fbpx
Laugardagur 17.apríl 2021
Fókus

Neteinelti og neikvæðu hliðar TikTok – „Fyrstu ljótu skilaboðin sem ég fékk voru „dreptu þig““

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 24. janúar 2021 10:00

Laufey Ebba. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Laufey Ebba nýtur mikilla vinsælda á samfélagsmiðlinum TikTok. Hún leggur áherslu á að breiða út náungakærleik og boðskapinn að elska sig eins og maður er. Hún er ötull talsmaður gegn neteinelti og segir ógnvekjandi menningu þrífast á miðlinum.

Laufey Ebba lýsir sér sem 27 ára stelpukonu sem býr hjá afa sínum með hundinum Birtu.

„Ég er reyndar að festa kaup á íbúð og fæ hana afhenta núna í vor. Við afi erum rosa náin en erum alveg tilbúin að slíta samvistum. Við erum samt ekki tilbúin að fara neitt ofboðslega langt hvort frá öðru en erum að kaupa hvort sína íbúðina í sömu blokk í Njarðvík. Afi á efstu hæð og ég á neðstu,“ segir Laufey Ebba.

Laufey er með meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum og starfar við það. „Ég er með stóran persónuleika og sterkar skoðanir á ýmsum málefnum. Ég held samt að ég sé nokkuð góð í að miðla málum og vinna með alls konar fólki,“ segir hún.

Sá styrkleiki kemur að einhverju leyti vegna systkinafjölda Laufeyjar, en hún á sjö systkini á öllum aldri. „Ég er yngst af sex börnum pabba megin en elst af þremur börnum mömmu megin. Ég er eiginlega yngsta barn, elsta barn og einkabarn, en mamma eignaðist litla bróður minn ekki fyrr en ég var að verða fjórtán ára. Ég held að þetta hafi hjálpað mér að ná tengingu við fólk á öllum aldri,“ segir hún.

Laufey Ebba og hundurinn Birta. Mynd/Valli

TikTok

Laufey Ebba byrjaði á TikTok þegar fyrsta bylgja COVID-19 skall á í mars, apríl í fyrra.

„Ég er í áhættuhóp og mamma mín krafðist þess að ég kæmi heim til hennar og við fjölskyldan einangruðum okkur saman í tæpa tvo mánuði. Þá byrjaði ég að vera mikið á TikTok og eftir það varð ekki aftur snúið,“ segir hún. Laufey segir að TikTok sé magnaður miðill.

„Ég held að ég hafi ekki lært jafn mikið í öllu mínu langskólanámi eins og ég hef lært á TikTok,“ segir hún og bætir við að TikTok sé allt öðruvísi miðill en aðrir samfélagsmiðlar.

„TikTok er hálfgert samfélag af fólki. Ég veit að það hljómar galið en TikTok gefur mér mjög mikið. Ekki bara athygli og tækifæri til að búa til myndbönd, heldur ekki síst að fylgjast með öðrum, læra og horfa.“

Laufey viðurkennir að miðillinn hafi þó sínar neikvæðu hliðar. „Það er einnig mjög dökk menning þar inni sem er að mínu mati mikið áhyggjuefni. Þar þrífst „hliðarsamfélag“ af fólki sem nærist á því að niðurlægja aðra. Ég veit að það er gömul klisja að segja að það sé auðvelt að „fela sig á bak við skjáinn“, en það er satt. Ólíkt þessu „hefðbundna“ einelti sem hefur þekkst lengi er þessu oft ekki beint að einum aðila heldur öllum. Ég hef miklar áhyggjur af því að við sem samfélag séum ekki að taka nógu hart á þessu. Ekki bara vegna þess að krakkar, sem eru þegar í vandræðum með eigin sjálfsmynd, verði fyrir barðinu á þessu, heldur ekki síður vegna þess að mér finnst ógnvekjandi að það sé kynslóð af krökkum sem finnst eðlilegt að segja við annað fólk „dreptu þig“ og „því oftar sem X heyrir að hann eigi að drepa sig því líklegra er að hann geri það“. Ég get ekki ímyndað mér að börn og unglingar, sem eru með svona menningu í sínum vinahóp, verði að almennilegum samfélagsþegnum,“ segir Laufey.

„Við vitum að einelti hefur slæm áhrif á börn og ungmenni, það sama gildir auðvitað um neteinelti. Það tók mig, fullorðna konu með gott sjálfstraust, góða fjóra mánuði að láta svona ummæli ekki ná til mín. Þannig að við getum rétt ímyndað okkur hvaða áhrif þetta getur haft á veikgeðja einstakling sem er enn að finna út hver hann er.“

Laufey segist jafnvel hafa meiri áhyggjur af krökkunum sem segja þessa hluti, krökkunum sem leggja í einelti. „Maður vill ekki kenna uppeldinu einu um þetta, enda held ég að þetta séu margir samverkandi þættir sem leiða til þess að það eru tugir krakka sem nærast á vanlíðan annarra.“

Laufey Ebba. Mynd/Valli

Kemur til dyranna eins og hún er klædd

Laufey Ebba nýtur mikilla vinsælda á TikTok og er með tæplega 16 þúsund fylgjendur. Aðspurð hvað hún haldi að sé það sem valdi því að hún skersig úr í fjöldanum segist Laufey ekki vera viss.

„Þetta er allt öðruvísi miðill en Instagram, þar sem þú ert með mikið forskot ef þú ert nógu aðlaðandi. TikTok er mun meira að vinna með persónuleika og fyndni, mér finnst ég persónulega mjög fyndin svo mig langar að segja að það sé ástæðan,“ segir hún.

„Ég held að það spili einnig inn í að ég kem bara til dyranna eins og ég er klædd. Ég er hreinskilin og oft líka bara algjör lúði. Ég er ekki að reyna að sýna einhverja glansmynd eða þykjast vera einhver sem ég er ekki. Ég hef heyrt það frá mörgum krökkum sem fylgja mér að þeim þyki það hvetjandi að ég sé bara ég sjálf. Þau vilja gera það sama og fá styrkinn til að vera bara þau sjálf, sem er ekki sjálfgefið fyrir unglinga í dag sem alast upp með samfélagsmiðla og stöðuga pressu frá umheiminum.“

Ráð Laufeyjar Ebbu til þeirra sem vilja ná langt á TikTok er að „birta myndbönd reglulega og ekki líta of stórt á þig“.

Laufey Ebba. Mynd/Valli

Fyrstu ljótu skilaboðin

Í stuttu máli gengur TikTok út á það að birta stutt myndbönd, allt frá fimmtán sekúndum upp í sextíu sekúndur. Notendur miðilsins geta skrifað við myndbönd annarra og geta aðrir notendur líkað við athugasemdir. Laufey Ebba hefur fengið ljótar athugasemdir frá því að hún deildi fyrsta myndbandinu á TikTok.

„Fyrsta ljóta athugasemdin sem ég fékk var „dreptu þig“. Síðan hef ég fengið allar ljótu athugasemdirnar sem hugsast getur. Mér fannst þetta alveg leiðinlegt fyrst og þetta sló mig út af laginu. Ég jafnaði mig samt yfirleitt fljótt og hélt ótrauð áfram. Ég las mér til um hvernig maður ætti að hætta að láta ljót ummæli hafa áhrif á sig, horfði á myndbönd og hlustaði á hlaðvörp. Í dag hafa ummælin engin áhrif á mig. En miðað við að ég, fullmótaður einstaklingur, hafi þurft að leggja markvissa vinnu í að láta þetta ekki ná til mín þá gefur það augaleið hvaða áhrif þetta hefur á börn og unglinga,“ segir hún.

