gagnrýnd. Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, birti opið bréf til ríkisstjórnar Íslands á Facebook í dag vegna málsins.

„Kæra íslenska ríkisstjórn.

Ég skrifa til þín sem íbúi á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Póstnúmer 2200. Þar sem flestir innflytjendur per ferkílómetra búa í Danmörku.

Síðustu þrettán ár hef ég búið í fjölmenningarsamfélaginu hér. Í næstu götu er moska. Allt í kringum mig búa múslímskir innflytjendur. Konur með slæður. Menn í kirtlum. Börn með svarta lokka. Hörundsdökkt fólk.

Fólk sem kom hingað í leit að betra lífi og skjóli fyrir hörmungum heimalands síns.

Ég ætla að lýsa upplifun minni af þessu fólki sem þú vilt meina aðgöngu inn í hin helgu vé íslenskrar landhelgi.“

„Á meðan þú meðhöndlar fatlaðan mann eins og hveitisekk“

Ragga lýsir svo hvernig fjölmenningin hefur auðgað líf hennar og gert Danmörku að betri stað.

„Konan sem hljóp á eftir mér með 10 danskar krónur sem ég hafði gleymt í sjálfsala. Múslimadrengurinn sem dinglaði hjá mér með húfuna sem ég hafði misst úti á götu.

Hópurinn af erlendu drengjunum sem hjálpuðu okkur að flytja búslóðina.

Grænmetissalinn sem er flóttamaður frá Íran og gefur mér afslátt af því ég brosi svo fallega.

Kebabsalinn sem hefur oftar en ekki sagt okkur að koma bara seinna með greiðslu ef kortið hefur verið með vesen, eða vantað örfáar krónum

Slæðuklædda nágrannakona mín sem lánaði okkur þvottavélina sína eitt sinn þegar við fluttum inn í nýja íbúð, og skítugar spjarirnar hrönnuðust upp.

Uppáhalds maturinn minn er tyrkneskur, persneskur, sómalskur, sýrlenskur . Ef Danmörk hefði sent alla út á guð og gaddinn á níunda áratugnum, væri ekki dúndrandi partý hjá bragðlaukunum hjá okkur í Danaveldi.“

Á sama tíma sé íslenska ríkisstjórnin að rífa fatlaðan mann upp úr hjólastól til að senda hann til lands þar sem hann þarf að sofa á bekk í almenningsgarði.

„Á meðan þú meðhöndlar fatlaðan mann eins og hveitisekk. Með fordæmalausri vanvirðingu og harðneskju, og sendir til að sofa á hörðum trébekk í almenningsgarði í Grikklandi þá hitti ég reglulega íraskan félaga minn í ræktinni í Kaupmannahöfn sem fær enn martraðir tuttugu árum eftir að hafa verið pyntaður af Saddams mönnum.

Á meðan þú lést lögreglu sitja fyrir ungum námsfúsum stúlkum af írönsku bergi svo þær myndu ekki óhreinka gangstéttar Reykjavíkur og taka pláss í framhaldsskóla, þá eru atvinnuauglýsingar sem fylla heilu doðrantana í leit að fólki til starfa.

Þessi þjóð telur aðeins þrjúhundruð og eitthvað þúsund hræður en tekur á móti einni og hálfri miljón ferðamanna á ári. Okkur vantar fleiri vinnandi hendur á dekk.

Á meðan þú skellir í lok lok og læs fyrir okkar bágstöddustu bræðrum og systrum í leit að skjóli og vernd fyrir ofsóknum, kúgun, oki og jafnvel dauða, þá er smjattað á snittum í Laugardalnum og þessar aðfarir mærðar í ræðum.“

Snúið af villu ykkar vegar og grafið djúpt í iður sálarinnar

Ragga segir að nágrannar hennar hafi kennt henni vinalegt viðmót sem hún hafi aldrei kynnst fyrr og hafi hún tileinkað sér algjört fordómaleysi þeirra. Óháð uppruna eigi fólk að hjálpa hverju öðru og deila gildum sínum sem manneskjur. Ragga hefur lært að virða fólk út frá gjörðum og persónuleika en ekki uppruna, landi eða trú.

Ef íslensk stjórnvöld hefðu fengið að ráða í Danmörku á níunda áratugnum hefði Ragga aldrei fengið að kynnast þessi fólki

„Það hefði ekki fengið að stíga fæti á danska grund eða verið vísað úr landi, eins og stórhættulegir námsmenn og fatlaðir einstaklingar.

Það er þyngra en tárum taki sú útilokunarstefna í innflytjenda og hælisleitenda málum sem bæði þessi lönd hafa hinsvegar tekið upp. Tvö lönd sem tróna á toppi lífsgæða á allri jarðarkringlunni. Tvö lönd sem skora hæst í lífsgæðum. Tvö lönd sem hafa auðlindir og auðmagn, nægilegt pláss og bolmagn til að taka á móti miklu fleiri bágstöddum sem vita ekki hvort, hvaðan eða hvenær næsta máltíð kemur.

Á meðan við forréttindapésarnir kvörtum yfir að uppáhalds hummusinn sé ekki til i matvörubúðinni.

Biðjum til Allah, Guðs, Búdda eða Þórs að þið snúið af villu ykkar vegar og grafið djúpt í iður sálarinnar eftir samkennd, samhyggð og samúð með þeim sem allra minnst mega sín.

Skammist ykkar!!!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að leikstjóri hafa reynt að gera út af við feril hennar því hún stóð í lappirnar gegn honum

Segir að leikstjóri hafa reynt að gera út af við feril hennar því hún stóð í lappirnar gegn honum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jónas kvartaði yfir ljósum á tónleikum Norah Jones – „Líkt og einhver hefði ruglað saman tónleikum og yfirheyrslu á lögreglustöð“

Jónas kvartaði yfir ljósum á tónleikum Norah Jones – „Líkt og einhver hefði ruglað saman tónleikum og yfirheyrslu á lögreglustöð“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kate Beckinsale útskýrir af hverju hún er búin að grennast svona mikið

Kate Beckinsale útskýrir af hverju hún er búin að grennast svona mikið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Stórstjarnan lét óræða athugasemd falla um erfiðleika lífsins

Stórstjarnan lét óræða athugasemd falla um erfiðleika lífsins
Fókus
Fyrir 5 dögum

Khloé Kardashian greinir frá öllum fegrunaraðgerðum sem hún hefur gengist undir

Khloé Kardashian greinir frá öllum fegrunaraðgerðum sem hún hefur gengist undir
Fókus
Fyrir 5 dögum

Nýjar myndir af „veikburða“ Ryan Seacrest valda áhyggjum

Nýjar myndir af „veikburða“ Ryan Seacrest valda áhyggjum