Svandís Svavarsdóttir, sem tók við formennsku í flokki Vinstri grænna og fór með hann fram af brún fylgis í síðustu kosningum, hefur nú tekið til máls eftir langt hlé. Flokkurinn naut stuðnings 2,3 prósenta kjósenda sem merkir að VG fékk engan mann kjörinn á Alþingi og naut ekki einu sinni styrkja frá ríkinu vegna þess að ná þarf 2,5 prósenta fylgi til að ríkið borgi. Flokkurinn er því fylgislaus, valdalaus og peningalaus. Í kjölfar þessa sagði flokkurinn upp húsnæðisaðstöðu sinni enda engir sjóðir tiltækir til að greiða húsaleigu fyrir Vinstri græna.
Orðið á götunni er að það sé vægast sagt kjánalegt eða jafnvel grátlegt að Svandís stigi nú fram og segi eins og ekkert hafi í skorist: … „flokkurinn er hvergi af baki dottinn“ … Einmitt. Hve mikið þarf að detta af baki til að vera af baki dottinn? Flestir átta sig á því að hér eru á ferðinni vandræðalegur kippir sem engu munu breyta.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, sagði um helgina að hún væri ekki viss um hvort flokkur hennar byði fram eða ekki. Svandís er að bregðast við þessu. Rís upp úr hýði sínu og tilkynnir að flokkurinn sé hvergi af baki dottinn þótt hann liggi flatur í miðri reiðgötunni. Engar skoðanakannanir hafa sýnt að eftirspurn eftir VG hafi aukist eftir afhroðið í kosningunum 30. nóvember sl. Svandís er enn formaður og reynir nú að bregðast við.
Orðið á götunni er að það gætu jafnvel hafa opnast möguleikar um helgina þegar Gunnar Smári var felldur úr forystu Sósíalistaflokks Íslands á að sameina krafta hinna mjög svo vinstri sinnuðu og illa stöddu á Íslandi. VG og sá flokkur gætu átt samleið eftir að Gunnar Smári hverfur af vettvangi en þá þarf Svandís einnig að víkja.
Ekki er víst að Líf Magneudóttur líki slíkt samkrull. Ef hún stendur sig vel í samstarfi núverandi valdaflokka í Reykjavíkurborg þá gæti það gerst að hún gengi í Samfylkinguna og tæki sæti á lista þeirra að ári.
Eini sterki stjórnmálamaðurinn í Sósíalistaflokki Íslands, Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi, var ekki sátt við niðurstöðu hjaðningavíganna í flokki hennar um helgina og hefur sagt sig frá embættum innan flokksins. Hún gegnir þó áfram mikilvægum störfum sínum í Borgarstjórn Reykjavíkur þar sem hún nýtur mikilla persónulegra vinsælda. Hún er sterkur stjórnmálamaður og til alls vís.
Orðið á götunni er að hörmungar vinstri vængsins í íslenskum stjórnmálum taki seint enda. Þar rís ekkert upp úr nema persóna Sönnu Magdalenu Mörtudóttur.