Kristinn Karl Brynjarsson, formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins, hefur lýst því yfir að hann styðji ekki lengur með nokkrum hætti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Ástæðan er álit Umboðsmanns Alþingis á þeirri embættisfærslu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að fresta hvalveiðileyfi síðasta sumar og viðbrögð Svandísar við álitinu í fjölmiðlum.
Kristinn segir í grein á Vísir.is:
„Það er mér algerlega lífins ómögulegt eftir úrskurð umboðsmanns Alþingins í Hvalveiðimálinu svokallaða og viðbragða hlutaðeigandi ráðherra og samstarfsflokka, að styðja á nokkurn hátt ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Viðbrögð matvælaráðherra, vegna úrskurðarins, sem voru eitthvað á þann hátt, að nauðsynlegt hafi verið, þar sem lögin sem unnið hafi verið eftir séu svo gömul og úrelt að ganga fram með þessum hætti. Það er að þverbrjóta stjórnsýslulög og ganga jafn freklega fram gegn stjórnarskrárvörðum rétti manna og raun ber vitni, eru svo gersamlega víðáttuvitlaus, óforskömmuð og gersamlega fordæmalaus, að segja má að ráðherrann hafi með þeim í rauninni verið að senda Alþingi Íslendinga, löggjafanum sjálfum og þjóðinni löngutöng.“
Kristinn segir fráleitt að ætla að halda ríkisstjórnarsamstarfi áfram óbreyttu og taka áliti Umboðsmanns Alþingis sem hverju öðru hundsbiti. Kristinn segir að ríkisstjórnarinnar bíði mörg erfið verkefn og leysa þurfi þau án aðkomu Svandísar Svavardóttur. Hann segir:
„Það þarf bara að hefjast handa og ekki una sér hvíldar uns árangri er náð. Það er ekkert minna undir en eitt stykki framtíð og velferð heillar þjóðar. Hvort um sig hlýtur í hugum okkar flestra að vega þyngra, en pólitískt líf hæstvirts matvælaráðherra.
Gjör rétt – þol ei órétt!“