fbpx
Sunnudagur 08.desember 2024
Eyjan

Víðir féll í gildru Stefáns Einars í Spursmálum – Svarar nú áróðrinum fullum hálsi

Eyjan
Sunnudaginn 10. nóvember 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Víðir Reynisson segist hafa fallið í gildru þegar hann var í viðtali í þættinum Spursmál hjá mbl.is á dögunum. Hann vill taka af öll tvímæli um að Samfylking ætli sér ekki að skattpína harðduglegt fólk sem vinnur í iðngreinum á borð við pípulagnir, hárgreiðslu og húsasmíðar í gegnum einkafélög, heldur standi til að hækka álögur á einstaklinga með 1,3 milljónir í mánaðarlaun.

Meðal stefnumála Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar er að loka svokölluðu ehf-gati. Þar með sé betur hægt að tryggja að launatekjur séu skattlagðar með sambærilegum hætti hvort sem þær eru teknar út sem arður eða laun.

Þetta kosningaloforð vakti hörð viðbrögð hjá fjölmiðlum sem teljast hafa hægri slagsíðu. Í leiðara Viðskiptablaðsins þann 5. nóvember var Samfylkingin sögð beita sér gegn einyrkjum og litlum fyrirtækjum. Morgunblaðið tók undir með Viðskiptablaðinu í Staksteinum tveimur dögum síðar.

Formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokks, Kristinn Karl Brynjarsson, ritaði grein í gær þar sem hann sagði Samfylkinguna „hafa öfundast út í velgengni annarra en þeirra sjálfra og haft öll sín horn í síðu einkaframtaksins. Fyrir velgengni skuli ætíð refsað með hærri og nýjum sköttum!“

Morgunblaðið sló því upp í fyrirsögn þann 7. nóvember, eftir viðtals Stefáns Einars Stefánssonar í Spursmálum við Víði Reynisson, að Samfylkingin ætli að skattleggja hárgreiðslufólk, smiði og pípara.

Þessar greinar eiga það sameiginlegt að skapa hugrenningartengsl milli iðnmenntaðra sem nýta sér einkahlutafélagaformið, að Samfylkingin ætli að auka tekjuöflun ríkisins á þeirra kostnað.

Bjarni sjálfur viðurkennt hvata til sniðgöngu

Þetta er þó ekki í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 2021 þar sem því var lofað að endurskoða skattmatsreglur til að koma í veg fyrir „óeðilega og óheilbrigða hvata til stofnunar einkahlutafélaga“ eða grein hagfræðinga hjá ASÍ sem bentu á að skattasniðganga í formi tekjutilflutnings, sem feli í sér að fólk skrái launatekjur sínar ranglega sem fjármagnstekjur, komi í veg fyrir að þeir greiði útsvar og heildarskattprósenta þeirra verði fyrir vikið miklu lægri. Þetta ætti sér aðallega stað meðal atvinnurekenda með háar tekjur sem taki þær í gegnum einkahlutafélög, en Kjarninn fjallaði um málið árið 2022.

Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra,  sagði í svari við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhanssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um málið að munur á tekjuskatti annars vegar og samanlögðum skattgreiðslum vegna arðs og hagnaðar hins vegar gætu falið í sér hvata til að stofna félag utan um atvinnurekstur svo hagnaður skattleggist í lægra hlutfalli en efasta þrepi tekjuskatts.

„Þessu til við­­­­bótar er hætta á að því að lög­­­­að­ilar og þeir sem stunda sjálf­­­­stæðan atvinn­u­­­­rekstur gjald­­­­færi útgjöld á rekstur sem rétt væri að þeir beri per­­­­són­u­­­­lega af launa­­­­tekjum sín­­­­um. Í því felst ígildi hlunn­inda eða tekna sem hvorki er greiddur tekju­skattur af í rík­­­­is­­­­sjóð né launa­tengd gjöld. Einnig að virð­is­auka­skattur af einka­­­­kostn­aði sé tal­inn fram sem inn­­­­skattur þannig að skil á virð­is­auka­skatti í rík­­­­is­­­­sjóð verði lægri sem því nem­­­­ur.“

