fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Eyjan

Umsækjandi um varaseðlabankastjórastöðu fékk tugmilljóna félag frá lögmanni sem rukkar bankann um hundruð milljóna

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 12. maí 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athygli vekur að einn umsækjenda um varaseðlabankastjórastöðu, sem losnaði er Gunnar Jakobsson baðst lausnar, er Haukur Camillus Benediktsson. Haukur er nú framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum.

Áður var Haukur framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) sem hafði umsjón með og seldi eignir sem fallið höfðu í fang bankans eftir efnahagshrunið. Helsti samstarfsmaður hans þar var Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður, sem seldi ESÍ og Seðlabankanum þjónustu sína fyrir tugi eða hundruð milljóna (erfitt hefur verið að fá yfirlit um umfang starfa hans frá Seðlabankanum) á nokkurra ára tímabili.

Haukur tók einnig sæti í stjórn Lindarhvols ehf., sem Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, stofnaði til að halda utan um og selja eignir upp á hundruð milljarða sem ríkið fékk sem stöðugleikaframlög frá kröfuhöfum föllnu bankanna 2016.

Steinar Þór Guðgeirsson var einnig ráðinn til framkvæmdastjórnar í Lindarhvoli, enda virðist hann eiga hauka í horni bæði í Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu. Fyrir störf sín á vegum Lindarhvols hefur hann fengið hundruð milljóna og er enn að vegna þess að þótt starfsemi Lindarhvols hafi verið hætt fyrir nokkrum árum eru enn í gangi dómsmál vegna meintrar spillingar við ráðstöfun eigna félagsins.

Athygli hefur vakið að fjármálaráðuneytið/Lindarhvoll virðist hafa greitt reikninga frá Steinari Þór upp á hundruð milljóna án þess að nokkrar tímaskýrslur liggi þar að baki og það þrátt fyrir að í samningnum við Steinar komi skýrt fram að tímaskýrslur skuli fylgja reikningum. Ríkisendurskoðun hefur látið þetta óátalið.

Árið 2019 fluttist einkahlutafélagið Grjótatún, sem var í eigu Íslaga, lögmannsstofu Steinars Þórs Guðgeirssonar, yfir á nafn Hauks Camillusar Benediktssonar. Í ársreikningum Íslaga kemur fram að félagið hvarf úr bókum þess en ekki er að sjá að nein greiðsla hafi komið fyrir. Er það athyglisvert þar sem Grjótatún ehf. átti í reiðufé ríflega 20 milljónir króna í árslok 2019, en flutningurinn yfir á nafn Hauks er skráður mánuði fyrr.

Eyjan hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum frá Seðlabankanum um það hvort bankanum þyki eðlilegt að stjórnandi á vegum hans eigi viðskipti af þessu tagi við aðila sem á í umfangsmiklum viðskiptum og samstarfi við bankann í gegnum þann sama stjórnanda. Engin svör hafa borist þrátt fyrir eftirfylgni.

Eftirtektarvert er að þrátt fyrir að eignarhald Grjótatúns (sem í dag heitir Hraunból) hafi flust frá Steinar Þór Guðgeirssyni yfir á Hauk Camillus Benediktsson árið 2019 er Steinar Þór skráður eini stjórnarmaður félagsins enn þann dag í dag.

Eftir stendur að samkvæmt þeim opinberu gögnum sem fyrir liggja verður ekki betur séð en að framkvæmdastjóri hjá Seðlabankanum hafi þegið að gjöf eign að verðmæti ríflega 20 milljónir króna frá lögmanni úti í bæ sem hefur sent bankanum og fjármálaráðuneytinu reikninga upp á mörg hundruð milljónir á liðnum árum. Seðlabankinn hefur í engu svarað fyrirspurnum um eðli þessa gjörnings og afstöðu bankans gagnvart honum.

Mikil leyndarhyggja hefur sveipað ESÍ og Lindarhvol og samkvæmt greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols, virðist liggja þar fiskur undir steini. Sigurður, sem sagði í vitnisburði sínum í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli, sem sneri að sölu Lindarhvols á Klakka til stjórnenda þess félags,  að Steinar Þór Guðgeirsson hefði verið allt í öllu hjá Lindarhvoli, kemur fram að Klakki hafi verið seldur á hálfvirði og að gróflega hafi verið brotið gegn því að allir bjóðendur í félagið sætu við sama borð.

Ekki er það einungis hjá fjármálaráðuneytinu og Lindarhvoli sem erfitt hefur verið að toga út upplýsingar um mál. Sama gildir um Seðlabanka Íslands. Mikið af eignum  fór í gegnum ESÍ og Hildu ehf., og síðar F-fasteignafélag. Þessu félögum hefur verið slitið einu af öðru og í aðalhlutverki er ávallt Steinar Þór Guðgeirsson, sá hinn sami og afhenti Hauki Camillusi Benediktssyni 20 milljóna félag án endurgjalds. Athygli vekur að Haukur virðist ávallt nálægur þar sem Steinar Þór liggur á jötu skattgreiðenda, hvort sem um ræðir ESÍ, Hildu, F-fasteignafélag eða Lindarhvol.

Nú er Haukur Camillus umsækjandi um varaseðlabankastjórastöðu og Seðlabankinn svarar engu um það hvort eðlilegt sé að lögmaður sem rukkar bankann um hundruð milljóna færi tengilið sínum hjá bankanum milljóna einkahlutafélag að gjöf né heldur fást neinar aðrar skýringar á þessari að því er virðist endurgjaldslausu yfirfærslu verðmæts einkahlutafélags frá lögmanninum til framkvæmdastjórans og umsækjandans um varaseðlabankastjórastöðu. Forsætisráðherra skipar í embættið að fenginni tillögu fjármála- og efnahagsmálaráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins

Egill rýnir í kosningaúrslitin – Afhroð vinstrisins og stórtap Sjálfstæðisflokksins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu

Hannes segir kosningarnar vera mikinn ósigur vinstri aflanna en líst vel á að Sjálfstæðisflokkurinn verði í stjórnarandstöðu