fbpx
Sunnudagur 19.október 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni

Svarthöfði
Fimmtudaginn 28. ágúst 2025 15:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kom Svarthöfða ekki mikið á óvart þegar fregnir bárust af því að Sjálfstæðisflokkurinn skoðar nú að flytja höfuðstöðvar sínar úr Valhöll við Háaleitisbraut. Flokkurinn hefur skroppið mjög saman á undanförnum árum og ætli það sé ekki óhætt að segja að flokkurinn sé kominn í sömu stöðu og flestir kjósendur hans. Ævikvöldið er fram undan, ungarnir flognir úr hreiðrinu og ekkert annað að gera en að minnka verulega við sig húsakostinn, jafnvel fara í þjónustuíbúð eða sækja um á hjúkrunarheimili.

Kannski er hugmyndin sú að flytja skrifstofur flokksins í Hveragerði. Þar er stutt í heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins og svo ert formaðurinn náttúrlega úr Hveragerði og býr þar. Í góðviðrinu í gær brá Svarthöfði undir sig betri fætinum og fór austur fyrir fjall. Ekki sá hann betur betur en flaggað væri við skrifstofu flokksins í Hveragerði og vart var þverfótað fyrir Sjálfstæðismönnum í bænum. Svarthöfði sá ekki betur en að framkvæmdastjóri flokksins væri á svæðinu með bleikan Kjörís.

Svarthöfði hefur þó ekki trú á því að framtíðarhöfuðstöðvar Sjálfstæðismanna verði í Hveragerði. Ágætt getur verið að flytja sig þangað í skamman tíma, fara kannski á heilsustofnunina til að koma sér í stand, en varla verður flokkurinn þar til langframa. Svo eru Sjálfstæðismenn vitaskuld í minnihluta í bænum og varla vilja þeir hafa höfuðstöðvarnar í svoleiðis sveitarfélagi.

Svarthöfði hefur heyrt því fleygt að Norðanmenn horfi nú til þess að flokkurinn flytji sig til Akureyrar. Varla myndi varaformaður flokksins, þingmaður Samherja, setja sig upp á móti því. Þessi niðurstaða er samt ekki mjög líkleg, enda staða flokksins einstaklega bágborin á þessum slóðum. Skemmst er þess að minnast að í nýlegri skoðanakönnun kom í ljós að einungis átta prósent kjósenda á Norðurlandi styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Svarthöfði hefur þó fulla trú á því að Sjálfstæðisflokkurinn muni flytja höfuðstöðvar sínar frá Reykjavík. Það er einfaldlega of sársaukafullt fyrir flokkinn að í þessu forðum höfuðvígi hans er hann rúinn trausti og fylgi og situr áhrifalaus í minnihluta. Fátt bendir til þess að það breytist.

Svarthöfði telur Sjálfstæðismenn í raun eiga einn kost þegar kemur að vali á nýjum höfuðstöðvum. Það verður auðvitað að vera á höfuðborgarsvæðinu og þar á flokkurinn aðeins eitt vígi eftir. Það er hinn blái og bjarti Garðabær. Alls staðar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu eru allar líkur á því að flokkurinn lendi í minnihluta eftir sveitarstjórnarkosningarnar sem verða í maí á næsta ári. Garðabær klikkar ekki.

Svarthöfði áttar sig líka á því hver hin raunverulega ástæða fyrir fyrirhuguðum flutningi höfuðstöðva Sjálfstæðisflokksins er. Nú eru risnar blokkir á Valhallarreitnum og Sjálfstæðisflokkurinn græddi hálfan milljarð á því að þétta byggðina þar. Nú geta Sjálfstæðismenn rifið Valhöll og þétt byggðina enn frekar og grætt annan hálfan milljarð eða heilan. Svo geta þeir bara grillað í kvöldsólinni í Garðabæ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skortur á skilningi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skortur á skilningi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Af útlenskum lögum á Íslandi

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Af útlenskum lögum á Íslandi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Heitirðu Óttar?

Óttar Guðmundsson skrifar: Heitirðu Óttar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Þegar Play ýtti á stopp

Nína Richter skrifar: Þegar Play ýtti á stopp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Stóra lykkjumálið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?

Svarthöfði skrifar: Stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Feimnismál

Óttar Guðmundsson skrifar: Feimnismál
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Lýðræði og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Lýðræði og ESB