Árið 2027 verður sögulegt á Íslandi en þá verður í síðasta lagi haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um fulla aðild landsins okkar að Evrópusambandinu.
Margt bendir til að kosningabaráttan verði hörð og að mikið verði fjallað um kosti og galla ESB aðildar Íslands fram að kosningunum.
Á síðustu mánuðum hafa komið fram ný sjónarmið og aðstæður sem styðja við aðild Íslands að ESB.
Skoðum þetta nánar.
Ríkisstjórn Trumps hefur þjappað Evrópuþjóðum saman og þétt raðir þeirra.
Hernaðarlegt mikilvægi Íslands hefur aukist og má því gera ráð fyrir að samningsstaða okkar þegar kemur að aðildarviðræðum hafi styrkst verulega. Fyrir ESB er líklega mikilvægt að hafa útvörð í vestri og eyju í miðju Atlantshafi sem virkar eins og risastórt flugmóðurskip.
Nú eru 80 ár síðan samið var um frið í Evrópu. Síðan þá hefur ríkt almenn sátt á Vesturlöndum um skipulag varnarmála þar sem NATO og ESB hafa skipað stærstan sess.
Bandaríkin hafa nú hætt að styðja við þau gildi sem samstarfið hefur hvílt á. Evrópa mun taka við þeim kyndli.
Ísland á í dag mun meiri samleið með Evrópuþjóðum í varnarmálum og gæti þurft að endurskoða varnarsamninginn við Bandaríkin með hliðsjón af þessum breytingum.
Nýleg könnun Eurobarometer meðal íbúa ESB landa sýnir stóraukinn stuðning við Evrópusambandið.
Um 74% telja nú land sitt hafa mikinn hag af samstarfinu og um 89% telja að Evrópusamvinnan auki öryggi í álfunni. Um 79% íbúa evru landanna eru ánægð með gjaldmiðilinn.
Hagvöxtur á evrusvæðinu er á uppleið, atvinnuleysi fer minnkandi og verðbólgan er á niðurleið.
Nýlega var samþykkt að ESB ríkin myndu verja um 800 milljörðum evra í aukin hernaðarútgjöld á næstu fjórum árum.
ESB leggur nú meiri áherslu á að draga úr ásókn hælisleitenda og herða landamæraeftirlit.
Aukin áhersla verður á nýsköpun og frumkvöðlastarf í löndum ESB. Reglugerðum verður fækkað og skriffinnska mun minnka ef hugmyndir ráðamanna í ESB löndum verða að veruleika.
Vísinda- og fræðimenn flykkjast nú til Evrópu eftir að Trump stjórnin sagði háskólasamfélaginu stríð á hendur. Nýlega ákvað ESB að verja um 600 milljónum evra til að laða bandarískt rannsóknar- og vísindafólk til álfunnar.
Ofurtollastefna Trump stjórnarinnar hefur einangrað Bandaríkin og hefur þegar leitt til samdráttar í þjóðarframleiðslu landsins og veikingar dollars. Trump hefur ómeðvitað aukið samstöðu Evrópuríkja sem hafa fullveldi, lýðræði, mannréttindi og frjáls viðskipti að leiðarljósi.
ESB hefur brugðist við þessu með því að auka samstarf við Kína á mörgum sviðum. Nýlega var tilkynnt um áform um fríverslunarsamstarf við Kyrrahafslöndin í CPTPP bandalaginu en þau standa að baki um 14% af heimsframleiðslunni. Þannig er ESB að eflast á kostnað Bandaríkjanna.
Við Íslendingar erum Evrópuþjóð sem deilir lífsgildum og velferðaráherslum með Evrópuþjóðum en síður með Bandaríkjunum sem hafa hallað sér í auknum mæli að öfgahægri stjórnum í heiminum.
Í rúman áratug höfum við heyrt þessari fullyrðingu kastað fram: „Hagsmunum Íslands er best borgið utan ESB.“ Þrátt fyrir ítarlega leit á netinu finnast engar skýrslur, greiningar eða kannanir sem rökstyðja þetta.
Allir núverandi flokkar í stjórnarandstöðu fullyrða að Ísland muni tapa bæði auðlindum sínum og fullveldi við inngöngu í ESB. Ekkert af þessu er rétt enda hefur ESB aldrei haft áhuga á auðlindum aðildarlandanna 27 sem eru öll fullvalda ríki. Það mun einnig eiga við okkur Íslendinga.
Eina undantekningin er sérrit Seðlabankans frá árinu 2012 sem heitir „Valkostir Íslands í gjaldmiðilsmálum.“ Þar kemur fram að rannsóknir á áhrifum aðildar að evrusvæðinu á́ utanríkisviðskipti benda til þess að umfang utanríkisviðskipta gæti aukist um 8-23%.
Helstu kostir fullrar aðildar eru lægri vextir og stöðugleiki með upptöku evru, tollfrelsi og aukin tækifæri til samstarfs við Evrópuþjóðir
Það liggur beint fyrir að spyrja gervigreindina um kosti aðildar Íslands að ESB en þar segir meðal annars að „með upptöku evru væri gengi íslensku krónunnar fastsett innan sameiginlegs kerfis, sem leiðir til minni sveiflna. Rannsóknir, þar á meðal frá OECD og Seðlabanka Evrópu, benda til þess að evran gæti stuðlað að stöðugleika og aukinni samkeppnishæfni á markaði.“
Gervigreindin fullyrðir að „aðild að ESB myndi þýða að Ísland yrði hluti af sameiginlegri peningamálastefnu. Þetta getur hjálpað til við að samræma hagstjórn og fjárfestingaráætlanir á alþjóðlegum vettvangi, sem gerir landið stöðugra og aðlögunarhæfara í kjölfar efnahagsáfalla.“
Það er eðlilegt að einstaklinga greini á um kosti þess og galla fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.
Við höfum nú um tvö ár til að ræða málið. Mikilvægt er að umræða og greiningar fari í gang sem fyrst.
Ég hvet þig lesandi góður að kynna þér þetta mál og undirbúa þig vel fyrir kosningarnar.
Við þurfum á næstu árum að styrkja stöðu okkar innan Evrópu. Það gerum við best með fullri aðild að ESB.