fbpx
Mánudagur 11.desember 2023
Eyjan

Segir gagnrýni Bjarna og sjálfstæðismanna á Samgöngusáttmálann hitta þá sjálfa fyrir – sáttmálinn sé á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 20. september 2023 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Arnarson sendir Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum tóninn í nýjum Náttfarapistli á Hringbraut.

Tilefni skrifanna er að í dag ætlar Bjarni Benediktsson að ávarpa flokksmenn sína í Valhöll og fjalla um Samgöngusáttmálann sem formenn allra stjórnarflokkanna undirrituðu ásamt forystufólki sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu árið 2019.

Kjarninn í skrifum Ólafs er að þrátt fyrir að Bjarni og sjálfstæðismenn keppist nú við að gera meirihlutann í Reykjavík, og þá sérstaklega borgarstjórann, ábyrgan fyrir Samgöngusáttmálanum og þeim kostnaðarauka sem við blasi séu það samt sjálfstæðismenn sem eigi heiðurinn af sáttmálanum og umfangi hans. Hann hafi sjálfur sem fjármálaráðherra skrifað undir hann ásamt fimm bæjarstjórum af höfuðborgarsvæðinu, sem allir voru sjálfstæðismenn. Auk allra þessara sjálfstæðismanna hafi einn kommi, einn framsóknarmaður og einn samfylkingarmaður skrifað undir.

Þessu til viðbótar séu sjálfstæðismenn áberandi í stjórn Betri byggðar. Þar gegni formennsku Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, og í stjórn með honum sé Gunnar Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Þá sé framkvæmdastjóri Betri byggðar, Davíð Þorláksson, fyrrverandi formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Allt séu þetta mætir menn sem Sjálfstæðisflokkurinn geti verið hreykinn af.

Ólafur bendir á að engum dyljist að hugmyndir ráðamanna um heildarkostnað hafa hækkað mikið frá því skrifað var undir sáttmálann vegna mikillar verðbólgu, verðhækkana aðfanga í heiminum og vanmats þeirra og fólksins sem hefur unnið að málinu frá upphafi.

Hann gefur lítið fyrir málflutning sjálfstæðismanna um bágan fjárhag Reykjavíkurborgar. Þessi málflutningur komi frá fólki sem ber ábyrgð á ríkisfjármálum sem rekin séu með viðvarandi methalla ár eftir ár. Mínusinn á ríkissjóði síðustu fjögur árin nemi meira en eitt þúsund milljörðum króna. Engin fjármálasnilli sé að leysa málin með seðlaprentun sem kyndi verðbólgubálið „sem núverandi vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur ber höfuðábyrgð á.“

Ólafur bendir á að birt hafi verið heilsíðumynd af formanni Sjálfstæðisflokksins í auglýsingu fyrir þennan fund í Morgunblaðinu en slíkar myndbirtingar séu venjulega aðeins daginn fyrir kosningar.

Ef menn þekkja forystu Sjálfstæðisflokksins rétt, þá er ætlunin með umræddum fundi í dag að halda áfram að kasta skít í meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur og reyna að kenna honum um það sem er erfitt vegna þessa máls. En fólk sér í gegnum það. Kjósendur í Reykjavík eru orðnir vanir því að sjá í gegnum áróður Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið að mestu valdalaus í borginni frá því árið 1994, í bráðum 30 ár. Hvers vegna skyldu kjósendur hafna flokknum í Reykjavík en ekki í nágrannabyggðunum?

Ólafur segir skítkast um samgöngusáttmálann einungis munu hitta Sjálfstæðisflokkinn beint í andlitið þar sem sjálfstæðismenn séu ráðandi í Betri byggð eins og fyrr segir. Birtir hann mynd sem tekin var við undirritun Samgöngusáttmálans árið 2019, en sex af níu sem skrifuðu undir hann voru sjálfstæðismenn. Sú mynd er birt hér að ofan.

Við undirritun samningsins voru formenn ríkisstjórnarflokkanna mætti. „Forsætisráðherra vinstri stjórnarinnar, Katrín Jakobsdóttir formaður sósíalistanna, er glöð í bragð eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar. Frá borginni var borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson og einnig bæjarstjórar allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu; sjálfstæðismennirnir Ármann Kr. Ólafsson, Rósa Guðbjartsdóttir, Gunnar Einarsson, Haraldur Sverrisson og Ásgerður Halldórsdóttir. Sem sagt: Einn kommi, einn Framsóknarmaður, einn frá Samfylkingunni en sex sjálfstæðismenn!

Svo séu sjálfstæðismenn allt í öllu hjá Betri byggð, eins og fyrr segir.

Ólafur telur að Bjarni Benediktsson ætti að nota fundinn í dag til að horfast í augu við þennan raunveruleika, „hætta barnalegum og vonlausum áróðri gagnvart meirihluta miðjuflokkanna í borgarstjórn, taka forystu í að endurraða þessum dýru en brýnu verkefnum í mikilvægisröð og lyfta sér og flokki sínum upp fyrir brúnina á sandkassanum.

Bjarni getur styrkt sig sem stjórnmálamaður með því að lyfta umræðunni á „örlítið hærra plan“, eins og einu sinni var sagt af allt öðru tilefni. Fundurinn í dag er tækifæri sem gæti gagnast honum.“

Náttfara í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hvað gekk henni til? spyr Kristrún Frostadóttir sem segir reglugerð Þórdísar Kolbrúnar beinlínis stuðla að húsnæðisskorti í Reykjavík

Hvað gekk henni til? spyr Kristrún Frostadóttir sem segir reglugerð Þórdísar Kolbrúnar beinlínis stuðla að húsnæðisskorti í Reykjavík
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fjölsóttur morgunverðarfundur um notkun gervigreindar í fjártækni

Fjölsóttur morgunverðarfundur um notkun gervigreindar í fjártækni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að vera sigldur

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að vera sigldur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Dómar í kynferðisbrota- og ofbeldismálum fyrnast – fjársvelt fangelsi landsins geta ekki tekið við föngum

Dómar í kynferðisbrota- og ofbeldismálum fyrnast – fjársvelt fangelsi landsins geta ekki tekið við föngum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilhjálmur segir Seðlabankann gefa skít í alla nema fjármálakerfið – „Hvar er þessi hagfræði kennd?“

Vilhjálmur segir Seðlabankann gefa skít í alla nema fjármálakerfið – „Hvar er þessi hagfræði kennd?“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Aðventutónleikar Flugfreyjukórsins verða í Laugarneskirkju annað kvöld – aðgangur ókeypis!

Aðventutónleikar Flugfreyjukórsins verða í Laugarneskirkju annað kvöld – aðgangur ókeypis!
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Nýr lögfræðingur Félags íslenskra atvinnuflugmanna

Nýr lögfræðingur Félags íslenskra atvinnuflugmanna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bergþór ekki sáttur við Guðlaug Þór – „Þetta er glapræði af hálfu ráðherrans“

Bergþór ekki sáttur við Guðlaug Þór – „Þetta er glapræði af hálfu ráðherrans“