fbpx
Miðvikudagur 28.maí 2025
Eyjan

Sólveig Anna hellir sér yfir Guðmund Hrafn – „En hann er mjög woke – sem er voða gott“

Eyjan
Þriðjudaginn 27. maí 2025 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar hellir sér yfir Guðmund Hrafn Arngrímsson, formann Leigjendasamtakanna og fyrrum oddvita Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi, í nýrri Facebook-færslu. Guðmundur Hrafn hefur sagt sig úr flokknum eftir þá hallarbyltingu sem varð þar um liðna helgi og fór í kjölfarið í ítarlegt viðtal við Vísi þar sem hann ræddi úrsögnina. Sólveig Anna hafði sjálf áður sagt sig úr flokknum en henni virðist mjög uppsigað við Guðmund Hrafn einkum af þeirri ástæðu að hann hafði hvatt til þess að kjarasamningar Eflingar yrðu felldir.

Um þetta skrifar Sólveig Anna:

„Maðurinn sem ærðist af bræði þegar að Efling undirritaði kjarasamninga á almennum vinnumarkaði fyrir rúmu ári, þrátt fyrir að hafa sjálfur aldrei komið nálægt kjarasamningsviðræðum, hellti sér yfir mig með svívirðingum og fór svo um og hvatti fólk til að fella samningana, af fullkomnu ábyrgðarleysi, vegna þess að ég og félagar mínir í samninganefnd Eflingar tókum ekki nægilega vel við skipunum frá honum.“

Þarna er Sólveig Anna að vísa til þess meðal annars að Guðmundur Hrafn hvatti til þess á síðasta ári að launþegar myndu fella nýgerða kjarasamninga sem hann taldi koma sér illa fyrir leigjendur.

Gagnrýnir bjarnargreiða kjarasamninganna – „Mögulega er þarna á ferðinni meðvitaður stuðningur og niðurgreiðsla til eignafólks“

Persónulegt

Í viðtalinu við Vísi sem birt var nú í morgun segir Guðmundur Hrafn meðal annars um ástandið og illdeilurnar í Sósíalistaflokknum sem hann nú hefur yfirgefið:

„Sem eiga upphaf í óþoli örfárra gagnvart einum einstaklingi (Gunnari Smára Egilssyni, innsk. DV). Mér sýnist móðgunargirni og mjög tilfinningahlaðin viðbrögð við eigin framgangi, jú og ásamt persónulegum metnaði, hafa verið eldsneyti þess niðurrifs sem var mjög skipulagt og fór fram í leynd en þó miklum ákafa.“

Sólveig Anna hafði sjálf áður sagt sig úr flokknum meðal annars vegna svívirðinga í hennar garð frá öðrum flokksmönnum og einnig vegna þess að flokkurinn væri að hennar sögn of „woke“. Það litar nokkuð gagnrýni hennar á orð Guðmundar Hrafns í umræddu viðtali:

„Ásakar nú þau sem tekið hafa við völdum í Sósíalistaflokknum m.a. um „móðgunargirni og mjög tilfinningahlaðin viðbrögð“ við undibúning aðalfundar flokksins og á honum. Þarna talar hann af innsýn – ég hef reynslu af hans tilfinningahlöðnu móðgunargirni yfir því að hlutirnir færu öðruvísi en hann hafði ákveðið – ég var ekki nógu dugleg í „valdeflingu öreiganna“, ólíkt honum og vinum hans sem þekkja skortsins glímutök betur en aðrir og hvernig uppræta má þau. Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? segi ég nú bara. En hann er mjög woke – sem er voða gott, og eins og öll vita vænlegt í baráttunni fyrir frelsun þeirra arðrændu. Ég spái miklum sigrum framundan hjá honum í því heilaga verkefni; Woke til frelsis er falið, vorri fylkingu í dag, unz Internationalinn er allra kynjalag!“

Hvort þær breytingar sem hafa orðið í Sósíalistaflokknum þýði að Sólveig Anna geti hugsað sé að snúa þangað aftur á hins vegar eftir að koma í ljós.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Bólu-Hjálmar

Óttar Guðmundsson skrifar: Bólu-Hjálmar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Enn tapar Sjálfstæðisflokkurinn fylgi – boðar ekki gott fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2026

Orðið á götunni: Enn tapar Sjálfstæðisflokkurinn fylgi – boðar ekki gott fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2026