Fór ekki í pólitík til að hækka skatta á pípara

Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, segir í grein í dag að lokun á ehf-gatinu snúist um tekjur umfram 1,3 milljónir á mánuði. Að slíkar tekjur beri sama skatt hvort sem þær eru arður eða laun. Þar með hafi þessi lokun engin áhrif á fólk sem er með mánaðartekjur undir þessum mörkum: „Lokun ehf-gatsins snýst um að tekjur einstaklinga umfram 1,3 milljónir á mánuði beri sama skatt – hvort sem þær eru teknar út sem arður eða laun“

„Ég er húsasmiður að mennt og starfaði sem smiður í 10 ár áður en ég byrjaði að vinna við almannavarnir. Og ég get lofað ykkur því að ég fór ekki í pólitík til að hækka skatta á smiði, hárgreiðslufólk og pípara. Bara alls ekki. Enda hefur Samfylkingin engin áform um sérstakar skattahækkanir á þessar stéttir frekar en aðrar.

En ég gekk beint í gildruna hjá Stefáni Einari í Spursmálum vikunni. Það mátti skilja mig sem svo að ég væri sammála fullyrðingu hans um að Samfylking ætlaði að hækka skatta á smiði, hárgreiðslufólk og pípara. Og Morgunblaðið sló því síðan upp í fyrirsögn. Ég var ekki nægjanlega skýr en leiðrétti það hér með.“

Víðir minnir á að ehf-gatið sé skattaglufa sem þýðir að einstaklingar í rekstri, með yfir 1,3 milljónir í mánaðatekjur, geti komist upp með að greiða lægri skatta en launamaður á sömu tekjum.

„Ástæðan er sú að af launum umfram 1,3 milljónir á mánuði þarf að greiða tekjuskatt í efsta þrepi og auðvitað tryggingagjald, sem er samanlagt yfir 52%. Skattur á arð er hins vegar 37,6% þegar búið er að taka tillit til tekjuskatts fyrirtækja og fjármagnstekjuskatts. Þar munar nokkuð miklu.

En eins og áður segir þá hefur ehf-gatið engin áhrif hjá fólki sem er með minna en 1,3 milljónir króna í mánaðartekjur. Það hefur hverfandi áhrif upp að 2 milljónum á mánuði – en talsverð áhrif fyrir fólk sem er með fleiri milljónir á mánuði í tekjur. Þar myndast þessi skattaglufa sem við í Samfylkingunni viljum skrúfa fyrir.“

Víðir minnir enn og aftur á að Samfylkingin ætli ekki að hækka skatta á vinnandi fólk eða á kostnað heimila. Sjálfstæðisflokkur hafi gert nóg af því.

„Langstærsta vandamál minni fyrirtækja og einyrkja er óstöðugleikinn sem ríkisstjórnin hefur leitt yfir landið: Þessir alltof háu vextir, verðbólga, húsnæðisverð, stefnuleys og skortur á fyrirsjáanleika er það sem er að gera út af við fyrirtækin í landinu núna.

Samfylkingin ætlar að laga þetta. Við ætlum að hrista upp í kerfinu og laga Ísland þannig að það fari að virka aftur fyrir venjulegt fólk, og þar með talið smiði, hárgreiðslufólk og pípara – fáum við til þess traust í kosningunum þann 30. nóvember.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi

Hvað fór fram á fundi Trudeau og Trump? – Tvær ólíkar útgáfur á sveimi
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn

Gunnar Smári ósáttur við 5% þröskuldinn – Sósíalistar hefðu annars fengið inn tvo þingmenn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Ég tók það ráð að bregðast við með brosi og hafa bakið beint, sama á hverju hefur gengið“

„Ég tók það ráð að bregðast við með brosi og hafa bakið beint, sama á hverju hefur gengið“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna