fbpx
Föstudagur 04.júlí 2025
Fókus

Embla Ósk ætlar í viku þagnarbindindi: „Ef dýrin myndu tala þá myndu þau segja okkur að hætta“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 29. mars 2019 10:00

Embla Ósk. Mynd: Hanna/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ætla í þagnarbindindi í viku til þess að vekja athygli á þjáningu dýranna og það sem við látum þau ganga í gegnum. Einfaldlega vegna þess að okkur finnst þau góð á bragðið,“ segir Embla Ósk Ásgeirsdóttir, móðir og vegan-aktívisti.

„Árið 2019 er engin ástæða til að neyta dýra og afurða þeirra. Margar rannsóknir sanna að það sé meira að segja skaðlegt fyrir þig, heilsu þína og jörðina okkar.“

Embla Ósk, 23 ára, ætlar í þagnarbindindi frá 1. apríl-7. apríl næstkomandi.  Hún á fjögurra ára gamlan son, Henrik, með kærasta sínum Styrmi Jarli. Hægt verður að fylgjast með Emblu í þagnarbindindi á Instagram, @embla_osk.

Í viðtali við DV fyrir stuttu ræddi Embla um veganismann og aktívismann.

Sjá einnig: Embla Ósk er vegan-aktívisti: „Þetta er ekki persónulegt val ef það er fórnarlamb“

Embla hefur aldrei gert neitt líkt þessu áður en fær fullan stuðning frá kærasta sínum og fjölskyldu sinni. DV spurði Emblu út í þagnarbindindið, framkvæmdina og ástæðuna á bak við það.

Embla Ósk ásamt syni sínum Henrik.

Hvað heldurðu að verði erfiðast?

„Ég hef verið að æfa mig í stuttan tíma núna, eins og þegar ég er ein í bílnum að tala ekki meðvitað og ég fæ létt innilokunarkennd. Þannig ég held að þetta verður alveg gríðarlega krefjandi en á sama tíma finn ég það svo mikið á mér að ég eigi að vera að gera þetta.“

Hvernig útskýrirðu þetta fyrir syni þínum?

„Ég er hreinskilin við hann og reyni að útskýra þetta fyrir honum eftir bestu getu. Við erum strax farin að æfa okkur og hann virðist skilja þetta eins vel og hann getur. Styrmir, faðir hans og kærasti minn, mun ekki vinna kvöldin vikuna sem ég er í þagnarbindindi og verður þar af leiðandi alltaf til staðar og til taks.“

Hvað finnst honum um þetta?

„Hann er ekkert nema stuðningurinn. Hann skilur mig ótrúlega vel og finnst þetta bara flott hjá mér. Hann er líka vegan fyrir dýrin og finnst þetta mikilvægt.“

En fjölskyldu þinni?

„Mömmu finnst eitthvað ólíklegt að þetta muni takast hjá mér vitandi hvað ég tala mikið en samt grínast hún bara með það og er spennt að fylgjast með.“

Hverjar eru reglurnar, máttu skrifa?

„Ég má ekki tala, humma eða gefa frá mér hljóð. Ég má skrifa og mun skrifa á miða eða í símann til að útskýra fyrir fólki af hverju ég sé ekki að tala núna í von um að þau muni kynna sér málið.“

Hvað kom til að þú ákvaðst að fara í þagnarbindindi?

„Ég er búin að vera með þessa hugmynd í dágóðan tíma en hafði hingað til bara ætlað í þagnarbindindi í einn dag. Síðan datt mér í hug að taka viku þar sem dýrin geta heldur ekki talað. Því ef þau myndu tala þá myndu þau segja okkur að hætta,“ segir Embla Ósk.

„Ég geri mér grein fyrir því að þau eru með rödd í raun og veru, en við erum ekki að hlusta. Alveg eins og við skiljum hundana okkar og ketti, þá eru svín, grísir, kindur, lömb, hestar, kýr, naut, kálfar, fiskar, hænur og önnur dýr alveg eins.“

Embla Ósk. Mynd: Hanna/DV

Hvaðan fékkstu hugmyndina?

„James Aspey hefur haft mikil áhrif á mig,“ segir Embla Ósk. James er vegan-aktívisti sem fór sjálfur í þagnarbindindi í 365 daga. Hann hjálpaði mér loksins að tengja við þjáningu dýranna og að hún væri langt frá því að vera í lagi. Því við erum öll alin upp við að finnast það „í lagi“ að drepa sum dýr á meðan við elskum önnur,“ segir Embla Ósk.

