fbpx
Þriðjudagur 03.október 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: „Woke“, opinberar syndajátningar og gagnsleysi dyggðaflöggunar

Eyjan
Sunnudaginn 17. september 2023 16:11

Forstöðumenn klæðakaupmannagildisins í Amsterdam (h. De Staalmeesters). Olíumálverk Rembrandts frá 1662.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hugarheimur æði margra samborgara okkar er gegnsýrður af amerískum þankagangi. Þess sér reglulega stað í stjórnmálaumræðunni hér — sem og annars staðar í Norðurálfu — þar sem reynt er að heimfæra deiluefni bandarísks þjóðlífs upp á evrópskan veruleika. Útkoman verður í besta falli hjákátleg en getur líka orðið stórskaðleg. Eitt þessara fyrirbæra í amerískri umræðu er svokallað „woke“ sem er svo óljóst hugtak að illmögulegt er að íslenska það með nokkurri nákvæmni. Orðið er gjarnan notað af réttlætisriddurum vestanhafs sem hafa einkum talið sig vera kyndilbera í baráttu gegn hvers kyns félagslegri mismunun og þá sér í lagi á grundvelli kynþáttar. Bandaríski málvísindamaðurinn, John McWorther, hefur kallað postula þessarar hreyfingar „hina útvöldu“; þeir telji sig hafa höndlað einhvern sannleika sem flestum öðrum sé hulinn.

Í umfjöllun sem birtist í septemberhefti franska blaðsins Le Monde diplomatique er þetta síðastnefnda atriði gert að umtalsefni og bent á að um sé að ræða fyrirbæri nátengt trúarhreyfingum mótmælenda. Syndajátningar frammi fyrir alþjóð og opinber iðrun eigi sér einkum rætur í siðskiptahreyfingunni — kaþólskir menn játi aftur á móti syndir sínar frammi fyrir presti og geri iðrun og yfirbót í einrúmi. Opinberar syndajátningar séu ástundaðar á okkar tímum sem aldrei fyrr og fylgi gjarnan í kjölfar þess að einhver var forsmáður frammi fyrir alþjóð vegna skoðunar sem hann viðraði eða athæfis hans sem þótti móðgandi — og jafnvel var ástæðan sú ein að viðkomandi lét eitthvert orð falla sem hinir nýju æðstuprestar höfðu fordæmt (og samhengið þá jafnvel orðið aukaatriði).

Í Bandaríkjunum — höfuðríki mótmælenda — tóku prédikarar sjónvarpstæknina snemma í sína þjónustu. Þar eru leiddir fram bersyndugir menn, þeir látnir játa syndir sínar frammi fyrir milljónum áhorfenda sem síðan eru hvattir til að reiða fram fjármuni til safnaðarstarfsins. Sama sjónarspil var yfirfært á veraldlegri þætti, líkt og þeirra Opruh Winfrey og Phil McGraw („Dr. Phil“) þar sem játningalágkúran og smánunin birtist í æðra veldi.

Svartklæddu tignarmennirnir

Skrif Max Weber um vinnusiðferði mótmælenda þekkja flestir en áhrif mótmælendatrúar á þjóðfélög eru margslungnari. Bandaríski sagnfræðingurinn Richard Hofstadter, sem var tvöfaldur Pulitzer-verðlaunahafi, benti árið 1964 á þá ríku tilhneigingu þarlendra stjórnmálamanna að umbreyta hvers kyns félagslegum átökum í andlega glímu góðs og ills. Þeir sem byggju við háa félagslega stöðu í löndum mótmælenda teldu sig gjarnan hafa öðlast þann sess í krafti dyggðugs lífernis; þeir væru „útvaldir“ í einhverjum skilningi.

Í umfjöllun Le Monde diplomatique er í þessu sambandi bent á hin kunnu málverk hollensku meistaranna á sextándu öld sem sýna virðulega svartklædda tignarmenn sitja við eikarborð. Þeir höfðu ef til vill skömmu áður útdeilt gjöfum til þeirra þurfalinga sem álitnir voru þess verðugir að þeim yrði veitt ölmusa. Hinir virðulegu borgarar töldu sig dyggðum prýdda þrátt fyrir að ýmsir þeirra hefðu ef til vill hagnast á þrælaverslun, ellegar þrælavinnu á plantekrum sem Hollendingar voru þá óðum að koma sér upp í nýja heiminum. En sem sanntrúaðir kalvínistar töldu þeir almættið hafa snortið sig guðlegri náð sem væri endurgjald fyrir siðferðilega réttsýni.

