fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Nína, Skólaball og Móðir – Sögurnar á bak við dægurperlurnar

Auður Ösp
Laugardaginn 13. júlí 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Af öllum þeim fjölmörgu íslensku dægurlögum sem samin hafa verið í gegnum tíðina eru nokkur sem hafa unnið sér sér sérstakan sess hjá þjóðinni. En hver þessi Nína sem Eyvi og Stebbi sungu um? Hvaða stúlka var þetta á skólaballinu? Og hver er þessi maður, þessi „ljúfi drengur sem fallin er frá“ sem Logar sungu um á áttunda áratugnum?

Nína

Óhætt er að fullyrða að nánast hver einasti Íslendingur kannist við lagið Draumur um Nínu, sem þeir Eyjólfur Kristjánsson og Stefán Hilmarsson fluttu svo eftirminnilega í Eurovision-söngvakeppninni árið 1991. Hver kannast ekki við að hafa verið í partíi þar sem gítar var dreginn upp og hópurinn fór að söngla um Nínu „sem er ekki lengur hér“?

Í samtali við Fréttablaðið árið 2008 sagði Eyjólfur Kristjánsson, að Nína hefði verið eitt af fáum lögum sem hann samdi sérstaklega fyrir Eurovision-keppnina:

„Ég bjó í lítilli íbúð á Austurströnd á Seltjarnarnesi þegar ég samdi það. Píanóbyrjunin kom fyrst en svo kom restin af laginu á löngum tíma. Þegar lagið hafði unnið hringdi vinkona mín í næstu íbúð í mig og sagði að þetta lag væri þrælstolið. En þá hafði hún bara heyrt það svona oft í gegnum vegginn. Ég reyndi að fá Stebba til að semja textann en hann var of upptekinn með Sálinni og sagði mér bara að semja hann.“

Margir hafa velt fyrir sér hver hún sé eiginlega, þessi Nína sem sungið er um í laginu. Að sögn Eyjólfs var þessi Nína „engin sérstök“.

„Ég fékk kannski nafnið lánað en allt hitt er skáldskapur. Ég þekki enga látna Nínu. Alveg satt!“

Í samtali við Tímann í apríl 1991 sagði Eyjólfur einnig að Nína væri „bara hugarburður“ og í raun „væri ekkert sérstakt á bak við textann“. „Ég sest niður stundum og sem lög, af því að ég geri nú lítið annað en að vera í tónlist, og þetta varð afraksturinn að þessu sinni.“

Tvær stjörnur

Ástarlagið Tvær stjörnur er að finna á plötu Megasar Bláir draumar sem kom út á níunda áratugnum. Margir telja það eitt besta ástarlag íslenskrar dægurlagasögu.

Árið 2015 gaf Óttar Guðmundsson geðlæknir út bók um ævi og verk Megasar þar sem hann braut hverja einustu hljómplötu Megasar til mergjar, allt frá þeirri fyrstu frá árinu 1972 til þeirrar nýjustu frá 2012. Óttar ræddi um útgáfu bókarinnar við Morgunblaðið á sínum tíma og kom þá til tals lagið Tvær stjörnur sem Óttar kallaði „ástarlag aldarinnar.“ Á níunda áratugnum dvaldi Megas í Taílandi og kynntist þar manni sem nefndur er Mú. Óttar sagði Megas hafa hrifist af Mú og bjuggu þeir saman á Íslandi um skeið.