„Í raun finnst okkur það aldrei í lagi en við höfum aldrei leyft okkur að hugsa út í þjáningu þeirra og hvað þau þurfa að ganga í gegnum til að enda á disknum okkar. Okkur hefur verið kennt að við þurfum á dýrakjöti og dýraafurðum að halda til þess að viðhalda heilbrigðum líkama. Þegar staðan er þannig þá leyfir maður sér ekki að hugsa út í dýrin sem einstaklinga með tilfinningar, fjölskyldu og vini, alveg eins og við. Dýrin vilja forðast þjáningu og lifa í friði. En við höldum að þau séu hérna fyrir okkur og svo við getum nærst á þeim.“

Hvað vonarðu að þagnarbindindið muni gera?

„Ég vona að fólk muni horfa á þjáningu dýranna með alvarlegri augum. Að fólk hugsi fyrir sig sjálft og skoði gildin sín. Ég trúi því að við erum öll vegan innst inni í hjartanu. Okkur hefur bara verið kennt að gera rangan hlut í mjög langan tíma, án þess að vera meðvituð um það,“ segir Embla Ósk.

„Ef við skoðum hvað er virkilega að gerast fyrir dýrin og ástæðuna fyrir því þá getum við tekið meðvitaða ákvörðun um hvers konar manneskja við viljum vera, hvað maður vill styðja, eða ekki styðja. Við segjumst öll elska dýr og vera á móti dýraníði, en samt borgum við fyrir að láta fjöldaframleiða þau. Við notum þau sem þræla og tökum líf þeirra á endanum sem var greinilega jafn mikils virði og álegg ofan á brauð.

Ég vil hvetja alla til að spyrja þig þessara spurninga: Hvernig manneskja vil ég vera? Hvernig framtíð vil ég? Hver eru gildin mín?

Í gamla daga þurftum við á dýrum að halda til að lifa af. En ekki árið 2019. Nú höfum við endalausa valmöguleika sem valda ekki þjáningu, hjartasjúkdómum, hlýnun jarðar, loftslagsbreytingum, eyðileggingu á skógum, niðurbrot af auðlindum okkar, jarðvegseyðingu, dauðum svæðum í sjónum, vatns- og loftmengun og hungursneyð. Í heimi þar sem þú hefur endalaust af valmöguleikum, veldu samúð.“

Heldurðu að þetta muni skila sér einhverju?

„Þetta er strax farið að vekja athygli þó ég hafi bara sagt stuttlega frá þessu í Instagram Story. Ég held að fólk sé ekki alveg að skilja af hverju ég skyldi gera eitthvað svona, sem mun augljóslega vera erfitt og leiðinlegt fyrir mig. Þar af leiðandi mun fólk hugsa út í dýrin og taka þessu alvarlegar, sjá vonandi loksins að þetta er ekkert grín það sem þau þurfa að ganga í gegnum. Allir geta gert eitthvað til að hjálpa við að binda enda á þjáningu þeirra.“

Fylgstu með Emblu Ósk á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sjaldséð sjón: Goðsögn frá sjöunda áratugnum mætti á rauða dregilinn

Sjaldséð sjón: Goðsögn frá sjöunda áratugnum mætti á rauða dregilinn
Fókus
Í gær

Aðdáendur agndofa eftir að leikkonan birti mynd af sér með ketti sínum – „Þetta er ekki í lagi“

Aðdáendur agndofa eftir að leikkonan birti mynd af sér með ketti sínum – „Þetta er ekki í lagi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Klæddist svörtum litlum kjól á 76 ára afmælisdaginn

Klæddist svörtum litlum kjól á 76 ára afmælisdaginn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Arnmundur Ernst um móðurmissinn: „Það vissu allir hvað við vorum að ganga í gegnum“

Arnmundur Ernst um móðurmissinn: „Það vissu allir hvað við vorum að ganga í gegnum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Guðrún og Árni ræða um nekt og svara vinsælli spurningu: „Hvað ef ég fæ bóner?“

Guðrún og Árni ræða um nekt og svara vinsælli spurningu: „Hvað ef ég fæ bóner?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – Ber að ofan í „Sexico“

Vikan á Instagram – Ber að ofan í „Sexico“