Áfrýjunarréttur lækkaði upphæðina niður í 175 milljónir dollara í síðustu viku og veitti Trump tíu daga frest til að greiða upphæðina en hann átti í erfiðleikum með að verða sér úti um fé til að greiða hana og engin fyrirtæki vildu gangast í ábyrgð fyrir tryggingunni. En í gær tókst honum að losa sig úr þessum vanda, í bili að minnsta kosti.
Ef hann hefði ekki greitt trygginguna hefði saksóknari í New York getað lagt hald á eignir hans. En nú sleppur Trump við þá niðurlægingu, að sinni að minnsta kosti. Hann mun áfrýja niðurstöðu dómstólsins á Manhattan en til að geta áfrýjað henni varð hann að reiða trygginguna fram.
Fréttin um greiðslu tryggingarinnar kemur á afgerandi tímapunkti fyrir Trump. Í gær lækkaði verð hlutabréfa í samfélagsmiðlafyrirtæki hans, Trump Media & Technology Group, um rúmlega 20% en fyrirtækið var skráð á markað í síðustu viku. Í heildina lækkaði markaðsverðmæti fyrirtækisins um 2 milljarða dollara. Verðmæti meirihlutaeignar Trump í fyrirtækinu lækkaði niður í 3,7 milljarða dollara en var rúmlega 6 milljarðar dollara í síðustu viku.
Ástæðan fyrir lækkuninni er nýbirt skjal frá endurskoðunarfyrirtækinu BF Borgers CPA PC. Í því varar fyrirtækið við því að Trump Media & Technology Group, sem rekur samfélagsmiðilinn Truth Social, sé rekið með umtalsverðu rekstrartapi sem geri að verkum að „efast megi um rekstrarhæfi þess“.