„Mú hafði gríðarleg áhrif á Magga og til dæmis orti hann til Mú ástarlag aldarinnar, Tvær stjörnur. Þótt kjaftasögurnar færu á flug hefur ekki verið fjallað áður um þetta samband með raunsæjum hætti eins og ég geri í bókinni.“

Birgir Baldursson, fyrrverandi formaður Vantrúar, ritaði bloggfærslu í febrúar 2004 þar sem hann lýsti samræðum sem hann átti við Megas á öldurhúsi í Reykjavík en þar kom lagið Tvær stjörnur meðal annars til tals. „Þetta hugverk er samið um söknuð eftir lifandi manneskju og vonina um að fá að hitta hana aftur síðar og endurtaka ástarævintýrið. En svo virðist sem þeir sem misst hafa börn sín nái að bindast þessum texta meira en aðrir og höfundurinn er stöðugt að heyra frá slíku fólki og af því hve verðmætt þetta lag/ljóð er í hugum þess.“

Ég veit að þú kemur

Ég veit þú kemur var gert ódauðlegt í flutningi Ellyjar Vilhjálms á sjöunda áratugnum. Lagið samdi Oddgeir Kristjánsson, tónlistarkennari í Vestmannaeyjum, en textann orti Ástgeir Ólafsson, einn ástsælasti tónlistarmaður Vestmannaeyja sem ávallt var þekktur sem Ási í Bæ. Tvíeykið samdi fjölmörg þjóðhátíðarlög saman í gegnum tíðina. Þegar hlustað er á textann er auðvelt að draga þá ályktun að lagið fjalli um rómantískar ástir manns og konu. Staðreyndin er hins vegar sú að textinn fjallar um samskipti þeirra félaga, Ása og Oddgeirs.

Guðfinnur Eiríksson tónlistarmaður rifjar upp söguna á bak við lagið í færslu á bloggsíðu sinni Guf.Fi. árið 2012.

„Eitthvert árið var Oddgeir löngu búinn að semja lagið og koma því til Ása, sem hafði hins vegar dregið það úr hófi að semja textann við lagið. Það var farið að styttast í Þjóðhátíð og Oddgeir byrjaður að ókyrrast svo hann gerði sér ferð heim til Ása. Hann var heima hjá sér timbraður þegar Oddgeir kom og hitti hann og var mikið niðri fyrir. Hann væri löngu búinn að skila af sér laginu en Ási væri ekki að standa við sinn part samkomulagsins. Nú væri orðið stutt í Þjóðhátíð og lagið yrði að fara að verða klárt og með þessari framkomu sinni væri Ási að koma óorði á þá báða. Með þessum orðum kvaddi Oddgeir svo Ása. Ási vissi vel upp á sig sökina og daginn eftir mætti hann heim til Oddgeirs vinar sínast og færði honum þennan texta.“

Móðir

Fjölmargir textar Bubba Morthens vísa í atburði úr samtímanum og lagið Móðir, sem kom út á plötu Egó árið 1982, er þar engin undantekning. Lengi gengu þær sögur að texti lagsins væri innblásinn af óhugnanlegu atviki sem átti sér stað í Reykjavík í upphafi níunda áratugarins, þegar ung stúlka varð fyrir hrottalegri líkamsárás og nauðgun í miðbænum.

Í desember 1997 var Bubbi í viðtali í þætti Lísu Páls á Rás 2 og ræddi hvernig Móðir varð til.

„Þetta varð svo rosalegur smellur. Það hefði verið skemmtilegra ef það hefði verið betri texti við svona stóran smell. Málið er að þetta lag var samið á fimm mínútum uppi í Tónabæ sem þá var og hét, í hljóðprufu. Það hafði nefnilega komið í fréttum að einhver geðveikur ofbeldismaður hefði misþyrmt og nauðgað ungri stúlku í Þverholtinu. Við heyrðum um þetta í bílnum á leiðinni upp í Tónabæ. Ég skrifa textann semsagt inni í Tónabæ. En lagið var allt í lagi, þetta var svona katsí-lag. En ég hefði nú glaður viljað leggja meiri vinnu í textann.“

Bubbi Morthens

Skólaball

Hljómsveitin Brimkló gerði lagið Skólaball ódauðlegt á níunda áratug seinustu aldar en það var Magnús Kjartansson sem samdi smellinn. „Þetta bara lak úr pennanum og varð til. Þarna var ég að rifja upp það sem við kölluðum skólaböll og æskulýðsböll um helgar. Þarna vorum við tveir mjög góðir vinir að slást um sömu stúlkuna eins og gerist og gengur. Ég tók þetta mjög alvarlega víst, samkvæmt textanum. Og ekki lýgur minnið þegar maður skrifar svona,“ rifjaði Magnús upp í samtali við Víkurfréttir árið 2014.

