fbpx
Sunnudagur 08.september 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Allir eru ómissandi

Eyjan
Föstudaginn 23. ágúst 2024 14:30

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á morgunröltinu í gær með fram sjónum á Granda kom ég auga á að einhver hafði rekið niður alllanga spýtu í grjótgarðinn og bundið utan um hana skyrtu og því var þetta í fjarska eins og einskonar flagg sem blakti í rokinu. Óþægindatilfinningu setti að mér, hafði einhver farið þarna í sjóinn en vildi engu að síður láta vita af sér? Ég lét lögregluna vita enda hefur það gerst að fólk láti sig hverfa í hafið svo lítið beri á.

Ekkert er augljóst og vonandi var þungur hugurinn bara að hlaupa með mig í gönur. Kannski fann einhver þessa skyrtu á víðavangi og vildi einfaldlega setja hana á áberandi stað svo hún mætti finnast eða nýtast einhverjum?

Þegar maður upplifir einsemd eða aðskilnað frá öðrum þá verður heimurinn manni á einhvern hátt óvinveittur án þess þó að vera það í raun, nema hið innra. Oft verður sársaukinn til vegna þess að maður upplifir sig á einhvern hátt utan vega, að maður sé öðruvísi en aðrir og kannski eins og að heimurinn rúmi mann einhvern veginn ekki. Að persónulega glíman sé svo einstök og óskiljanleg að hana fái enginn skilið. Þannig leið mér þennan morguninn en skyrtuflaggsfundurinn lagaði mig snögglega. Allir hafa sitt að bera og í því er fólgin huggun ef maður hugsar um allar herðarnar sem baggana hafa borið.

Hver hefur sinn djöful að draga og gott að vera þess minnugur í samskiptum við aðra. Hinn sammannlegi sársauki er nefnilega inneign en ekki tap og ætti ef við lærum að líta svo á að geta skapað betri skilning fólks á milli.

Öll viljum við vera velkomin í félagi við annað fólk og það er auðvelt að festast í „ég og aðrir“ tilveru. Enn auðveldara að festast í „við og aðrir“ tilveru. Nóg er af slíku óheilbrigðu hópastarfi.

Slíkt aðskilnaðar hópastarf stjórnast af ótta við einhverskonar missi eða tap og kannski er þarna líka einhver ímynduð þörf eða krafa um eitthvað sem okkur finnst „við“ eiga heimtingu á umfram „aðra.“

Þegar við greinum „aðra“ frá okkur sjálfum eða þeim hópi sem við höldum okkur tilheyra þá verður auðveldara að aftengja sig því sem sammannlegt er. Sem er, held ég, afskaplega einfalt og augljóst; að vilja búa saman í kærleiksríku samfélagi, sem dregur ekki fólk í dilka og mismunar ekki fólki vegna stöðu, trúar, útlits eða hvað það nú er sem við tínum til að greina okkur frá öðrum og gerir ekkert annað en að skapa aðgreiningu fólks á milli.

Þegar „við“ lítum á „aðra“ sem einhverskonar framandi stærð eykst aftengingin svo mjög að ekki líður á löngu að okkur finnst „aðrir“ ekki eigi að njóta sömu réttinda og „við“. Og þá er steinsnar í að sjálfsagt sé að „aðrir“ líði svo „við“ getum notið eins eða annars.

Tilverurétturinn er öllu kviku ætlaður. Það vill gleymast og hugmyndin um yfirburði er tilbúningur þeirra sem krefjast þeirra.

Samfélag þar sem fólki finnst það tilheyra verður ekki til nema með sameiginlegum vilja og með því að muna að þarfir fólks eru í grunninn líkar og fábrotnar í eðli sínu. Aðeins með því að muna að grunnþarfirnar eru þær sömu fólks á milli og að þær ættu að vera forgangsatriði getum við skapað kærleiksríkara samfélag. En það krefst þess að hugsa um sig sem hluta af heildinni og finna í því styrkinn og huggunina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Full í vinnunni

Óttar Guðmundsson skrifar: Full í vinnunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjartað mitt

Óttar Guðmundsson skrifar: Hjartað mitt
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Vanþekking á sveppum varð þeim að aldurtila

Steinunn Ólína skrifar: Vanþekking á sveppum varð þeim að aldurtila
EyjanFastir pennar
03.08.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið

Sigmundur Ernir skrifar: Alþýðlegi forsetinn kveður embættið
EyjanFastir pennar
03.08.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Æstir lýsendur

Óttar Guðmundsson skrifar: Æstir lýsendur
EyjanFastir pennar
27.07.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Það er tímabært að meirihlutinn ráði

Sigmundur Ernir skrifar: Það er tímabært að meirihlutinn ráði
EyjanFastir pennar
27.07.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Rafmagnsbíll, nei takk

Óttar Guðmundsson skrifar: Rafmagnsbíll, nei takk