Þórarinn Leifsson, myndlistarmaður, rithöfundur og leiðsögumaður, kynnti nýja bók sína, Út að drepa túrista, í húsnæði 12 tóna á Skólavörðustíg, síðastliðinn föstudag. Gestir fengu þar forskot á sæluna því bókin kom í bókabúðir í gær, þriðjudag.
Út að drepa túrista er í senn fyndin og myrk saga. Þetta er fyrsta glæpasaga Þórarins sem hér veitir hráa og lifandi innsýn í leiðsögumannabransann korter í Covid-faraldurinn. Lestur höfundar úr bókinni á föstudag vakti gestum í senn hlátur og kitlandi eftirvæntingu.
Gestir nutu veitinga og margir festu kaup á árituðu eintaki á vildarkjörum. Umfram allt var maður manns gaman í þessu útgáfuhófi eins og myndirnar bera með sér en þær tók Anton Brink.