
Mikið er gaman að sjá að Vilhjálmur Árnason, þingmaður stjórnarandstöðunnar, er vaknaður til lífsins eftir að upplýst var að ríkislögreglustjóri hefur hlaupið alvarlega á sig varðandi ráðningu á dýrum utanaðkomandi verktökum. Vilhjálmur hefur verið á Alþingi lengur en fólk gerir sér grein fyrir, jafnvel lengur en hann veit sjálfur. Hann hefur ekki látið mikið að sér kveða þar.
Orðið á götunni er að Vilhjálmur reyni nú að vekja á sér athygli og vilji fá að leiða lista Sjálfstæðisflokksins á Reykjanesi í stjórnarandstöðu þar í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hann er einkum þekktur fyrir að hafa lagt til á Alþingi að leyfa sölu áfengis í sjoppum, búðum og á bensínstöðvum eins og hann sá einhverju sinni í útlöndum. Sjálfur smakkar hann það ekki.
Eftir að upplýst var að ríkislögreglustjóri fór út fyrir öll mörk varðandi ráðningu á utanaðkomandi ráðgjafa til að segja fólki innan lögreglunnar hvernig það ætti að haga sér kemur Vilhjálmur fram í fjölmiðlum og segir að þetta sé nú ekkert einsdæmi. Einmitt. Segir þingmaður sem verið hefur við völd með meirihluta Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar um árabil.
Orðið á götunni er að þetta sé athyglisverð uppljóstrun því margir hafa þóst vita þetta en ekki áður fengið þetta orðrétt frá kjörnum þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Sukk og misbeiting eru því miður út um allt kerfið. Sennilega veit Vilhjálmur meira um það en hann hefur haft hátt um hingað til.
Væntanlega mun þá Vilhjálmur Árnason og aðrir í minnihlutanum á Alþingi standa með dómsmálaráðherra sem getur nú ekki gert annað en að víkja ríkislögreglustjóranum úr starfi – jafnvel þótt hún sé kona. Fróðlegt verður að fylgjast með Vilhjálmi og öðrum þegar þetta vandræðalega mál kemur á dagskrá.
Nú reynir á. Mun stjórnarandstaðan kannast við fingraför sukksins í hinu opinbera kerfi og mun skipta máli hvort hinn brotlegi embættismaður er karlkyns eða kona?