Laufeyju hefur tekist að sía út mörg ljót ummæli með því að nota svokallaða „athugasemdasíu“ á TikTok. „Sían tekur út stikkorð sem ég vil ekki að birtist hjá mér og listinn af orðum er orðinn lengri en góðu hófi gegnir. Það er ráðist á allt hjá manni sem hægt er að ráðast á. Ég hef blokkað út allar mögulegar stafsetningarvillur sem er hægt að gera þegar einhver ætlar að skrifa dreptu þig, krypplingur, ljót, feit og svo mætti lengi telja. Mér finnst það ekki eðlilegt að ég þurfi að gera þetta,“ segir hún.

Laufey Ebba. Mynd/Valli

Erfiður slagur

Laufey Ebba ákvað í kjölfarið að taka erfiðan slag og vekja athygli á neteinelti og opna umræðuna „Mér fannst ég bara verða að tækla þetta. Það kom mér algjörlega í opna skjöldu hversu gróft þetta getur orðið. Mér finnst ég verða að nýta rödd mína þar sem ég hef þennan stóra vettvang sem nær til unglinga. Ég vona að það skili einhverju,“ segir hún.

„Fyrst og fremst vona ég líka að bæði fórnarlömb neteineltis og krakkarnir, sem líður svo illa að þeir þurfa að niðurlægja aðra nafnlaust til að upphefja sig, leiti sér hjálpar.“

Þess virði

Laufey Ebba mætti miklu mótlæti þegar hún ákvað að taka slaginn. Þrátt fyrir að reyna að sía út ljótar athugasemdir fær hún, og aðdáendur hennar sem skrifa við myndbönd hennar, niðrandi athugasemdir daglega. En hvað er það sem gerir þetta þess virði?

„Það sem gerir þetta allt þess virði er þegar ég sé krakka vera nákvæmlega þau sjálf og biðjast ekki afsökunar á því. Þegar foreldrar barna segja mér að barnið þeirra fylgist með mér og þau séu að taka sitt pláss og leyfa sér að vera öðruvísi. Ég hef átt ófá þannig samtöl við stolta foreldra, og það gerir þetta allt þess virði,“ segir hún.

„Að sjá að ég sé að hafa áhrif til góðs og sé að hjálpa börnum að taka sig í sátt er eiginlega ólýsanleg tilfinning, eins dramatískt og það hljómar.

Fyrir foreldra

Aðspurð hvort hún hafi einhver ráð fyrir foreldra sem eiga börn og unglinga á samfélagsmiðlum segist Laufey sjálf ekki vera foreldri og það sé mjög auðvelt að setja sig í dómarasæti.

„Flestir foreldrar þekkja börnin sín best og eru fær um að meta þroska þeirra. En ég myndi alltaf segja að þau ættu að fylgjast með aðgöngunum þeirra á samfélagsmiðlum. TikTok og Instagram bjóða upp á að það sé hægt að vera skráður inn á aðgang í gegnum fleiri en eitt tæki. Ég hugsa að ég myndi alltaf vilja vera skráð inn á aðgang barnsins míns, þó ég væri ekki stöðugt að vakta hann. Bara svo ég gæti haft yfirsýn yfir hvað sé svona sirka að gerast,“ segir hún.

„Svo myndi ég mæla með að skapa þannig umhverfi að börnin þori að koma að tala við foreldrana ef það er eitthvað sem þeim líður óþægilega eða illa með, ef þau sjá eitthvað ljótt til dæmis.“

Náungakærleikur

Náungakærleikur er stórt þema á TikTok-síðu Laufeyjar Ebbu. Hún segir að það sé ömmu sinni heitinni og nöfnu að þakka.

„Hún var mikill áhrifavaldur í mínu lífi. Hún var kærleikskona og mætti öllum með kærleika. Mér hefur lengi þótt vanta það í samfélagið hjá okkur. Samfélagið er á svo mikilli hraðferð og allir að reyna að vera fullkomnir að öllu leyti. Mig grunar að með því hafi eitthvað skolast út varðandi að sýna samkennd og væntumþykju til náungans,“ segir hún.

