
Þótt vissulega séu það vonbrigði þarf enginn að furða sig á því að Evrópusambandið skuli nú hafa gripið til verndaraðgerða fyrir kísiljárniðnað sinn, án þess að undanskilja Ísland og Noreg, sem þó eru inni á innri markaði ESB. Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi hefur gerbreyst á nokkrum mánuðum í kjölfar seinni embættistöku Donalds Trumps í Bandaríkjunum. Á mettíma hafa Bandaríkin stofnað til allsherjar tollastríðs í heiminum sem ekki sér fyrir endann á. Það er í tollahernaði Trumps sem þessar verndaraðgerðir ESB eiga rætur sínar.
Ekki kemur það Svarthöfða á óvart að íslenskir einangrunarsinnar og aðdáendur Trumps skuli nú rjúka til og telja þessa ákvörðun ESB tilefni til þess að afleggja plön um að Ísland haldi áfram og ljúki aðildarviðræðum við ESB. Það var viðbúið. Miðflokks- og Sjálfstæðismenn grípa hvert hálmstrá sem þeir koma auga á til að reyna að koma í veg fyrir það að Ísland taki skrefið til fulls og bindist samtökum með okkar helstu vina- og nágrannaþjóðum í stærsta lýðræðisbandalagi veraldar.
Nú getur fólk greint á um það hvort ESB sé með ákvörðun sinni að brjóta EES-samninginn. Í þeim samningi er ákvæði sem heimilar aðgerðir af þessu tagi undir vissum kringumstæðum. Kaldhæðnin í því er sú að það voru Ísland og Noregur sem knúðu á um að það ákvæði væri sett inn í samninginn. ESB gaf eftir og féllst á það. Við getum því þakkað íslenskum og norskum haftapostulum þá stöðu sem við erum nú í. Það eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Guðrún Hafsteinsdóttir fortíðarinnar sem eiga heiðurinn af því.
Svarthöfði er þeirrar skoðunar að ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB um að Ísland og Noregur skuli ekki undanþegin verndartollum fyrir evrópskan kísiljárniðnað sýni einmitt í hnotskurn hversu mikilvægt það er fyrir Ísland að stíga skrefið til fulls inn í Evrópusambandið. um 70 % af okkar útflutningi fer til ríkja ESB og það er einmitt á svona stundum, þegar óvissa ríkir og viðskiptastríð milli stórvelda, að mikilvægt er fyrir smáríki að vera í liði og það í réttu liði. Það er mikilvægt að eiga sæti við borðið, eins og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir benti réttilega á í Silfrinu í gærkvöldi.
Væri Ísland ESB ríki væri íslenskt kísiljárn innan tollamúra ESB. Svarthöfði hefur sannfæringu fyrir því að ef aðildarviðræður Íslands við ESB væru hafnar að nýju hefði Ísland fengið undanþágu frá verndaraðgerðunum.
Þeir sem mest berjast gegn aðild Íslands eru ekki að berjast fyrir hagsmunum íslensks atvinnulífs og íslensks samfélags í heild. Þeir eru að berjast fyrir hagsmunum einhverra annarra. Svona fólk hefur alltaf gengið á meðal okkar. Til voru þeir sem voru á móti ritsímanum á sínum tíma. Það voru til þingmenn sem vildu ekki litasjónvarpið hingað til lands. Ekki má gleyma þeim sem voru á móti inngöngunni í NATO, í EFTA og EES. Svarthöfði hefur trú á því að þjóðin hafni afturhaldinu og einangruninni nú sem fyrr. Skynsamt fólk kallar nú eftir því að þjóðaratkvæðagreiðslunni um framhald aðildarviðræðna verði flýtt svo sem kostur er. Það er ekki eftir neinu að bíða. Hik getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska hagkerfið.