Laugardagur 27.febrúar 2021
Fókus

Sölvi mælir með að hvíla símann – „Ef fólki er alvara með að bæta heilastarfsemi sína mæli ég með því að skoða þetta atriði fyrst“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 10. janúar 2019 20:00

Sölvi Tryggvason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason gaf nýlega út bókina Á eigin skinni – Betri heilsa og innihaldsríkara líf. Bókin fjallar um leið Sölva til heilsu á ný, þær fjölbreytilegu tilraunir sem hann gerði á eigin skinni og niðurstöðurnar sem hann komst að.
 
Eftir að heilsa Sölva hrundi fyrir áratug hefur hann fetað allar mögulegar slóðir í leit að betri heilsu og innihaldsríkara lífi. Þessi yfirgripsmikla bók, sem er bók mánaðarins hjá Eymundsson, á erindi við alla, jafnt þá sem glíma við einkenni lífsstílssjúkdóma og vilja snúa við blaðinu og hina sem nú þegar ástunda heilbrigt líferni.

Í bókinni er farið ítarlega yfir atriði eins og kuldaþerapíu af öllu tagi, hugleiðslu, öndunaræfingar, föstur, mismunandi tegundir næringar, lykilatriði í hreyfingu, fjölmargar leiðir til að bæta svefn, meginatriði þegar kemur að bætiefnum, heilastarfsemi, hugrænum þáttum, þakklæti, morgunrútínu og svo framvegis og svo framvegis. Fyrir þá sem vilja kynna sér hvert atriði enn betur eru svo tillögur að því lesefni sem hafa nýst Sölva best.

Á Facebook segir Sölvi að það „sem hingað til hefur verið fjallað um er fyrst og fremst mitt ferðalag, sem er um það bil 20% af bókinni minni. Hin 80 prósentin eru allt það sem ég hef lært um heilsu um allan heim á síðasta áratug. Þetta hefur verið mitt helsta áhugamál stærstan hluta þess tíma og eiginlega hef ég verið hálf manískur í þeirri vegferð að læra meira. Lesið og lesið, hlustað og horft á endalaust af podcöstum, viðtölum og heimildarmyndum og síðast en ekki síst prófað og prófað hluti á eigin skinni.“
Bókin mín er byggð á meira en 50 stórgóðum bókum sem ég hef lesið sundur og saman um heilsu, viðtölum sem ég hef tekið um allan heim, endalaust af kennslu frá frábæru fólki alls staðar að og margra ára prófunum á sjálfum mér. Ég hef búið tímabundið í ólíkum heimshornum til að læra af verulega færu fólki sem hefur kennt mér gríðarlega margt. Reynsla býr til þekkingu og til að geta miðlað hlutunum af einhverju viti hef ég reynt alls konar hluti á sjálfum mér. Sleppt snjallsíma í hálft ár, gengið berfættur upp fjöll, prófað allar tegundir kuldaþerapíu, ólíkar tegundir föstu, lært að anda betur í Asíu og S-Evrópu, prófað hér um bil öll bætiefni sem til eru, farið í reglulegar blóðprufur til að skoða niðurstöður og fleira og fleira.
Þar sem flestir nenna ekki að lesa mikið var markmið mitt að ná að þétta niður í eina bók gríðarlegt magn af upplýsingum, þar sem aðalatriðin eru tekin saman. Hvað gerir það fyrir mig að framkvæma hlutina og hvernig er best að byrja ef ég vil fara af stað strax á morgun?

Sölvi gaf Fókus góðfúslega leyfi til að birta einn kafla úr bókinni, þar sem Sölvi skrifar um farsímanotkun:

Ég renndi bakpokanum upp og á leiðinni út horfði ég á snjallsímann á borðinu eins og lítið barn á snuð sem því hefur verið sagt að sé ekki lengur í boði. Ég var á leiðinni í tveggja vikna göngu vorið 2017 og hafði ákveðið að láta loks verða af því að hvíla heilann á áreitum úr snjallsíma. Tilraunin kom til þar sem mér fannst heilinn í mér hreinlega vera að fúlna af margra ára stanslausu áreiti í gegnum skjái. Ég er, eins og fram hefur komið, greindur með athyglisbrest á háu stigi og þegar kemur að skjááreiti má ég mín lítils ef ég hef ekki hemil á sjálfum mér.