„Ég er með hálfgert slagorð sem er: „Allt er mikið betra ef við erum bara nice.“ Það er svo auðvelt að vera bara vingjarnleg í samskiptum þínum við annað fólk og það er allt mikið betra ef við venjum okkur bara á að eiga átakalaus samskipti við aðra.“

Laufeyju Ebbu þykir miður að verða vitni að slæmri framkomu fólks. „Ég hef verið að selja peysur og fer því oft á Pósthúsið. Í nánast hvert einasta skipti sem ég fer verð ég vitni að því að einhver er með leiðindi við starfsfólk Póstsins. Þar er fólk að láta eigin gremju bitna á „starfsmanni á plani“ hjá Póstinum sem hefur nákvæmlega ekkert að gera með verðskrá eða sendingartíma. Það væri svo auðvelt að anda bara inn og skoða hvaðan gremjan er að koma frekar en að láta hana bitna á öðrum. Við erum öll að gera okkar besta og stundum verður okkur á.“

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Laufey (@laufeyebba)

Fæddist með 90° hryggskekkju

Laufey Ebba talar einnig mikið um sjálfsást á TikTok og mikilvægi þess að elska sjálfan sig eins og maður er. Hún segir það sennilega hafa eitthvað með það að gera að hún fæddist með 90 gráðu hryggskekkju og fimm hryggjarliði fasta saman.

„Þetta sést alveg á mér þó ég sé samt heppin með að teljast myndarleg samkvæmt útlitsstöðlum samfélagsins. Það tók mig samt allt of langan tíma að fatta að útlitið segir nákvæmlega ekkert um virði manns. Mér finnst alltaf sláandi hvað það eru margir sem fara í gegnum lífið stöðugt að reyna að breyta sér og líður ekki eins og þeir séu nógu flottir, sætir og klárir,“ segir hún.

„Mér finnst alltaf gott að hugsa um foreldra og ættingja til að fá smá samhengi. Myndi maður elska mömmu sína eitthvað meira ef hún væri fullkomin í útliti eins og einhver ofurfyrirsæta? Svarið hjá mér er allavega hart nei. Af hverju ætti útlit að skilgreina virði okkar ef útlit foreldra okkar skilgreinir ekki virði þeirra? Við erum alveg jafn merkileg og aðrir þó við séum ekki með jafn sterk spil í einhverjum leik sem samfélagið hefur stimplað sem eftirsóknarverð.“

Laufey Ebba er dugleg að breiða þennan boðskap út á TikTok, bæði beint og líka bara með því að vera hún sjálf. „Ég tek mitt pláss, er með ADHD, skakkt bak og er almennt bara frekar gölluð en samt frábær. Ég vona að sem flestir taki sig í sátt án þess að það taki hálfa ævina.“

Fylgstu með Laufeyju Ebbu á TikTok og Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ósk og Ingólfur selja kynlífsmyndir og myndbönd af sér – Lögreglan kom að þeim að stunda kynlíf – „Við fríkuðum bara út“

Ósk og Ingólfur selja kynlífsmyndir og myndbönd af sér – Lögreglan kom að þeim að stunda kynlíf – „Við fríkuðum bara út“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ætluðu að breyta stofugólfinu – Það sem leyndist undir teppinu kom þeim á óvart

Ætluðu að breyta stofugólfinu – Það sem leyndist undir teppinu kom þeim á óvart
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gísli Marteinn syrgir hundinn sinn – „Við söknum hans svo ótrúlega mikið“

Gísli Marteinn syrgir hundinn sinn – „Við söknum hans svo ótrúlega mikið“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Daníel í Næturvaktinni genginn út

Daníel í Næturvaktinni genginn út