Jafnaðarmaðurinn Schröder gegndi embætti kanslara í sjö ár í samsteypustjórn en lét af embætti 2005. Eftir það hefur hann haldið góðum tengslum við rússneska ráðamenn og hefur verið „lobbíisti“ fyrir rússneska gasiðnaðinn og situr í stjórnum rússneskra orkufyrirtækja.
Hann lét af stjórnarsetu hjá rússneska orkufyrirtækinu Rosneft í maí 2022 en áður hafði Evrópuþingið hótað að setja hann á svartan lista ef hann segði ekki skilið við fyrirtækið.
Síðar þetta sama ár svipti knattspyrnufélagið Borussia Dortmund hann heiðursfélagstitlinum vegna tengsla hans við Rússland.
Og enn er hann úti í kuldanum því þegar þýskir jafnaðarmenn fögnuðu 160 ára afmæli flokksins í maí á síðasta ári, var Schröder ekki boðið.
Hann á nú í útistöðum við ríkið um réttindi hans sem „Altkansler“ (gamall kanslari). Í Þýskalandi er hefð að fyrrum kanslarar fái skrifstofu í Berlín til afnota en eftir innrás Rússa í Úkraínu lokaði fjármálanefnd þingsins fyrir fjárframlög til skrifstofurekstrar Schröder.
Hann hefur kvartað yfir þessu en án árangurs.
Hann hefur því leitað til dómstóla í von um að fá skrifstofuna sína aftur. Málið verður tekið fyrir í byrjun júní.