fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Vondir embættismenn

Eyjan
Sunnudaginn 2. maí 2021 18:00

Seðlabanki Íslands. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Betri eru góðir embættismenn en góð lög“ er gamalt orðtæki haft eftir Vísa-Gísla Magnússyni, sýslumanni Rangæinga á sautjándu öld — á þeim tíma er galdrafárið stóð sem hæst. Enginn var líflátinn fyrir galdra á Suðurlandi á sama tíma og sextán manns voru brenndir á Vestfjörðum fyrir galdur. Mildi Vísa-Gísla hefur löngum verið talin ein helsta ástæða þess að engir galdramenn voru líflátnir sunnanlands.

Hinu fornu vísdómsorð Gísla sýslumanns eru enn í fullu gildi: vondir embættismenn eru þá sem nú líklegir til að beita valdi sínu af miskunnarleysi og ósanngirni.

Ábyrgðarleysi embættismanna yrði afturför

Mér varð hugsað til þessa í ljósi umræðunnar síðustu daga þess efnis að veita þurfi embættismönnum sérstaka friðhelgi — með öðrum orðum að þeir eigi ekki að þurfa að axla ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna líkt og aðrir borgarar. Sú umræða hófst í kjölfar viðtals við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra sem birtist á Stundinni þar sem hann sagði meðal annars:

„Eitt er að fara gegn stofnuninni [Seðlabankanum], það er hægt að berja á þessari stofnun eða mér sem framkvæmdastjóra hennar. En ég er mjög ósáttur við að farið sé á eftir einstaka starfsmönnum með þessum hætti. Það má alveg berja á þessari stofnun, hún er virki, en það má ekki gera þetta svona persónulega gegn fólki.“

Í kjölfarið hafa ýmsir meiri og minni spámenn stigið fram og talað fyrir því að opinberir starfsmenn verði gerði ábyrgðarlausir í störfum sínum. Sú umræða er öll með ólíkindum enda yrði slík friðhelgi afturhvarf til eldri og myrkari tíma þegar hið opinbera átti allskostar við borgarana. Ef við setjum þessi mál í stærra og alþjóðlegra samhengi þá er nýfallinn dómur í Minnesotaríki þar sem lögregluþjónn var sakfelldur fyrir morð af yfirlögðu ráði — en til skamms tíma hefur reynst erfitt að fá lögregluþjóna vestanhafs dæmda fyrir alvarleg brot í starfi. Margir telja dóminn mikilsvert fordæmi fyrir aukin réttindi borgaranna.

Eftirlitslausir eftirlitsmenn

Eftir hrun bankakerfisins 2008 var komið á laggirnar gjaldeyriseftirliti innan Seðlabankans. Þar var ungu og metnaðargjörnu fólki með takmarkaða reynslu úr stjórnsýslu falin mikil völd í skjóli þagnarskyldu og þeim gefinn laus taumurinn. Valdbeiting þessa fólks átti fátt skylt við vandað stjórnskipulegt eftirlit. Hátt var reitt til höggs en málareksturinn allur byggður á sandi. Í ofanálag blasir við að þeir sem áttu að veita aðhald brugðust, hvort sem það voru dómararar, lögregluyfirvöld — já eða fjölmiðlar. Eftirlitsmennirnir í Seðlabankanum voru eftirlitslausir.

Seðlabankinn hóf rannsókn sína á sjávarútvegsfyrirtækinu Samherja með skipulögðu fjölmiðlafári. Ásakanir bankans lutu að því að fyrirtækið hefði stungið undan skilaskyldum gjaldeyri með því að selja fisk til erlendra dótturfélaga á undirverði. Seðlabankinn fékk heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til húsleitar og haldlagningar gagna. Af þrískiptingu ríkisvalds leiðir að dómstólar þurfa að taka sjálfstæða afstöðu til þess hvort réttmætt sé að veita stjórnvöldum heimild til þvingunarúrræða af þessu tagi. Á því var verulegur misbrestur í máli Samherja og lagt var hald á þúsundir skjala sem sýnt var að höfðu enga þýðingu fyrir rannsóknina. Það gerir málið enn alvarlega fyrir Héraðsdóm að gögn tengd máli Samherja finnast ekki í skjalasafni dómsins.

Misbeiting valds

Allt mál Seðlabankans á hendur Samherja byggðist á reikningsvillu, en bankinn gerði í útreikningum sínum engan greinarmun á litlum og stórum sendingum. Eðli máls samkvæmt voru litlar sendingar með sérvöldum fiski, jafnvel örfá kíló, seldar á mun hærra kílóverði en margra tonna sendingar af mismunandi fiski. Fleira hefur hér áhrif á, svo sem flutningsskilmálar, aldur, stærð og gæði fisks. Hinn meinti verðmunur hvarf því þegar rétt var reiknað og grundvöllur aðgerða Seðlabankans fyrir húsleitinni á hendur Samherja brostinn.

Aldrei hefur nokkur embættismaður Seðlabankans verið látinn axla ábyrgð á þeim augljósu mistökum sem gerð voru. Þvert á móti hjó bankinn ítrekað í sama knérunn og hélt til streitu kröfum gagnvart fólki og fyrirtækjum sem við blasti að enginn fótur var fyrir. Margt af því sem embættismenn Seðlabankans misgerðu gagnvart saklausu fólki verður ekki aftur tekið og tjónið aldrei að fullu bætt. Það er ekki einasta fjárhagslegt heldur þess dæmi að fólk hafi misst heilsuna vegna rangra ávirðinga Seðlabankans.

En misbeiting valds á borð við þá sem hér er nefnd á ekki einungis að vera áhyggjuefni þeirra sem verða tímabundið óvinsælir eins og íslenskir bankamenn eftir hrun eða sjávarútvegsfyrirtækið Samherji. Misbeiting valds á að vera áhyggjuefni alls almennings vegna þess að enginn veit hvenær spjótin geta beinst að þeim sjálfum.

Ef embættismenn misbeita valdi sínu þarf almenningur að eiga úrræði til að leita réttar síns og slík úrræði geta ekki horft til varnaðar nema viðkomandi embættismenn séu látnir axla ábyrgð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund