
Þar kom að því. Sjálfstæðisflokkurinn búinn að setja Valhöll á sölu og ekki seinna vænna. Þegar Valhöll var byggð fyrir hálfri öld var hún hönnuð fyrir starfsemi stjórnmálaflokks sem jafnan fékk á bilinu 35-40 prósent í kosningum á landsvísu. Nú hefur fylgið skroppið saman og er innan við helmingur af því sem var fyrir 50 árum. Vitaskuld er Valhöll allt of stór fyrir þennan magra flokk og nokkuð skynsamlegt hjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur að viðurkenna það og minnka við sig húsnæðið.
Orðið á götunni er að tímasetning sölunnar nú sé engin tilviljun. Flokkurinn er búinn að fullnýta lóðina til þéttingar byggðar. Það var í tíð Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra, sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk leyfi til að skipuleggja stórfellda þéttingu byggðar á lóðinni við Háaleitisbraut 1. Þar er nú risið gímald nokkurt, sem gárungarnir kalla gráa gímaldið til aðgreiningar frá græna gímaldinu. Þetta mun hafa skilað flokknum hálfum milljarði eða svo og merkilegt að forysta flokksins skuli ekki sýna Degi meira þakklæti en raun ber vitni.
Orðið á götunni er að athyglisvert verði að sjá hvaða tilboð berast í Valhöll. Húsið var hannað fyrir stóran stjórnmálaflokk og hentar tæplega annarri starfsemi, nema þá mögulega einhverju ráðuneyti, en nú eru bara engir Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn til að kaupa Valhöll af flokknum. Húsið er 2000 fermetrar og stór hluti þess nýtist illa. Þá er ómögulegt að byggja við húsið, sem mætti lýsa sem minnisvarða um höfundarverk arkitektsins, Halldórs H. Jónssonar. Óneitanlega er útlitið sérstakt en ekki er hægt að segja sama um notagildið. Líkast til felast mestu verðmætin í Valhöll í lóðinni sem húsið stendur á. Þar mætti þétta byggð enn frekar. Mögulega verður Valhöll þannig seld til niðurrifs.
Orðið á götunni er að Guðrún Hafsteinsdóttir sé sannur minimalisti. Hún vilji minnka allt: