Björg Magnúsdóttir, fjölmiðlakona og rithöfundur, var sýnileg á vel heppnuðum landsfundi Viðreisnar um helgina. Fyrr á þessu ári gekk hún til liðs við flokkinn og hefur gefið undir fótinn með það að hún hafi áhuga á að bjóða sig fram fyrir Viðreisn í komandi borgarstjórnarkosningum næsta vor. Björg er landskunn fyrir störf sín á fjölmiðlum, einkum í sjónvarpi og útvarpi. Hún hefur einnig sent frá sér tvær bækur og tekið þátt í að skrifa handrit vegna sjónvarpsþátta og kvikmynda. Hún er einn af þremur höfundum hinnar vinsælu þáttaraðar um Forsætisráðherrann sem sýnd var í sjónvarpi fyrir nokkrum árum. Björg er fertug og hefur áður tekið þátt í starfi stjórnmálaflokka en hefur nú fundið sinn vettvang í Viðreisn. Hún gegndi stöðu formanns Stúdentaráðs Háskóla Íslands árið 2008 og er vön félagsmálum frá yngri árum. Björg er barnabarn Davíðs Sch. Thorsteinsson, sem var einn helsti forystumaður atvinnulífsins hér á landi á síðustu öld. Hann var m.a. forstjóri stórra fyrirtækja, formaður Samtaka iðnaðarins, stjórnarmaður í Vinnuveitendasambandinu og átti sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Orðið a götunni er að það séu vissulega mörg dæmi þess að formenn Stúdentaráðs hafi haslað sér völl í stjórnmálum hér á landi, fólk sem hefur látið til sín taka í borgarstjórn og á Alþingi fyrir ýmsa flokka. Dæmi um það eru fjölmörg, m.a.: Geir Hallgrímsson var kjörinn formaður Stúdentaráðs árið 1946 en hann varð bæði borgarstjóri og forsætisráðherra. Birgir Ísleifur Gunnarsson var kjörinn formaður árið 1957 og varð síðar borgarstjóri og menntamálaráðherra. Ellert Schram og Jón Magnússon gegndu báðir formennsku í Stúdentaráði, urðu formenn SUS og þingmenn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og reyndar einnig aðra flokka. Björn Bjarnason tók við formennsku árið 1967 og varð síðar þingmaður og ráðherra. Hann tók við sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn árið 2002 en flokkurinn galt afhroð í þeim kosningum og tapaði stórt fyrir R-listanum. Hildur Björnsdóttir varð formaður Stúdentaráðs árið 2009 og er nú leiðtogi minnihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur. Þannig gæti Björg Magnúsdóttir fyrrum formaður Stúdentaráðs fetað í fótspor margra sem reyndu fyrir sér í stjórnmálum eftir háskólann.
Margir fleiri hafa gegnt formennsku í Stúdentaráði og orðið síðar áberandi á stjórnmálasviðinu. Dæmi um það eru Össur Skarphéðinsson. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Dagur B. Eggertsson, Finnur Ingólfsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson og nú síðast María Rut Kristinsdóttir þingmaður Viðreisnar.
Orðið á götunni er að Björg Magnúsdóttir gæti orðið öflugur stjórnmálamaður og leitt lista Viðreisnar í borginni af myndarskap og náð árangri. Viðreisn hefur verið að mælast með gott og vaxandi fylgi í skoðanakönnunum um stuðning við flokka í borginni. Þannig hefur Viðreisn verið að mælast með þrjá borgarfulltrúa en hefur nú aðeins einn fulltrúa – missti einn í síðustu kosningum. Flokkurinn hefur fullan hug á að styrkja sig í borginni í komandi kosningum og þá yrði Björg heppileg til að leiða lista flokksins. Aðalsteinn Leifsson hefur einnig verið nefndur sem mögulegur frambjóðandi. Hann er fyrrverandi ríkissáttasemjari en gegnir nú stöðu aðstoðarmanns utanríkisráðherra, formanns Viðreisnar. Með Björgu í efsta sæti og Aðalstein númer tvö yrði framboðslisti Viðreisnar líklegur til að ná mjög góðum árangri.
Formennska í Stúdentaráði Háskóla Íslands hefur um áratugaskeið reynst vera ágætur mælikvarði á við hverju mætti búast af þeim sem tekið hafa að sér forystuhlutverk fyrir háskólastúdenta. Dæmin sýna það ótvírætt og Björg Magnúsdóttir gæti nú tekið skrefið fram.
Orðið á götunni er að hún geti orðið mjög áhugaverður stjórnmálamaður geri hún alvöru úr því að takast á hendur forystu fyrir Viðreisn í borginni.