Nokia 3310 varð fyrir valinu, bara sms og símhringingar. Ég var einn á ferð áður en ég kynntist fólki á göngunni og það er því skemmst frá því að segja að fyrstu dagana leið mér raunverulega eins og fíkniefnaneytanda í fráhvörfum. Engin dudda til að grípa í þegar eirðarleysið kom yfir. Eftir nokkurra daga stöðugt eirðarleysi tókst mér að komast yfir erfiðasta hjallann og fór þá að finna verulega jákvæða hluti gerast. Það var eins og hluti af heilanum kæmi til baka og alls kyns minningar með. Ég byrjaði að gefa umhverfi mínu meiri gaum, tala við ókunnugt fólk og taka eftir hlutum sem er ómögulegt að sjá og finna fyrir þegar maður, „fixar“ sig með síma um leið og aðgerðarleysi gerir vart við sig.

Ég fékk hugmyndir, sköpunargleði og rými í höfðinu sem ég hafði ekki fundið í langan tíma. Hugmyndin að þessari bók varð til á áttunda degi án snjallsíma og má því á einhvern hátt segja að hún sé afraksturinn af þessari tilraun. Eftir að heim kom varð ég gamaldags gæinn sem hringdi í fólk í stað þess að senda skilaboð og kíkti í kaffi í staðinn fyrir að skrolla niður samskiptamiðla. Til að gera langa sögu stutta stóð þessi tilraun yfir í fimm mánuði, eða allt þar til ég fór í vinnuferð til Bandaríkjanna, þar sem gamli síminn virkaði ekki. Þá hófst aftur vegferð mín með snjallsímum og verkefnið við að ná jafnvægi í þessum málum stendur enn. Það sem hins vegar situr eftir er að snjallsími kemur aldrei inn í svefnherbergið og ég hvorki byrja né enda daginn í símanum. Þessir mánuðir gerðu mér endanlega ljóst hve mikilli fíkn við erum flest haldin þegar kemur að snjallsímum. Auðvitað eigum við að geta notað þessi tæki af skynsemi, en það gera það langfæstir. Bara það að takmarka notkun síma alveg síðasta klukkutímann á kvöldin og fyrsta klukkutímann á morgnana er eitthvað sem ég get ekki mælt nógsamlega með. Ástæðan fyrir því að ég byrja kaflann um heilastarfsemi á þessu atriði er að í mínum huga er þetta einstaka atriði það stærsta í þeirri viðleitni að bæta heilastarfsemi hjá flestum. Fyrir fólk sem þjáist af athyglisbresti og kvíða getur það hreinlega verið lífsbjörg að taka á þessu. Ef fólki er alvara með að bæta heilastarfsemi sína mæli ég með því að skoða þetta atriði fyrst af öllu. Bara það að byrja og enda daginn aldrei með skjánotkun er fyrsta skrefið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Þetta eru karlarnir sem þykja bestu rekkjunautarnir

Þetta eru karlarnir sem þykja bestu rekkjunautarnir
Fókus
Í gær

Lýtalæknir afhjúpar leyndarmál stjarnanna

Lýtalæknir afhjúpar leyndarmál stjarnanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Birgir Hákon stakk besta vin sinn með hníf í bakið – „Það dó eitthvað inni í mér eftir þetta kvöld“

Birgir Hákon stakk besta vin sinn með hníf í bakið – „Það dó eitthvað inni í mér eftir þetta kvöld“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir 15 ára stúlku vera næsta sigurvegara American Idol

Segir 15 ára stúlku vera næsta sigurvegara American Idol
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fyrrverandi fangi leysir frá skjóðunni – Kynlífstæki úr sápum og virðingarstigi fanganna

Fyrrverandi fangi leysir frá skjóðunni – Kynlífstæki úr sápum og virðingarstigi fanganna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífssérfræðingur segir þessar stellingar valda konum mestum vonbrigðum

Kynlífssérfræðingur segir þessar stellingar valda konum mestum vonbrigðum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Niðurlæging af verstu sort – Eiginkonan bað hann um að ljúga að kærustu elskhugans

Niðurlæging af verstu sort – Eiginkonan bað hann um að ljúga að kærustu elskhugans
Fókus
Fyrir 4 dögum

Eiður Smári og Ragnhildur setja einbýlishúsið á sölu fyrir 150 milljónir

Eiður Smári og Ragnhildur setja einbýlishúsið á sölu fyrir 150 milljónir