Friðþægingin

Hinir „dyggðum prýddu“ svartklæddu herramenn eru enn á meðal vor og í umfjöllun blaðsins eru nefnd ýmis dæmi um tvöfalt siðgæði milljarðamæringa vestanhafs sem um þessar mundir skreyta sig gjarnan með áróðri gegn félagslegri mismunun (þó svo að finna megi fjölmörg dæmi um að fyrirtæki viðkomandi ástundi margs kyns óhæfu af því tagi). Nálega öll stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna hafa til að mynda sett sér hástemmd markmið um „fjölbreytileika, jöfnuð og þátttöku“ og gildir einu hvort í hlut eiga framleiðendur ruslfæðis, vígtóla eða fjárfestingarbankar (í greininni eru tekin dæmi af PepsiCo, Lockheed Martin og Goldman Sachs). Fáir efast um gildi jafnræðis og samfélagslegrar virkni en fjölbreytileiki hefur ekkert gildi í sjálfu sér; fjölbreytileiki getur verið góður eða slæmur eftir atvikum. Einsleitni hefur að sama skapi kosti og galla rétt eins og fjölbreytileiki.

Hvað sem því líður þá liggur fyrir að dyggðaflöggun fyrirtækja og stofnana er ekkert annað en innantómir orðaleppar — sem þó verður að þylja, enda orðnir hluti af helgisiðum mótmælenda. Þá er víða í skólakerfinu vestanhafs sú hugsun orðin ríkjandi að þeir sem fæðist hvítir á hörund búi við eitthvað sem kallað eru „forréttindi hvítra“ og gildir þá einu hvort menn séu snauðir eða lifi við allsnægtir. Viðkomandi verði — hvað sem tautar og raular — að játa syndir sínar með sama hætti og friðþægingin birtist okkur í trúarhugmyndum mótmælenda. Menn eru með öðrum orðum ekki flokkaðir eftir mannkostum heldur hörundslit. Öll þessi hugmyndafræði sem gjarnan er kennd við „woke“ hefur heltekið þá sem skilgreina sig vinstra megin við miðju í stjórnmálum vestanhafs og baráttan fyrir bættum kjörum alþýðufólks hefur á sama tíma fallið í skuggann.

Í lok fyrrnefndrar umfjöllunar er vitnað til Adolphs Leonards Reed yngri sem er prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Háskólann í Pennsylvaníu. Sjálfur er hann dökkur á hörund og hefur skilgreint sig sem marxista. Hann hefur varað við þeirri þröngu sýn á félagslega mismunun sem að framan er rakin því þá missi menn sjónar á efnahagslegu misrétti og skertu aðgengi margra að menntun og heilbrigðisþjónustu. Umbætur á þeim sviðum muni gagnast hinum lakast settu í þjóðfélaginu raunverulega — dyggðaflöggun geri það trauðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Hinir friðsömu Íslendingar

Björn Jón skrifar: Hinir friðsömu Íslendingar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Öskjuhlíðin er um allt land

Sigmundur Ernir skrifar: Öskjuhlíðin er um allt land
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tvær kúvendingar og einn kollhnís

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tvær kúvendingar og einn kollhnís
EyjanFastir pennar
02.09.2023

Sigmundur Ernir skrifar: Dómurinn yfir bankakerfinu

Sigmundur Ernir skrifar: Dómurinn yfir bankakerfinu
EyjanFastir pennar
02.09.2023

Óttar Guðmundsson skrifar: Grenitrjáablæti

Óttar Guðmundsson skrifar: Grenitrjáablæti
EyjanFastir pennar
27.08.2023

Björn Jón skrifar: Skýr hugmyndafræðileg sýn Frakklandsforseta

Björn Jón skrifar: Skýr hugmyndafræðileg sýn Frakklandsforseta
EyjanFastir pennar
20.08.2023

Björn Jón skrifar: Það sem Ásgeir sagði á Hólum

Björn Jón skrifar: Það sem Ásgeir sagði á Hólum
EyjanFastir pennar
19.08.2023

Svarthöfði skrifar: Refsivöndurinn

Svarthöfði skrifar: Refsivöndurinn
EyjanFastir pennar
13.08.2023

Björn Jón skrifar: Að leita upprunans

Björn Jón skrifar: Að leita upprunans
EyjanFastir pennar
12.08.2023

Sigmundur Ernir skrifar: Láglendisvæðing öræfanna

Sigmundur Ernir skrifar: Láglendisvæðing öræfanna