Stóra spurningin varðandi bandarísku forsetakosningarnar kann að snúa að því hvað gerist eftir kosningarnar, ef Kamalla Harris vinnur nauman sigur. Síðast endaði það með innrás stuðningsmanna Trump inn í bandaríska þinghúsið. Hvað gerist nú? Á nokkrum vikum hefur kosningabaráttan snúist úr því að Trump virtist öruggur með kjör í það að vindurinn blæs í segl Kamalla Harris. Eiríkur Bergmann er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
„Maður sér líka hvað staðan breytist ótrúlega hratt. ef ég hefði setið hérna dagana eftir að Trump var skotinn í eyrað og flokksþing repúblikana var haldið, þá hefði maður nú eiginlega getað slegið því föstu að hann væri búinn að sigra í kosningunum og það þyrfti ekkert að fylgjast meira með því,“ segir Eiríkur.
„Svo breytist það bara jafnharðan og þeir skipta um hest í miðri á og og staðan er gjörbreytt og þessir atburðir hjá Donald Trump eru eins og í einhverri langri fortíð, allt önnur staða uppi, sem sýnir okkur það, þú varst að telja hvað, níu vikur, guð má vita hvað verður uppi þá. En eins og staðan er núna þá er vindurinn í seglum Kamalla Harris og ef ég ætti að setja sparifé barnanna minna á þessar kosningar þá myndi ég svona hallast að því að veðja á hana.“
Eiríkur segir óvissuna vera mikla. „Mér finnst nú samt aðeins vindurinn úr Trump.“
Það er eins og hann höndli ekki mjög vel þetta mótlæti sem hann er að mæta.
„Nei. Síðan er kannski bara stóra spurningin hvað gerist í kjölfarið. Ef Kamalla Harris rétt mer þetta með litlum mun þá fer það nú kannski eftir viðbrögðum karlsins. Hann er nú ekki þekktur fyrir að bera klæði á vopnin. Þegar hann tapaði seinast þá voru nú afleiðingar, það endaði með innrásinni inn í þinghúsið.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.