Þess er ekki langt að bíða að ríkjandi Bandaríkjaforseti jafni heimsmet starfsbróður síns í Norður Kóreu og fari golfvöll sinn í Flórída á átján höggum, eða sem nemur holu í höggi á hverri einustu braut. Það er í anda stórmennskunnar. Það er við hæfi hátignarinnar. Og það er rökrétt framhald af ofsóknarbrjálæðinu sem nú skekur norðanverða Ameríku og nær raunar langt út fyrir álfuna.
Ofríki þessa manns og valdasýki birtist í miskunnarlausri hefnigirni, nú síðast með þeim afleiðingum að Norðmenn skjálfa á beinunum af óttanum einum saman yfir því hvernig Bandaríkjaforseti muni hefna sín á þeim fyrir að fá ekki Friðarverðlaun Nóbels í ár. Því andlag þess getur svo hæglega birst í hvaða viðbrögðum sem er; viðskiptaþvingunum, tollastríði, eða pólitískri einangrun af hvaða tagi sem er, gott ef ekki slitum á stjórnmálasambandi.
Donald þessum er nefnilega trúandi til alls.
Hann er um það bil að eyðileggja þau amerísku gildi sem gert hafa Bandaríkin að því stórveldi sem aðrar þjóðir hafa horft til með aðdáun, auðsveipni og jafnvel dýrkun í einstaka tilvikum. Þau hafa verið fánaberi frelsis í mikilvægustu merkingu þess orðs. Og það er einmitt frjálslyndið innan geira atvinnulífs og vísinda – og allrar menningar og mannlífs – sem hafa knúið hagkerfið vestra með svo ríkulegum hætti síðustu hálfa aðra öldina, að ekkert annað ríki hefur safnað álíka auði og áhrifamætti í áranna rás. Og enda þótt það ríkidæmi allt saman hafi sannarlega skipst æði misjafnlega á milli þjóðfélagshópa á síðustu áratugum, svo jafnvel eina prósent landsmanna eigi meira en restin af þjóðinni, hafa gömul og ábyrg gildi haldið þjóðinni lengstum saman, en þau snúa að borgaralegum rétti og ríku frelsi til orðs og æðis.
Allt er það núna í hættu.
„John Clarke, sem vann Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði í vikunni, óttast að Bandaríkin geti glatað stöðu sinni sem forysturíki í vísindarannsóknum ef svo heldur fram sem horfir.“
Bandarísk samfélagsgerð er að eyðileggjast. Það er markvisst unnið að því að múlbinda fólk og fyrirtæki, hagsmunafélög og stofnanir – og jafnvel skemmtikraftar og söngvarar geta ekki lengur gengið að því vísu að túlka efnivið sinn eins og brjóstvitið býður þeim. Allir skuli þeir hafa verra af ef þeir svo mikið sem gera minnsta grín að valdamesta manni heims. Og efist þeir í eina sekúndu um að sá hinn sami hafi ekki farið allan völlinn á holu í höggi, skuli þeir afsettir á augabragði. En fari ekki svo, ber að loka sjónvarpsstöðinni þeirra. Til þrautavara, og það er væntanlega í farvatninu, verður að taka fyrir fjölmiðlun í landinu.
Sárast er þetta á sviði vísinda.
John Clarke, sem vann Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði í vikunni, óttast að Bandaríkin geti glatað stöðu sinni sem forysturíki í vísindarannsóknum ef svo heldur fram sem horfir. Hann er í hópi virtustu fræðimannanna vestanhafs sem benda á að það sé ekki lengur sjálfgefið að sérfræðingar sem gerst þekkja til rannsókna á sínu sviði fái opinbera styrki til fræðagrúsksins, og enn síður að þeir ráði því sem menntun þeirra og starfsreynsla bjóði þeim að gera í vinnu sinni. Bandaríkjaforseti muni framvegis ráða rannsóknum – og banna þær sem honum eru ekki að skapi. Fyrir vikið muni hægja verulega á þeim vísindum sem komin eru lengst í að leysa gátur Alzheimer og Parkinson, svo og þeim sem geta minnkað líkur á krabbameini í börnum.
Og bólusetningar? Þær eru sem kunnugt er orðnar óþarfi. Og gildir einu þótt mislingafaraldurinn fái vængi fyrir vikið, með oddhvössum eiturbroddinum. Barnadauði er orðinn skiptimynt.
Því alríkið skal öllu ráða. Einstaklingurinn engu. Enda hótar Bandaríkjaforseti að beita yfir 200 ára gömlum lögum sem heimila honum að beita hernum innanlands ef honum er ekki hlýtt.
Það er nefnilega komið að því.
Því ef þú vilt frekar banna bækur en byssur – og vitið í stað vopna – ertu að viðurkenna það fyrir sjálfum þér að þú hræðist það meira að börnin læri, en að þau deyi.