93. Óskarsverðlaunahátíðin fer fram á morgun. Ísland á tengingu til tveggja tilnefninga en teiknimyndin Já-fólkið eftir Gísla Darra Halldórsson er tilnefnd í flokknum besta stutta teiknimyndin og lagið Husavik úr myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga er tilnefnt sem besta lag.
Þó svo að sigurvegararnir verði ekki kynntir fyrr en á morgun þá eru veðbankarnir búnir að ákveða sína sigurvegara. Samkvæmt þeim eru ágætis líkur á að Husavik vinni en ólíklegt að Gísli Darri fái Óskarinn í ár.
Besta myndin verður að öllum líkindum Nomadland en stuðullinn á að hún vinni er í kringum 1.22. Það þýðir að skulir þú leggja 1.000 krónur á að sú mynd vinni gætir þú fengið 1.220 krónur til baka hafir þú rétt fyrir þér. Því lægri sem stuðullinn er, því líklegra er að þú vinnir. The Trial of the Chicago 7 er næst líklegust með stuðulinn 7.5.
Chadwick heitinn Boseman er líklegastur til að fá verðlaun fyrir besta leik karla í aðalhlutverki fyrir myndina Ma Rainey’s Black Bottom en stuðullinn er aðeins 1.13 á því. Boseman lést úr krabbameini í ágúst 2020, aðeins 43 ára að aldri.
Carey Mulligan, Viola Davis og Frances McDormand eru í hörkubaráttu um besta leik kvenna í aðalhlutverki. Mulligan fær stuðulinn 2.5, Davis 3.0 og McDormand 5.0.
Husavik fær stuðulinn 4.0 í baráttunni um besta lagið en lögin Speak Now úr One Night in Miami og Io Si úr The Life Ahead eru rétt á undan með 1.61 og 3.4.
Já-fólkið er með stuðulinn 21 í sínum flokki en líklegast er að myndin If Anything Happens I Love You sigri. Myndin fær stuðulinn 1.36.