Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, er komin til starfa að nýju í þinginu eftir tveggja vikna leyfi frá störfum. Fjarvera hennar vakti athygli á meðan mesta ágreiningsmál ársins var í harðri umræðu. Hún hafði sínar fjölskylduaðstæður fyrir að því að fagna útskrift með barni erlendis. Margir líta svo á að Guðrún hafi sýnt viss klókindi með því að vera fjarverandi á meðan stjórnarandstaðan afhjúpaði sig í veiðigjaldamálinu.
Orðið á götunni er að sjaldan hafi risið verið lægra á stjórnarandstöðu á Íslandi en í umræðu um veiðigjaldamálið. Haldið var uppi barnalegu málþófi og leiknir nokkrir tafaleikir, nýir og gamlir. Ekki var mikill stíll yfir þeim stjórnarandstöðuþingmönnum sem létu mest fyrir sér fara í þessari umræðu og þá er átt við Hildi Sverrisdóttur, sem skaðar Sjálfstæðisflokkinn í hvert sinn sem hún birtist opinberlega, Bergþór Ólason, best þekktur sem sá orðljótasti er hann og félagar sátu að sumbli á Klausturbar en áttu að vera inni í þingsal að afgreiða lög, og loks Sigríði Andersen, hinn brottrekna ráðherra úr vinstri stjórninni sálugu.
Þegar Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, birtist loks í þinginu lét hún til sín taka og óskaði eftir því að vandræðamálin öll frá hruntímanum yrðu nú gerð upp og vildi skipa nefnd. Mikið hefur gengið á vegna þessara mála í kjölfar uppljóstrana. Dómsmálaráðherra hefur þegar sett málið í margvíslegan farveg sem mun taka á öllu sem þarf til að leiða í ljós varðandi það sem afvega fór innan stjórnsýslunnar. Tillaga Guðrúnar gekk út á svipað en gekk ekki nærri eins langt og það sem ráðherra hefur þegar sett í réttan farveg.
Orðið á götunni er að það hafi verið býsna vandræðalegt þegar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, benti formanni Sjálfstæðisflokksins á að málið hafi verið til umfjöllunar í þinginu og væri ljóst þeim sem fylgdust með. Guðrún var fjarverandi. Núverandi dómsmálaráðherra er sá fyrsti um nokkurt skeið sem hefur mikilvæga þekkingu á málaflokknum en hún er menntaður lögfræðingur bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum og starfaði innan kerfisins áður en hún tók sæti á Alþingi og varð síðar ráðherra.
Önnur Þyrnirós vaknaði einnig í þinginu í byrjun þessarar viku. Þar er um að ræða Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrrverandi tilvonandi formann Sjálfstæðisflokksins, sem tapaði kosningunni á landsfundi í lok febrúar sl. Síðan hefur lítið farið fyrir henni. Hermt er að hún hafi haft viðveru á Alþingi að meðaltali einn dag í viku frá því hún tapaði formannskosningunni. Sé það rétt er það út af fyrir sig alvarlegt mál. En hún hefur nú tilkynnt brottför sína af Alþingi til náms í Bandaríkjunum.
En þegar hún tók loks til máls á Alþingi beindi hún fyrirspurn til forsætisráðherra um „enn frekari skattahækkanir“ og orðaði spurningu sína einnig svo smekklega … „hvaða atvinnugrein liggur næst við höggi.“
Annað hvort hefur Áslaug Arna ekki verið að fylgjast með frá því að hún tapaði formannskosningunni í lok febrúar sl. eða þá reynir hún að halda fram fölskum áróðri um árásir á atvinnulífið. Vitanlega er hún fóðruð vel frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem tala um frádráttarbæra kostnaðarhækkun sem skatt, sem er fráleitt. Áslaug Arna ætti að vita betur. Ef ekki ætti það að vera henni alvarlegt áhyggjuefni.
Orðið á götunni er að svanasöngur Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í stjórnmálum á Íslandi sé nú hafinn en hún hyggur senn á flutning til Bandaríkjanna.
Þegar stjórnmálamaður rennur af hólmi er ólíklegt að hann eigi afturkvæmt.