Alþingi er enn að störfum og enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um þinglok og hvenær þingmenn komast í sumarfrí. Til samanburðar má horfa á að árið 2024 var síðasti þingfundur 13. júní og þing sett að nýju 10. september.
Umræður um veiðigjöldin hafa tekið lengstan tíma á yfirstandandi þingi, umræða sem stjórnin kallar málþóf stjórnarandstöðunnar, meðan stjórnarandstaðan segir umræðuna nauðsynlegt aðhald.
Í loftið er komin ný vefsíða, Málþóf, eða malthof.is. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins vakti athygli á vefsíðunni í morgun, og svarar því til að Ungliðar Viðreisnar standi að baki síðunni.
Málþóf er þegar þingmenn tefja framgang máls með því að tala lengi og oft í pontu, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að frumvarp verði afgreitt. Nú stendur yfir málþóf á Alþingi vegna frumvarps um leiðréttingu veiðigjalda, þar sem minnihlutinn (Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn) hefur haldið uppi langri og stöðugri umræðu til að hindra samþykkt þess, segir á vefsíðunni til skýringar á orðinu Málþóf.
Í íslenskri nútímamálsorðabók segir um orðið Málþóf:
langvinnt þjark um ákveðið málefni sem engin niðurstaða fæst í.
Dæmi: málið tafðist vegna málþófs stjórnarandstöðunnar
Á vefsíðunni er síðan núverandi staða greind: fjöldi ræða um veiðigjaldafrumvarpið, klukkutímum sem farið hafa í að ræða það og kostnaður við að reka Alþingi á meðan.
Einnig eru lengstu málþóf Íslandssögunnar rakin, en umræðan um veiðigjaldafrumvarpið er önnur lengsta. Og ræðukóngar þegar kemur að veiðigjaldaumræðunni.