Í samtali við Morgunblaðið sama ár rifjaði Magnús upp að á umræddu skólaballi hefði hann séð á eft­ir vin­i sínum og stúlk­unni læðast í burtu en sjálf­ur gekk hann „særður út í nótt­ina“ eins og segir í laginu. Rétt eins og segir í textanum  kom hann sér síðan fyr­ir í skoti ná­lægt heim­ili stúlkunnar og beið þar eftir henni. Stúlk­an birt­ist síðan, snöktandi og hallaði sér upp að ljósastaur.

„Magnús tók þá á sig rögg, fór til stúlk­unn­ar og huggaði og til að gera langa sögu stutta þá eru þau Magnús hjón enn þann dag í dag.“

Minning um mann

Minning um mann var einn allra vinsælasti slagarinn árið 1973 en það var Gylfi Ægisson sem samdi lag og texta og kom því í hendur Eyjapeyjanna í hljómsveitinni Logum.

Maðurinn sem sungið er um í laginu er Eyjamaðurinn Árni Valdason, betur þekktur sem Gölli. Jón Ragnar Ríkharðsson, sjómaður og formaður verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, ritaði pistil á Facebook á dögunum og greindi frá tilurð lagsins. Birti hann meðfylgjandi mynd ásamt orðunum:

 „Sennilega hafa flestir Íslendingar sungið um manninn sem heldur á könnunni. En þetta er maðurinn sem lagið „Minning um mann“ fjallar um.“

Jón rifjaði jafnframt upp sögu af Gölla sem var einkar vel liðinn í bænum:

„Hann þótti góður sjómaður og þrátt fyrir vinfengi við Bakkus sóttust menn eftir að hafa hann um borð. Skemmtilegur félagi, góður verkmaður og hlífði sér aldrei við vinnu – slíkir menn eru alltaf dýrmætir um borð í öllum skipum. Hann reri talsvert með Binna í Gröf og eitt skiptið þurfti að stoppa við bryggju til að taka olíu eða vistir (fylgdi ekki sögunni). Gölli (sem umræddur maður var kallaður en Árni hét hann) spurði Binna hvort hann mætti ekki skreppa í göngutúr.

Binni efaðist um að skynsamlegt væri að hleypa kallinum í land en ákvað samt að taka sénsinn. En Gölli hafði fullvissað skipstjórann sinn um að hann myndi ekki smakka dropa af víni. Svo var klárt til brottfarar en ekki sást til Gölla þannig að Binni gerðist óþreyjufullur mjög. Skyndilega birtist hásetinn dauðadrukkinn á bryggjunni og hann kom slagandi um borð.

Binni bókstaflega trompaðist og hellti sér yfir Gölla sem svaraði skipstjóranum drafandi röddu: „Binni minn eru ekki allir aðrir en ég bláedrú um borð?“ Því var svarað játandi af miklum þunga og þá sagði Gölli: „það verður einhver að sjá um óregluna á þessum dalli vinur og er nokkuð verra að það sé ég? Það eru engir betri í óreglunni en ég eins og þú veist“:

Þetta svar varð til þess að Binna rann reiðin og hann gat ekki annað en hlegið að þessum dykkfellda skipverja – sem þrátt fyrir allt var einn af hans öflugustu mönnum.“

Að lokum segir Jón:

„Svona menn mega aldrei gleymast því þeir gerðu þjóðinni meira gagn en margir bindindismenn sem telja sig afskaplega merkilega menn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar