fbpx
Laugardagur 30.september 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Það sem Ásgeir sagði á Hólum

Eyjan
Sunnudaginn 20. ágúst 2023 16:00

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Trúin skiptir mig máli. Það þýðir ekki að ég trúi öllu því sem stendur í Biblíunni, vilji sækja vakningasamkomur, né heldur að mig langi til þess að hártogast um tilvist heilagrar þrenningar — líkt og menn dunduðu sér við hér áður. En ég hef trú á siðferðisboðskap Jesú frá Nazaret eins og birtist með hans eigin orðum í Nýja testamentinu. Líkt og hvernig hann notar líkinguna um góða hirðinn til þess að skýra hugsun sína um samhygð, fyrirgefningu og að við hugum að þeim sem villast frá hjörðinni eða eru of veikir til þess að fylgja henni eftir.“

Þannig komst Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að orði á nýliðinni Hólahátíð. Við lausnir á þeim andlega vanda sem bersýnilega steðjaði að ungu fólki dygði ekki að horfa til opinberra kerfa. Tala yrði „skýrt um grunngildi þjóðfélagsins okkar og í hvernig samfélagi við viljum búa“. Hann ræddi í því sambandi það kristna uppeldi sem hann hefði fengið. Slíkt mætti ekki ekki vera feimnismál, líkt og tilhneiging væri til um þessar mundir.

Sannvantrúaðir í stað sanntrúaðra

Kristindómurinn er ekki eingöngu trúarbrögð heldur líka grundvöllur vestrænnar menningar og þar með íslenskrar. Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor á Árnastofnun, gerði eddukvæðin að umtalsefni í pistli í Morgunblaðinu í gær. Fyrir Snorra Sturlusyni hefði vakað að skýra hið forna skáldamál sem sprottið var úr heiðnum hugarheimi en Gísli velti því upp að eflaust hafi sanntrúaðir kirkjunnar þjónar amast við þeirri kennslu Snorra og viljað halda heiðnum goðsögum frá ungmennum. Á okkar tímum væri umburðarlyndið slíkt að sjálfsagt þætti að innræta skólabörnum heiðnar trúarhugmyndir Eddu — enda auðgi það orðaforða þeirra og geri þau læs á menningararfinn. Öðru gegndi um frásagnir Biblíunnar og nú væri mörgu „sannvantrúuðu fólki“ uppsigað við að biblíusögur væru kenndar í grunnskólum. Gísli nefndi á móti að jafnmikilvægt væri að ungt fólk kynntist sögum Biblíunnar og að það læsi eddukvæði og fornsögur

„því að tungutakið, myndmálið og táknkerfin úr öllum þessum sagnaarfi umvefja okkur daglega. Til þess að botna í veröldinni, hvernig fólk hefur talað um hana og tjáð reynslu sína í listum í aldanna rás, verða börn að fá góða fræðslu í þeim sögum sem hafa leikið aðalhlutverkið í meira en þúsund ár á okkar menningarsvæði. Fólki er svo frjálst að hugleiða með sjálfu sér hverju það trúir og hvernig það kýs að skilja og iðka trú sína — hvort sem það velur að trúa á Guð með sínum hætti eða trúa ekki á Guð og hugsa sér þá um leið hvernig sá Guð sé sem það trúir ekki á …“

„Öld leitarinnar“

Seðlabankastjóri gat þess í ræðu sinni á Hólahátíð að íslenskt samfélag væri mótað af kristnum hugmyndum og gildum en þar skipti máli að við hefðum sjálf mótað okkar eigin kristni frá öndverðu, sett upp okkar eigin kirkju með sterkum þjóðlegum einkennum þar sem stuðst var við íslenska tungu í starfi. Kirkjan hefði um aldir verið mikilvægasta menningarstofnun Íslendinga og hún hefði sinnt því hlutverki vel.

Sjálfur rakti Ásgeir ævintýralegt lífshlaup Jóns Arasonar í bók sem kom út fyrir þremur árum og setti þar uppreisn Jóns í samhengi við evrópska valdapólitík siðskiptaaldar. Rúmum þremur öldum fyrr sat á biskupsstóli á Hólum Guðmundur Arason. Ekki var langt um liðið frá vígslu Guðmundar er hann var farinn að deila við helstu höfðingja. Kolbeinn Tumason, höfðingi Ásbirninga, hafði stuðlað mjög að kjöri biskups en brátt var orðinn fullur fjandskapur með þeim biskupi. Svo fór að Kolbeinn féll í Víðinesbardaga þar sem menn hans mættu liði biskups.

Óttar Guðmundsson geðlæknir velti því upp í pistli fyrir ekki svo löngu hvað Guðmundi góða kynni að þykja um þá upphefð sem Kolbeinn hefur hlotið síðustu árin þegar sálmur hans „Heyr, himna smiður“ er orðinn frægur um víða veröld, en biskup hafði gengið svo langt að bannfæra Kolbein árið 1206. Gefum Óttari orðið:

„Þetta er enn eitt dæmið um forgengileika lífsins. Þessir fornu fjandmenn hafa haft sætaskipti í mannvirðingarstiganum. Kolbeinn Tumason er orðinn helgur maður en Guðmundur fallinn í gleymsku og dá. Sic transit gloria mundi!“

Fyrir mörgum Íslendingum (og raunar Norðmönnum líka) var Guðmundur biskup heilagur maður en í því sambandi er gott að hafa hugfast að margir dýrlingar hafa leitt menn afvega og syndgarar segja oft sannleikann. Því ríður á að skoða það sem sagt er, fremur en þann sem talar. Prédikarinn hafði séð öll verk sem gjörðust undir sólinni og allt var það „hégómi og eftirsókn eftir vindi“ en bætti því við að samfara mikilli speki væri mikil gremja og sá sem yki þekkingu sína yki líka kvöl sína. En hann sá að spekin hafði yfirburði yfir heimskuna eins og ljósið hafði yfirburði yfir myrkrið: „Vitur maður hefur augun í höfðinu, en heimskinginn gengur í myrkri.“ Spekin veitir og vitrum manni meiri kraft en tíu valdhafar sem eru í borginni: „Orð viturra manna, sem hlustað er á í ró, eru betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna.“

Ásgeir seðlabankastjóri kvaðst telja að okkar öld yrði „öld leitarinnar“, því fólk þyrsti í lífsfyllingu með þeim hætti sem efnishyggjan gæti ekki svalað. Líklega leita flestir langt yfir skammt að svörum við lífsgátunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Hinir friðsömu Íslendingar

Björn Jón skrifar: Hinir friðsömu Íslendingar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Öskjuhlíðin er um allt land

Sigmundur Ernir skrifar: Öskjuhlíðin er um allt land
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tvær kúvendingar og einn kollhnís

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tvær kúvendingar og einn kollhnís
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Dómurinn yfir bankakerfinu

Sigmundur Ernir skrifar: Dómurinn yfir bankakerfinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grenitrjáablæti

Óttar Guðmundsson skrifar: Grenitrjáablæti
EyjanFastir pennar
27.08.2023

Björn Jón skrifar: Skýr hugmyndafræðileg sýn Frakklandsforseta

Björn Jón skrifar: Skýr hugmyndafræðileg sýn Frakklandsforseta
EyjanFastir pennar
19.08.2023

Svarthöfði skrifar: Refsivöndurinn

Svarthöfði skrifar: Refsivöndurinn
EyjanFastir pennar
19.08.2023

Sigmundur Ernir skrifar: Að skammast sín fyrir þjóðtunguna

Sigmundur Ernir skrifar: Að skammast sín fyrir þjóðtunguna
EyjanFastir pennar
12.08.2023

Sigmundur Ernir skrifar: Láglendisvæðing öræfanna

Sigmundur Ernir skrifar: Láglendisvæðing öræfanna
EyjanFastir pennar
12.08.2023

Óttar Guðmundsson skrifar: Sanngirnisbætur

Óttar Guðmundsson skrifar: Sanngirnisbætur