Á tólftu öld var Jón Loftsson Oddaverji valdamesti maður landsins. Hann naut óskoraðs álits bæði meðal samherja og óvina. Jón var fenginn til að leysa flókin deilumál annarra höfðingja þar sem enginn efaðist um vit hans og stjórnkænsku. Hann andaðist 1197 en enginn sona hans var sjálfgefinn arftaki. Oddaverjar voru næstu áratugina foringjalausir en öðrum ættum óx ásmegin. Borgarastyrjöld geisaði í landinu þar sem voldugir höfðingjar herjuðu á ríki hver annars. Hinn ókrýndi sigurvegari þessara átaka var foringi Haukdæla, Gissur Þorvaldsson sem sýndi mikla slægð og forystuhæfileika. Þeir sem töpuðu voru hinir leiðtogalausu Oddaverjar. Sterkir og vægðarlausir foringjar unnu en fagurkerar og sveimhugar eins og Sturla frændi minn Sighvatsson lutu í lægra haldi.
Mér datt þetta í hug á dögunum í foringjakrísunni sem ríkir í Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn skipti um leiðtoga eftir mikil átök en þess sjást engin merki. Nýi foringinn hefur haldið sig til hlés vegna utanlandsferða og anna í einkalífinu. Í viðtölum hefur hún lítið til málanna að leggja og sýnir ekki af sér þá röggsemi sem sagan krefst af foringjum flokksins. Nýlega var hún spurð um lélegt gengi í skoðanakönnunum og hvernig hún ætlaði að endurheimta horfið fylgi. Hún svaraði í innantómum frösum og bætti því við að lítið mark væri takandi á slíkum talnaleikjum.
Þetta minnir á síðustu orrustu Sturlu frænda míns á Örlygsstöðum 1238. Hann vaknaði kófsveittur í Miklabæ og hafði dreymt illa um nóttina. Í stað þess að vígbúast og hvetja menn sína til dáða tautaði hann niður í barm sér: „Ekki er mark takandi á draumum.“ Hann gekk til kirkju til að sinna einkaerindum. Þegar orrustan hófst var Sturlungaherinn á engan hátt tilbúinn enda féll Sturla frændi og með honum mikið mannval. Hann missti af bardaganum vegna óákveðni og ákvarðanafælni. Guðrún sjálfstæðisforingi er að detta í sama pyttinn. Hin pólitísku átök standa sem hæst en hún er enn ekki mætt til leiks.