fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Af smygli og avókadó með fyrirætlanir

Eyjan
Föstudaginn 12. janúar 2024 12:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Góðir hálsar! Þetta er nú skemmtilegt ávarp ekki satt? En það er örugglega ráð að byrja í léttum dúr þegar maður játar á sig hugsanlega vafasama hegðun.

Í heimsókn minni á Suður-Suður-Íslandi, þeirri ágætu eyju Tenerife, um jólin gerðist ég djörf og nældi mér í afleggjara hér og hvar, þar sem ég rölti um hæðir á víðavangi að morgunlagi meðan ungar sváfu.

Ég gætti þess að ganga ekki um eins og náttúrudólgur og klípa aðeins af litlar greinar og horn af þykkblöðungum sem voru þannig vaxnir að ekki yrði sjónarsviptir af. Græðlingunum stak ég síðan í tannburstaglasið á hótelherberginu svo þeir gætu rótað sig, og lagði þykkblöðungshornin í blautan eldhúspappír. Safnið var orðið töluvert í lok ferðarinnar svo nú voru góð ráð dýr.

Kona nokkur sagði mér þegar ég var stelpa og hafði, foreldrum mínum til nokkurs óyndis, fyllt allar gluggakistur af afleggjurum sem ég hafði sníkt hjá nágrannakonum að maður ætti hikstalaust að stela afleggjurum því þá yxu þeir miklu betur! Tvímælalaust heldur vanhugsuð og vafasöm ráð til barns og ófyrirséð hvernig farið hefði fyrir mér hefði ég til dæmis yfirfært hollráðin yfir á … ja, ég veit hreinlega ekki hvað hefði orðið um mig!

Seinna, miklu síðar, í annarri heimsálfu gaf önnur kona mér hollráð af sama meiði en þá fylgdi með skýring sem mér finnst réttlæta athæfið, en hún var sú að enginn ætti plöntur jarðar, þær ættu sig sjálfar og enginn gæti slegið eign sinni á þær, þær væru hér á jörðinni til að vera meðal annars mannkyninu til næringar, heilsubótar og yndisauka.

Við vitum reyndar að allt annað er uppi á teningum í þessum græðgisstýrða heimi og stórfyrirtæki ónefnd hafa slegið eign sinni á ýmsar næringarríkar plöntur til að geta selt mannkyninu það sem allir ættu að eiga frjálsan aðgang að og þar með haft réttinn af fólki til að rækta ýmsar plöntur sér til viðurværis.

Síðan ég fékk þessa skýringu frá þessari ágætu konu hef ég aldrei efast um rétt minn til að taka mér afleggjara á víðavangi og finnist einhverjum hegðun mín saknæm er ég tilbúin að standa á rétti mínum og annarra til að annast og auka útbreiðslu plantna og þola fyrir það hýðingar og langa betrunarvist.

Að kvöldi dags fyrir brottfarardag velti ég töluvert fyrir mér hvernig best væri að standa að flutningum á góssinu. Unglingarnir höfðu farið með öðrum íslenskum krökkum lóðbeint í sollinn á Amerísku ströndinni svo ég fékk þarna forsmekkinn að því sem kallað er áhyggjulaust ævikvöld, hlustaði á geggjaða tónlist meðan ég velti fyrir mér hvernig best væri að smyglinu staðið.

Ég datt loks niður á þá hugmynd að baða afleggjarana vel í eldhúsvaskinum, svo á þeim væru engar sjáanlegar óværur, og smokra þeim síðan vel rökum ofan í tóma plastflösku, sem heita núna á mínu heimili ferðagróðurhús, og pakka henni svo niður í ferðatöskuna. Til að spara Fíknó ómakið vil ég taka fram að þetta voru búganvillur, sprotar lauftrjáa og þykkblöðungar eingöngu.

Þegar ég hafði komið landnemunum fyrir tók ég úr skápunum þann þurrmat sem yrði eftir og setti á eldhúsbekkinn ásamt einu óétnu avókadó, sem þar lá fyrir, í þeirri von um að einhver gæti nýtt þessa afganga og matnum yrði ekki hent. Ég er eins og eflaust margir þungt haldin af innrætingu hinnar vel þenkjandi Rakelar Garðarsdóttur, vinkonu minnar, að mat eigi ekki að henda. Að matarsóun sé stórglæpur. Og fyrst ég er í játningarham þá skal viðurkennt að ég hendi nú mat stundum enn þá, því miður. Ég er þar helsek líka.

Aðfaranótt heimfarar, eftir smyglfráganginn, dreymir mig draum sem er á þessa leið. Ég er stödd ásamt margmenni í björtu stóru húsi og geng inn í hvítmálað eldhús og þar á kríthvítum eldhúsbekk, sem sólargeislar falla á, liggja tveir steinlausir hýðislausir avókadóhelmingar, með sárið niður að bekknum, svo fagur gulgrænir að ég gat ekki tekið augun af þeim. Í drauminum undraðist ég hversu fallegir þeir væru enn, því einhver tilfinning var fyrir því að þeir hefðu verið þarna á bekknum drjúga stund. Það hvarflaði alls ekki að mér að smakka á þeim því fegurð þeirra leyfði það bara ekki.

Fyrsta hugsun morgunsins, þegar ég vaknaði upp af þessum ánægjulega og sólríka draumi var þessi:  Avókadóið vill líka fá að fara heim til Íslands! Það heimtar að fara með mér heim! Og þar sem ég trúi á stokk og steina rauk ég fram úr rúminu og beint að avókadóinu og sagði upphátt: „Orð eru óþörf, ég náði þessu, þú vilt fara til Íslands og til Íslands muntu koma, elskan mín!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Talaði Trump af sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
31.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
25.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!